Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fordæmdi orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra frá því í gær þegar hún sagði í viðtali við Vísi að framundan væri „orrustan um Ísland.“
Þórunn Sveinbjarnardóttir þingforseti beitti nú í morgun 71. grein þingskaparlaga og lagði þar með til að stöðva umræðu um veiðigjaldamálið.
„Þetta er ekkert orrustan um Ísland, að vera að vitna með þessum hætti í orrustuna um Bretland. Ég vil bara segja við hæstvirtan utanríkisráðherra að þú ert enginn Winston Churchill,“ segir Njáll í ræðustól Alþingis nú rétt áðan er hann tjáði sig um atkvæðagreiðsluna sem er nú framundan samkvæmt tillögu þingforseta.
Njáll bætti því við að hann væri stoltur af baráttu sinni fyrir sjávarútvegsþorp í umræðu um málið. Hann segir að frumvarpið sé illa unnið og margt sé hægt laga frá því sem nú er.