Gestur Pétursson, forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar, segir að bera þurfi fyrirliggjandi gögn saman við ný lög um virkjanaframkvæmdir í máli Hvammsvirkjunar.
Hann segir mat stofnunarinnar það að raunhæft sé að ferli við nýtt virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar tæki um fjórtán vikur ef öll gögn liggi fyrir og engin óvissa eða ógildingaráhætta sé til staðar, en að í allra stysta lagi gæti ferlið tekið um níu vikur.
Það þýðir að leyfi gæti legið fyrir um miðjan september, ef marka má ummæli forstjóra Landsvirkjunar um að ráðist verði í umsókn endurveitingar leyfisins sem allra fyrst.
Gestur segir að öll gögn málsins liggi fyrir og fyrra virkjunarleyfi hafi verið samþykkt á grundvelli þeirra. Bera þurfi gögnin saman við ný lög.
„Dómur Hæstaréttar snýr fyrst og fremst að ágalla í löggjöfinni eins og hún var innleidd á sínum tíma, og óski Landsvirkjun eftir því að við tökum málið aftur til efnislegrar meðferðar þá gerum við það á grundvelli nýrra laga.“
Dómurinn taki ekkert á nýju lögunum, enda hafi það ekki verið hlutverk dómsins.
Gestur segir að vegna lagabreytinga sé óvissa um gildi leyfisins mun minni en hún var áður, en eins og fram hafi komið áður hafi óvissa ríkt um allar innviðaframkvæmdir sem gætu valdið breytingum á vatnshloti, svo sem brúargerðir og bygging flóðvarnargarða.
„Við teljum að ef lögunum hefði ekki verið breytt þá hefðum við ekki getað afgreitt nein mál þar sem vatnshlot var að breytast, samanber gerð flóðvarnargarða og brúa. En nú hefur lögunum verið breytt og þessari óvissu sömuleiðis eytt.“
Gestur segir leyfisveitingarferlið hafa tekið smávægilegum breytingum vegna sameiningar Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar í upphafi árs, en áður var heimild Umhverfisstofnunar til breytingar á vatnshloti forsenda þess að Orkustofnun gæti gefið út virkjunarleyfi.
Hann segir sameininguna þegar hafa skilað sér í aukinni skilvirkni án þess að neinn afsláttur hafi verið gefinn af faglega þættinum.
„Fyrstu sex mánuði þessa árs erum við búin að afgreiða jafnmörg leyfi og afgreidd voru af forverum okkar á tólf mánuðum samtals.“
Gestur segist ekki geta svarað fyrir það hvort ráðast þurfi í breytingar á umfangi virkjunarinnar af umhverfisverndarástæðum í sambandi við vatnshlot.
Hann vísar jafnframt fyrirspurn um mögulegar tafir á framkvæmdum við Hvammsvirkjun til Landsvirkjunar, en í fyrrnefndu samtali Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, við mbl.is kom fram að seinkunin yrði umtalsverð.