Lögreglan á Suðurlandi hefur haft í nógu að snúast síðasta sólarhringinn. Þar fara fram nokkrir stórir viðburðir, þar á meðal Laugavegshlaupið, flugsýningin Allt sem flýgur á Hellu og fjölmenn Kótelettuhátíð á Selfossi.
Nokkur mál er varða fíkniefni komu upp, þar á meðal eitt sem tengist dreifingu og sölu. Þá er einnig unnið að rannsókn kynferðisbrots og ein líkamsárás hefur verið tilkynnt.
Lögreglan hefur aukið eftirlit með ölvunarakstri um helgina og nokkrir ökumenn hafa verið stöðvaðir, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
Þrátt fyrir þessi afskipti hefur hátíðarstemningin almennt verið friðsæl og gengið vel fyrir sig. Veður er einstaklega gott og búist er við enn meira fjölmenni í kvöld og nótt. Lögreglan mun áfram viðhafa öflugt eftirlit í umdæminu öllu.