Einstaklingur var stunginn með eggvopni á höfuðborgarsvæðinu í gær eða nótt. Einn var handtekinn á vettvangi. Mál er í rannsókn.
Árásin átti sér stað í umdæmi lögreglustöðvar þrjú, en hún sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun.
Í sama umdæmi var einn handtekinn fyrir líkamsárás og húsbrot.
Þá var tilkynnt um umferðarslys milli fólksbifreiðar og bifhjóls í umdæmi lögreglustöðvar þrjú. Farþegi bifhjólsins er þungt haldinn eftir áreksturinn.
Mikið var um tónlistarhávaða úr heimahúsum sem raskaði næturró íbúa. Í einu máli voru hátalar haldlagðir þar sem húsráðandi fór ekki eftir fyrirmælum lögreglu um að lækka í tónlistinni.