Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, sakar Kristrúnu Frostadóttir forsætisráðherra um alvarlegan dómgreindarbrest fyrir að láta ummæli samráðherra sinna um valdarán ótalin.
Þetta segir í Facebook-færslu Guðrúnar.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra og þingmaður Flokks fólksins, sakaði Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, um valdarán í ræðu á þingi á fimmtudag. Degi eftir að Hildur sleit fundi í óþökk Þórunnar Sveinbjarnardóttur, forseta þingsins.
Á fimmtudag spurði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, hvort stjórnarandstaðan vilji að á Íslandi ríki þannig ástand að nýir valdhafar þurfi að draga gamla valdhafa undir húsvegg og skjóta þá svo að valdaskipti séu tryggð.
„Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra virðist ekki sjá ástæðu til að fordæma ummæli samráðherra sinna um valdarán, eða um það hvort að stjórnarandstaðan vilji þannig ástand í landinu að skjóta þurfi valdhafa undir húsvegg til að valdaskipti geti átt sér stað,“ segir í færslu Guðrúnar.
Hún segir það opinbera alvarlegan dómgreindarbrest Kristrúnar að láta slík ummæli óátalin og að það segi meira um forystu Kristrúnar „en nokkur ræða í ræðustól Alþingis“.
Guðrún segir það samkomulag sem náðist á endanum um þinglok hafi ekki verið eðlilegur eða hefðbundinn samningur.
„Það var tillaga sem forseti Alþingis lagði til eftir að ríkisstjórnin hafði komið þinginu í algert óefni.“
Hún leggur áherslu á að ríkisstjórnin hafi dagskrárvaldið á Alþingi og að ástæðan fyrir því að ekki hafi fleiri málum að hafi ekki verið veiðigjaldafrumvarið, „heldur einfaldlega þá staðreynd að þau settu málin ekki á dagskrá“.