Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og fimmti varaforseti Alþingis, sleit þingfundi í gærkvöldi klukkan 23.39 og frestaði þar með áframhaldandi umræðu um veiðigjöld fram til morguns.
Heimildir mbl.is herma að það hafi hún gert í óþökk forseta Alþingis, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, en fyrirhugað var að þingfundur héldi áfram inn í nóttina.
Síðasti ræðumaður kvöldsins var Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, en í miðri ræðu hans má sjá þegar Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, kemur til Hildar og þau ræða stuttlega saman. Skömmu síðar sleit Hildur svo fundi.
Viðræður um þinglok sigldu enn í strand í gær er Kristrún Frostadóttir sleit viðræðunum. Ef að líkum lætur má búast við líflegum degi í þinginu í ljósi stöðunnar.
Uppfært: Eftir að fréttin var birt ræddi mbl.is við Hildi Sverrisdóttur og vill hún koma því á framfæri að Bergþór hafi undir lok þingfundar verið að afhenda henni dagskrártillögu og að samtal þeirra tengdist fundarslitum ekki. Hún hafi farið að öllum reglum þegar hún sleit fundinum.