Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, segir Þórunni Sveinbjarnardóttur þingforseta hafa verið setta í erfiða stöðu af Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra sem ekki hafi tekist að semja um þinglok, ólíkt öðrum forsætisráðherrum síðastliðinna ára.
Þórunn beitti í upphafi þingfundar í gær 71. grein þingskaparlaga, svokölluðu kjarnorkuákvæði, og lagði þar með til atkvæða þingsins að ljúka umræðu um frumvarpið en umræða um málið er nú sú lengsta í sögu þingsins.
Unnur Brá, sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, gagnrýnir forsætisráðherra fyrir það að hafa ekki náð að miðla málum á þinginu.
„Forseti þingsins er settur í ómögulega stöðu þegar leiðtogi nær ekki að semja um þinglok. Það virðist hafa mistekist að gera þinglokasamninga. Formenn þingflokka bera ábyrgð á þeim samningum en forsætisráðherra hefur síðustu 66 árin alltaf skorið á þá hnúta sem koma upp en það hefur ekki gerst núna,“ segir Unnur Brá.
Þingforsetinn fyrrverandi er hugsi yfir stöðunni og hvað framtíðin komi til með að bera í skauti sér nú þegar kjarnorkuákvæðið hefur verið virkjað.
„Þetta ákvæði hefur verið í þingsköpum frá því á 19. öld en hefur alltaf verið mjög sparlega beitt og það er ástæða fyrir því enda kemur dagur eftir þennan dag og spurningin er hvað gerist þá. Halda menn að það að beita ákvæðinu sé líklegt til þess að ná samningum? Ég átta mig ekki alveg á þessu,“ segir Unnur Brá sem telur ákvörðunina koma til með að skaða valdajafnvægið á þinginu á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
Unnur Brá bætir því við að lokum að þótt ríkisstjórnin hafi meirihluta á þinginu þá sé það ekki svo að hún sé einráð. Hún segir að leiðtogar í gegnum tíðina hafi áttað sig á því að gæta þurfi einnig að hagsmunum þeirra kjósenda sem ekki kusu ríkisstjórnina til valda.