Raunhæft að leyfi liggi fyrir eftir fjórtán vikur

Leyfi fyrir framkvæmdum við Hvammsvirkjun gæti legið fyrir um miðjan …
Leyfi fyrir framkvæmdum við Hvammsvirkjun gæti legið fyrir um miðjan september eða í lok október. Samsett mynd/mbl.is/Karítas/Tölvuteikning/Landsvirkjun

Gest­ur Pét­urs­son, for­stjóri Um­hverf­is- og orku­stofn­un­ar, seg­ir að bera þurfi fyr­ir­liggj­andi gögn sam­an við ný lög um virkj­ana­fram­kvæmd­ir í máli Hvamms­virkj­un­ar.

Hann seg­ir mat stofn­un­ar­inn­ar það að raun­hæft sé að ferli við nýtt virkj­un­ar­leyfi Hvamms­virkj­un­ar tæki um fjór­tán vik­ur ef öll gögn liggi fyr­ir og eng­in óvissa eða ógild­ingaráhætta sé til staðar, en að í allra stysta lagi gæti ferlið tekið um níu vik­ur.

Það þýðir að leyfi gæti legið fyr­ir um miðjan sept­em­ber, ef marka má um­mæli for­stjóra Lands­virkj­un­ar um að ráðist verði í um­sókn end­ur­veit­ing­ar leyf­is­ins sem allra fyrst.

Öll gögn máls­ins liggja fyr­ir

Gest­ur seg­ir að öll gögn máls­ins liggi fyr­ir og fyrra virkj­un­ar­leyfi hafi verið samþykkt á grund­velli þeirra. Bera þurfi gögn­in sam­an við ný lög.

„Dóm­ur Hæsta­rétt­ar snýr fyrst og fremst að ágalla í lög­gjöf­inni eins og hún var inn­leidd á sín­um tíma, og óski Lands­virkj­un eft­ir því að við tök­um málið aft­ur til efn­is­legr­ar meðferðar þá ger­um við það á grund­velli nýrra laga.“

Dóm­ur­inn taki ekk­ert á nýju lög­un­um, enda hafi það ekki verið hlut­verk dóms­ins.

Óvissa mun minni en áður

Gest­ur seg­ir að vegna laga­breyt­inga sé óvissa um gildi leyf­is­ins mun minni en hún var áður, en eins og fram hafi komið áður hafi óvissa ríkt um all­ar innviðafram­kvæmd­ir sem gætu valdið breyt­ing­um á vatns­hloti, svo sem brú­ar­gerðir og bygg­ing flóðvarn­argarða.

„Við telj­um að ef lög­un­um hefði ekki verið breytt þá hefðum við ekki getað af­greitt nein mál þar sem vatns­hlot var að breyt­ast, sam­an­ber gerð flóðvarn­argarða og brúa. En nú hef­ur lög­un­um verið breytt og þess­ari óvissu sömu­leiðis eytt.“

Leyf­is­veit­ing­ar­ferli tekið smá­vægi­leg­um breyt­ing­um

Gest­ur seg­ir leyf­is­veit­ing­ar­ferlið hafa tekið smá­vægi­leg­um breyt­ing­um vegna sam­ein­ing­ar Um­hverf­is­stofn­un­ar og Orku­stofn­un­ar í upp­hafi árs, en áður var heim­ild Um­hverf­is­stofn­un­ar til breyt­ing­ar á vatns­hloti for­senda þess að Orku­stofn­un gæti gefið út virkj­un­ar­leyfi. 

Hann seg­ir sam­ein­ing­una þegar hafa skilað sér í auk­inni skil­virkni án þess að neinn af­slátt­ur hafi verið gef­inn af fag­lega þætt­in­um.

„Fyrstu sex mánuði þessa árs erum við búin að af­greiða jafn­mörg leyfi og af­greidd voru af for­ver­um okk­ar á tólf mánuðum sam­tals.“

Gest­ur seg­ist ekki geta svarað fyr­ir það hvort ráðast þurfi í breyt­ing­ar á um­fangi virkj­un­ar­inn­ar af um­hverf­is­vernd­ar­ástæðum í sam­bandi við vatns­hlot.

Hann vís­ar jafn­framt fyr­ir­spurn um mögu­leg­ar taf­ir á fram­kvæmd­um við Hvamms­virkj­un til Lands­virkj­un­ar, en í fyrr­nefndu sam­tali Harðar Arn­ar­son­ar, for­stjóra Lands­virkj­un­ar, við mbl.is kom fram að seink­un­in yrði um­tals­verð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert