Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist líta það grafalvarlegum augum að Flokkur fólksins hafa beðið skrifstofu Alþingis um að vinna minnisblað um uppruna og beitingu 71. greinar þingskaparlaga fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan.
Beiðni Flokks fólksins, um það að skrifstofa Alþingis myndi vinna minnisblaðið, er dagsett 7. maí en þá voru aðeins tveir dagar liðnir frá því að fyrsta umræða um veiðigjaldafrumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson hófst.
Guðrún ræddi við mbl.is á Alþingi í dag en þriðja umræða um frumvarpið stendur nú yfir.
„Við erum stödd í leikriti sem er skrifað af stjórnarflokkunum. Af hverju í ósköpunum er ríkisstjórnin að biðja um minnisblað sem fjallar um það hvernig eigi að beita ákvæðinu? Af hverju er verið að biðja um þetta 7. maí, tveimur dögum eftir að umræða hófst? Það hlýtur hver einasti maður að sjá það að þetta er fíflagangur,“ segir Guðrún og bætir við að hún horfi málið alvarlegum augum.
Guðrún beinir þá spjótum sínum að orðum Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, í ræðustól Alþingis fyrir tveimur dögum síðan, þar sem hún sagði í sérstakri yfirlýsingu að meirihlutinn ætlaði að „verja lýðveldið Ísland.“
„Ég lít líka á það sem grafalvarlegt þegar forsætisráðherra Íslands talar um það í ræðu á Alþingi að hún þurfi að standa vörð um lýðveldið Ísland. Hvern þarf að verja og hver er ógnin? Það er engin innrásarher í landinu og hér eru engar stórkostlegar náttúruhamfarir. Hvern er verið að verja?“ bætir Guðrún við.
Guðrún segir ríkisstjórnina hafa brotið blað með því að beita ákvæðinu, hún segir það enn verra að horfa á beitingu ákvæðisins í ljósi þess að um skattahækkunarfrumvarp var að ræða.
„Ríkisstjórnin ætlar að koma hér í gegn frumvarpi með valdníðslu. Þessu ákvæði hafði ekki verið beitt í 66 ár og því var beitt í gær á skattahækkunarfrumvarp, það er með eindæmum,“ segir formaðurinn.
Atvinnuveganefnd þingsins lagði til ákveðnar breytingar sem að Eiríkur Björn Björgvinsson, þingmaður Viðreisnar, mælti fyrir á þinginu fyrr í dag. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga gagnrýna breytingarnar í yfirlýsingu fyrr í dag, en samtökin telja breytingar ekki koma nægilega til móts við þær áhyggjur sem sveitarfélögin hafa lýst yfir vegna frumvarpsins.
„Nokkrum klukkutímum eftir að kjarnorkuákvæðinu var beitt eru gerðar breytingar á frumvarpinu. Það segir okkur það að allur samningsvilji ríkisstjórnarinnar var sýndarmennska og til málamynda. Þessar breytingar sem eru lagðar til eru greinilega mótspil við gagnrýni sem frumvarpið hefur hlotið. Þessi breytingartillaga er máluð upp sem sátt en er ekki sátt,“ segir Guðrún og ítrekar að breytingarnar slái ekki á nokkurn hátt á þær áhyggjur sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa vegna frumvarpsins.