Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um húsbrot í Hlíðarhverfi Reykjavíkur í dag. Er lögreglu bar að garði var lögbrjóturinn á bak og burt og er ekki vitað hver hann er.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 5-17 í dag.
Segir þar að ökumaður hafi verið stöðvaður í akstri í Laugardalnum vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.
Annar ökumaður var stöðvaður Múlahverfi Reykjavíkur og kom í ljós við athugun að hann hafði verið sviptur ökuréttindum. Var málið afgreitt með sekt.
Í Garðabæ var tilkynnt um umferðarslys þar sem minni háttar meiðsli urðu á ökumönnum og voru tvær bifreiðar dregnar á brott með dráttarbíl.
Sömuleiðis var tilkynnt um umferðarslys í miðbæ Kópavogsbæjar þar sem engin slys urðu á fólki. Bifreiðarnar voru hins vegar töluvert skemmdar og voru dregnar burt með dráttabíl.
Þá var einn maður handtekinn fyrir minniháttar líkamsárás í Grafarholti og var vistaður í fangageymslu lögreglunnar sökum ástands síns.