Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir ummæli ráðherra í ríkisstjórn sem látin voru falla í hennar garð á Alþingi í dag vera ógeðfelld.
Hildur lét þessi orð falla er hún steig í pontu í fyrsta sinn í dag á Alþingi en gustað hefur um Hildi í kjölfar þess að hún sleit þingfundi í gærkvöldi laust fyrir miðnætti. Var það gert í óþökk meirihlutans og Þórunnar Sveinbjarnardóttir þingforseta, er Hildur stýrði þingfundi sem varaforseti.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, sakaði Hildi meðal annars um valdarán í ræðustól Alþingis fyrr í dag.
„Ég vil þó hins vegar fá að nota þetta tækifæri, frú forseti, og gera alvarlegar athugasemdir við hvernig hæstvirtir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands töluðu um mig í ljósi þessa atviks eins og þeir gerðu hér í morgun og fleiri en einn og fleiri en tveir og það var ekki eingöngu þolað af hálfu meirihlutans. Það var beinlínis stutt og hvatt áfram,“ sagði Hildur í ræðustól Alþingis.
Hildur bætti því við að ummæli ráðherrana væru bæði alvarleg og ógeðfelld og væru auk þess ekki þinginu til sóma.
Sagði hún miður að stjórnarmeirihlutinn horfist ekki í augu við þá stöðu sem sé í þinginu en Hildur bæti því við að meirihlutinn glími við vangetu til að ná fram samningum um þinglok.
Ræða Hildar endaði með því að hún frábað sér málflutning sem viðhafður hefur verið til handa stjórnarandstöðunni, sem sinnir að hennar sögn lýðræðislegu hlutverki.