Andrúmsloftið í Alþingishúsinu var eldfimt þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti þingsins tilkynnti þingheimi í gær að hún hygðist bera svokallað kjarnorkuákvæði, það er 71. grein þingskapalaga, undir atkvæði.
Í gærmorgun var þingmönnum stjórnarandstöðu tilkynnt með stuttum fyrirvara áður en þingfundur hófst að forseti hygðist ávarpa þingið og að atkvæðagreiðsla væri yfirvofandi.
Ekki fylgdu skilaboðunum upplýsingar um að hverju atkvæðagreiðslan laut, en hinn skammi fyrirvari og takmörkuðu upplýsingar í skilaboðunum, auk upplausnarinnar á þingi degi fyrr, gerðu það að verkum að menn lögðu samstundis saman tvo og tvo.
Beiting kjarnorkuákvæðisins var að líkindum yfirvofandi – og sú reyndist raunin.
Þórunn Sveinbjarnardóttir ávarpaði þingheim í löngu máli áður en hún tilkynnti það sem flestir áttu von á, en skynja mátti að þingmenn stjórnarandstöðu vildu ekki trúa því að svo væri komið fyrir þinginu fyrr en orðin féllu.
„Í því ljósi leggur forseti til á grundvelli 2. mgr. 71. gr. þingskapa Alþingis að umræðunni verði hætt. Verður tillagan nú borin umræðulaust undir atkvæði.“
Viðbrögðum í ræðustól verða gerð skil í öðrum greinum á síðum blaðsins. Þær gefa sjálfsagt hugmynd um andrúmsloftið í húsinu í kjölfar ávarps forseta.
Í ræðum stjórnarandstæðinga mátti skynja miklar tilfinningar. Heyra mátti að Njáll Trausti Friðbertsson klökknaði undir lok ræðu sinnar.
„Ég er stoltur af minni baráttu fyrir þorpin í landinu, sjávarútvegsþorpin, í þessari umræðu. Þetta er illa unnið frumvarp og þyrfti að laga það mikið frá því sem nú er. Mig grunar að sagan muni ekki fara vel með þennan gerræðislega gjörning sem verið er að fara með hér í dag,“ sagði hann af mikilli tilfinningu.
En það eru ekki síst samtöl og holning manna á bak við tjöldin sem varpa ljósi á andrúmsloftið.
Það var létt yfir stjórnarliðum. Þeir gerðu vissulega sitt besta við að halda aftur af kætinni á göngum og í sal þingsins, en þegar hlé var gert á þingfundi mátti heyra hlátrasköllin berast um húsið í þann mund sem hurðir þingflokksherbergja lukust aftur.
Afar þungt var yfir þingmönnum stjórnarandstöðu. Sumum var skapi næst að yfirgefa þinghúsið í mótmælaskyni og litu á skilaboð forseta sem uppsagnarbréf. „Til hvers er stjórnarandstaðan ef hún á að vera algjörlega áhrifalaus og óvönduð lagafrumvörp eru keyrð í gegnum þingið án þess að nokkur vilji sé til þess að miðla málum?“ spurði einn.
Þingmenn lýstu áhyggjum af því að pólitískar afleiðingar útspilsins yrðu langvarandi. Hætt væri við því að kjarnorkuákvæðið yrði umgengist af meiri léttúð í kjölfarið, í ljósi þess að engir brýnir þjóðarhagsmunir lægju til grundvallar því að keyra veiðigjaldafrumvarpið umdeilda svo hratt í gegn sem raun ber vitni. Reyndari menn spáðu að það gæti tekið allt að 2-3 kjörtímabil að vinda ofan af afleiðingum þessa.
Spurðir út í líðan sína að svo komnu máli lýstu þingmenn tilfinningunni með ýmsu móti. Reiði, hneykslun, vantrú, vanmáttur og sorg voru þar á meðal.
Einn þingmaður stjórnarandstöðunnar hugsaði sig vandlega um áður en hann svaraði og sagði svo:
„Það eru ýmsar tilfinningar sem bærast um innra með mér, en ein er öðrum yfirsterkari í augnablikinu. Mér er eiginlega flökurt.“
Aðrir nærstaddir þingmenn tóku undir þau orð.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.