Alvarlegt mál að beðið hafi verið um minnisblaðið

Guðrún Hafsteinsdóttir lítur framferði ríkisstjórnarflokkanna alvarlegum augum.
Guðrún Hafsteinsdóttir lítur framferði ríkisstjórnarflokkanna alvarlegum augum. mbl.is/Eyþór

Guðrún Haf­steins­dótt­ir, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, seg­ist líta það grafal­var­leg­um aug­um að Flokk­ur fólks­ins hafa beðið skrif­stofu Alþing­is um að vinna minn­is­blað um upp­runa og beit­ingu 71. grein­ar þing­skap­ar­laga fyr­ir rúm­um tveim­ur mánuðum síðan. 

Beiðni Flokks fólks­ins, um það að skrif­stofa Alþing­is myndi vinna minn­is­blaðið, er dag­sett 7. maí en þá voru aðeins tveir dag­ar liðnir frá því að fyrsta umræða um veiðigjalda­frum­varp Hönnu Katrín­ar Friðriks­son hófst. 

Guðrún ræddi við mbl.is á Alþingi í dag en þriðja umræða um frum­varpið stend­ur nú yfir. 

Hver ein­asti maður sjái að þetta sé fífla­gang­ur

„Við erum stödd í leik­riti sem er skrifað af stjórn­ar­flokk­un­um. Af hverju í ósköp­un­um er rík­is­stjórn­in að biðja um minn­is­blað sem fjall­ar um það hvernig eigi að beita ákvæðinu? Af hverju er verið að biðja um þetta 7. maí, tveim­ur dög­um eft­ir að umræða hófst? Það hlýt­ur hver ein­asti maður að sjá það að þetta er fífla­gang­ur,“ seg­ir Guðrún og bæt­ir við að hún horfi málið al­var­leg­um aug­um.

Guðrún bein­ir þá spjót­um sín­um að orðum Kristrún­ar Frosta­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra, í ræðustól Alþing­is fyr­ir tveim­ur dög­um síðan, þar sem hún sagði í sér­stakri yf­ir­lýs­ingu að meiri­hlut­inn ætlaði að „verja lýðveldið Ísland.“

„Ég lít líka á það sem grafal­var­legt þegar for­sæt­is­ráðherra Íslands tal­ar um það í ræðu á Alþingi að hún þurfi að standa vörð um lýðveldið Ísland. Hvern þarf að verja og hver er ógn­in? Það er eng­in inn­rás­ar­her í land­inu og hér eru eng­ar stór­kost­leg­ar nátt­úru­ham­far­ir. Hvern er verið að verja?“ bæt­ir Guðrún við.

Samn­ings­vilj­inn sýnd­ar­mennska og til mála­mynda

Guðrún seg­ir rík­is­stjórn­ina hafa brotið blað með því að beita ákvæðinu, hún seg­ir það enn verra að horfa á beit­ingu ákvæðis­ins í ljósi þess að um skatta­hækk­un­ar­frum­varp var að ræða. 

„Rík­is­stjórn­in ætl­ar að koma hér í gegn frum­varpi með valdníðslu. Þessu ákvæði hafði ekki verið beitt í 66 ár og því var beitt í gær á skatta­hækk­un­ar­frum­varp, það er með ein­dæm­um,“ seg­ir formaður­inn. 

At­vinnu­vega­nefnd þings­ins lagði til ákveðnar breyt­ing­ar sem að Ei­rík­ur Björn Björg­vins­son, þingmaður Viðreisn­ar, mælti fyr­ir á þing­inu fyrr í dag. Sam­tök sjáv­ar­út­vegs­sveit­ar­fé­laga gagn­rýna breyt­ing­arn­ar í yf­ir­lýs­ingu fyrr í dag, en sam­tök­in telja breyt­ing­ar ekki koma nægi­lega til móts við þær áhyggj­ur sem sveit­ar­fé­lög­in hafa lýst yfir vegna frum­varps­ins.

„Nokkr­um klukku­tím­um eft­ir að kjarn­orku­ákvæðinu var beitt eru gerðar breyt­ing­ar á frum­varp­inu. Það seg­ir okk­ur það að all­ur samn­ings­vilji rík­is­stjórn­ar­inn­ar var sýnd­ar­mennska og til mála­mynda. Þess­ar breyt­ing­ar sem eru lagðar til eru greini­lega mót­spil við gagn­rýni sem frum­varpið hef­ur hlotið. Þessi breyt­ing­ar­til­laga er máluð upp sem sátt en er ekki sátt,“ seg­ir Guðrún og ít­rek­ar að breyt­ing­arn­ar slái ekki á nokk­urn hátt á þær áhyggj­ur sem þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa vegna frum­varps­ins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert