„Árið 2020 bað Rannveig Þórhallsdóttir fornleifafræðingur mig um að vera með sér að grafa á Seyðisfirði og ég sagði já þótt ég tæki strax fram að ég væri hætt að taka að mér stórar rannsóknir,“ segir Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur og horfir á blaðamann yfir stofuborð í notalegri íbúð sinni í hinum fallega bæ Drammen í Noregi.
Ekki þótti Drammen, stærsta bifreiðainnflutningshöfn Skandinavíu, þó alla tíð spennandi og hljómaði gamall brandari svo að enginn færi úr lestinni þegar hún nam staðar á brautarstöðinni í Drammen.
Allt er þetta nú breytt og sagnfræðilegt heimildagildi brandara auk þess vafasamt. Drammen er nú orðið stórkostlega flottur bær þar sem dæmalaus uppbygging hefur átt sér stað og smjör drýpur af hverju strái. Örstutt upp eftir til Óslóar akandi eða með lestinni sem enginn fór úr í gamla daga.
Á heimili Ragnheiðar, aðeins steinsnar frá Ypsilon-brúnni myndrænu, er enn fremur boðið upp á sterkt og gott svart kaffi sem sambýlismaður hennar, Knut Paasche, deildarstjóri tækni- og stafrænnar fornleifadeildar við menningarminjastofnunina Norsk institutt for kulturminneforskning, ber okkur og má segja að þar hæfi skel kjafti þar sem tveir fornleifafræðingar, annar norskur og hinn úr Garðabænum, koma saman.
Ragnheiður veitti mbl.is nýlega viðtal af rausnarskap sínum og bar saman húsfundi frá víkingaöld á Íslandi og í Noregi í kjölfar umfjöllunar þar á vefmiðlinum um merkilegan skála sem fannst ekki alls fyrir löngu sunnarlega í Troms-fylki lengst í norðrinu. Var hún umsviflaust beðin um að gera betur grein fyrir sjálfri sér og rannsóknum sínum í því viðtali sem hér birtist.
Ragnheiður heldur áfram um verkefnið á Seyðisfirði. „Ég hélt að þetta yrðu bara tvö ár, en þetta urðu fimm ár, ég kláraði síðasta sumar,“ segir hún og brosið nær til augnanna. „Þannig að ég er meira og minna búin að búa á Seyðisfirði síðustu ár. Þar var byrjað að byggja snjóflóðavarnir undir fjallinu Bjólfi 2020 og það er dálítið gaman að segja frá því að þegar ég vann á Þjóðminjasafninu 1998 og '99 hélt ég að ég væri að fara að grafa á Seyðisfirði árið 2000, en það liðu nú 20 ár í viðbót áður en það gerðist,“ segir fornleifafræðingurinn með aðkenningu að hlátri.
Seyðisfjörður, nánar tiltekið Fjörður þar í firðinum, er Ragnheiði hugleikinn, það fær hún ekki dulið. „Forkönnunin sem við gerðum gerði ekki ráð fyrir að við myndum finna allt sem við fundum og í ágúst 2021, rétt áður en ég var að hætta, kalla á mig fornleifafræðingarnir „í felti“ [á vettvangi] og segja „Ragnheiður, við erum búin að finna eitthvað undir skriðunni hérna“ og ég segi þeim að það geti ekki verið, þessi skriða sé forsöguleg, frá því fyrir landnám,“ heldur Ragnheiður áfram.
Annað kom á daginn. „Ég fer út og skoða þetta og sé þá að það er fullt af mannvistarleifum undir skriðunni sem er metri á hæð og þá uppgötvum við að skriðan er söguleg. Við héldum fyrst að hún væri frá 1150, en hún er frá 1100, og undir henni fundum við fjögur kuml frá víkingaöld – bátskuml, kvenkuml með best varðveitta textíl sem hefur fundist á Íslandi. Svo fundum við aðra gröf sem í voru hundur og hestur og loks eina með manni og hesti,“ segir Ragnheiður.
Fjörður í Seyðifirði var landnámsbær Bjólfs hins norska sem kom hingað út, eins og það hét á gömlum bókum, frá Voss í Vestur-Noregi, ekki langt frá Bergen. Bjólfur hélt til Íslands ásamt fóstsbræðrum sínum, vildi líkast til ekki una ofríki Vesturlandskonungsins Haraldar hárfagra frekar en margir samtímamenn hans.
„Bjólfur var samkvæmt sögunni grafinn uppi á fjallinu, en ég held að ég hafi nú fundið hann í bátskumlinu, eða ég kemst örugglega ekkert nær honum en það,“ segir Ragnheiður og hlær hjartanlega yfir biksvörtu kaffinu.
„Þá förum við að gera fleiri könnunarskurði og þá kemur það í ljós að það eru minjar víðar undir þessari skriðu og þar finnum við þennan skála frá 10. öld, einstaklega vel varðveittan,“ segir hún af þungamiðju fornleifarannsóknanna í Firði, en svo háttaði til að skriðan á sínum tíma lagðist yfir skálann og átti sinn þátt í að varðveita býli landnámsmannsins Bjólfs sem kom alla leið frá Voss í Noregi til Seyðisfjarðar á löngu horfinni landnámsöld.
Stór hluti húsa, sem voru á svæðinu, hurfu á haf út í mannskæðasta snjóflóði Íslandssögunnar, 18. febrúar 1825, að sögn Ragnheiðar. „Þar fóru húsin á þessu svæði, sem ég var að grafa, bara út í sjó, sextán hús. Þarna dóu fimmtán manns og miklu fleiri slösuðust,“ segir hún frá.
Saga, sem til er um Bjólf, tengir hann raunar náttúruhamförum, ekki snjóflóðinu þó, heldur skriðu.
„Það er til þjóðsaga um hann þar sem segir að hann sé heygður uppi á fjallinu til þess að vernda bæinn fyrir skriðu, þannig að um þessa skriðu er til minni alveg frá því hún féll á sínum tíma og það er svolítið magnað. Það sýnir þrjóskuna í ættstofni Bjólfs að menn hafa alltaf búið þarna,“ segir Ragnheiður glettnislega.
Hún bendir á að skriður falli almennt á rigningartímum, gjarnan vor eða haust, „og hefði þetta gerst að hausti til hefðu menn ekki getað farið neitt og bara verið á staðnum. Húsið skemmist ekki allt þannig að við sjáum hvernig þeir tjasla upp norðurenda skálans. Svo er búið þarna í einhvern tíma áður en byrjað er að byggja annað hús sunnan við það sem fyrir var, sem ég hef ekki enn grafið upp, þarna er það mikið af mannvistarleifum og annar bæjarhóll,“ segir fornleifafræðingurinn og augun lýsa nánast af þeim fræðilega áhuga sem hennar stétt virðist vera í blóð borinn.
Ragnheiður bendir á þá forvitnilegu staðreynd að eitt útihúsanna á jörðinni hafi staðið á sama stað í eitt þúsund ár, frá árinu 900 til 1900. „Og það var alltaf endurbyggt innan frá,“ segir hún og skýrir hvernig á því stendur. „Á miðöldum áttu menn ekki alltaf góðar skóflur og þá hefur verið einfaldara að tæma húsið að innan og hlaða það innan frá. [...] Þannig að við höfum eiginlega grafið upp þúsund ára sögu þarna í Firði,“ segir hún og bendir á að verkinu sé hvergi nærri lokið, til dæmis eigi eftir að grafa upp bæjarhól, minnst 30 sinnum 30 metra að fleti og tveggja metra þykkan.
Sagan af hefðarkonunni, völvunni, eða hvaða mektarmanneskju sem þar hefur verið um að ræða, hefur verið sögð áður í Morgunblaðinu, en verður ekki of oft kveðin eins og vísan góða svo við fáum styttri útgáfuna.
„Fyrir rúmum 20 árum fannst „fjallkonan“, sem var með 500 perlur á sér og var annaðhvort að fara til Fjarðar eða frá Firði,“ segir Ragnheiður frá. Kona þessi var alltént á leið um fjallveginn, gömlu þjóðleiðina um Vestdal, og varð úti á leiðinni, fannst þar í hellisskúta árið 2004.
„Ég hallast að því að hún hafi orðið úti, ég hef enga trú á að þetta sé gröf, þetta er í 600 metra hæð. Svo má velta því fyrir sér hvort hún hafi verið með allar perlurnar á sér eða hvort hún hafi borið þær í pyngju,“ segir Ragnheiður og á þarna við svokallaðar sörvisperlur sem svo hafa verið nefndar, mjög smáar í þessu tilfelli.
Kollegi Ragnheiðar var um það leyti sem konan fannst að ljúka meistararitgerð sinni um perlur á Íslandi og fjallaði þar um allar perlur sem fundist höfðu á öllu landinu, um 600 talsins. „Svo kemur þetta þegar hún er um það bil að klára ritgerðina, þá bætast við meira en 500 perlur á einum stað, svo Austurlandið er bara ein perla,“ segir fornleifafræðingurinn og hlær dátt.
Þetta er þó ekki allt, heldur viðmælandinn áfram, og segir frá því að fjöldinn allur af perlum hafi líka fundist í Firði og á Stöð í Stöðvarfirði, svo svæðið á Austurlandi er greinilega lykilsvæði þegar kemur að perlufundum á Íslandi.
Hvað var manneskjan að gera með allar þessar perlur uppi á heiði, voru þetta verðmætaflutningar á borð við þá sem öryggisgæslufyrirtæki stunda nú til dags?
„Þetta er vissulega sérstakt og maður veltir þessu fyrir sér,“ svarar Ragnheiður, „hafði hún perlurnar í pyngju og ætlaði að fara að selja þær eða skreytti hún sig með þeim og hafði þá einhverja sérstaka stöðu? Var þetta völva eða seiðkona? Allur hennar búnaður var mjög veglegur, hún var með kúptar nælur og þríblaða nælur, allar með gyllingu Þetta hefur verið rík kona og við höfum líka séð það að ábúendur í Firði voru vel stætt fólk,“ heldur hún áfram af konunni á heiðinni sem annaðhvort flutti með sér muni til sölu eða var vel skreytt til merkis um stöðu sína í íslensku samfélagi fyrir þúsund árum.
Svarið við þessum hugleiðingum tók „fjallkonan“, hvort sem hún var verslunarkona, völva eða seiðkona, með sér yfir móðuna miklu. Perlurnar sátu eftir sem hennar hinsti vitnisburður á jörðu.
Ragnheiður nefnir í framhaldinu af vel stæðum ábúendum á Firði að maðurinn í bátskumlinu gefi til dæmis vísbendingu um auðinn. „Það eitt að vera grafinn í báti þýðir að þú ert vel stæður. Við höfum grafið upp á fjórða hundrað kuml á Íslandi og ég held að í þeim fjölda séu fjórtán bátskuml sem hafa fundist,“ segir hún enn fremur. „Við vitum núna að báturinn er ekki íslenskur en hann hefur verið byggður úr eik.“
Meðal gripa mannsins í bátskumlinu hafi einnig fundist tungunæla, sem einhvern tímann bar gyllingu, silfurhringur, exi, taflmenn, kambur, brot af rostungstönn, beinprjónn og fjöldi perla. „Hann er líka með tvo hesta, sem er alveg einstakt, og hund,“ segir hún áður en hún upplýsir að kumlinu hafi einhvern tímann í fyrndinni verið raskað.
„Beinaúrgangi hefur verið hent á þessar grafir og við erum ekki komin með endanlega túlkun á hvað þetta þýðir, að menn hafi verið að raska grafarró svona snemma. Kuml voru oft rænd og sverð og fleira sótt. En bátskumlið var fullt af beinaleifum, dýrabeinum, sem eru svo fjölbreytt flóra að ég hallast að því að þarna hafi verið vinnslustaður, menn verið að henda rusli eða verið að gera að,“ segir fornleifafræðingurinn.
Nú má í fyrsta sinn sjá gripi úr kumlinu í Firði, segir Ragnheiður, gripi fjallkonunnar frá Vestdalsheiði og fleiri fundi úr fornleifarannsókninni í Firði á sýningunni Landnámskonan á Minjasafninu á Austurlandi.
Innt eftir því hvernig fornleifafræðin varð vettvangur Ragnheiðar kveðst hún þegar á unga aldri hafa ákveðið að leggja fræðin, sem opna núlifandi kynslóðum glugga aftur í gráa forneskju, fyrir sig. „Ég hugsa að ég hafi verið níu eða tíu ára, ég var alltaf send í sveit í Haukadal í Dalasýslu, pabbi er fæddur á Litla-Vatnshorni og amma líka,“ segir hún frá.
Langamma Ragnheiðar ber líkast til hluta af ábyrgðinni með því að segja barninu sögur af Eiríki rauða á Eiríksstöðum, fornleifafræðin varð alltént ofan á þótt Ragnheiður segi einnig hafa komið til greina að leggja fyrir sig sveitabúskap eða dýralækningar. Síðar á ævinni átti hún raunar eftir að starfa við uppgröft á Eiríksstöðum.
„Ég ákvað svo endanlega þegar ég var í Menntaskólanum í Reykjavík að fara í fornleifafræðina og fór með fyrrverandi manninum mínum til Stokkhólms að læra, þá var ekki hægt að læra fornleifafræði á Íslandi svo ég fór í Stokkhólmsháskóla og var þar frá 1988 til '94. Ég var lengi að klára BA-ritgerðina, eignaðist þarna tvo stráka, 1991 og '92, og er svo beðin um það, sumarið '94 þegar ég var að klára, að koma heim og grafa upp fyrir Þjóðminjasafnið gerði sem átti að vera frá 18. öld í Garðabæ,“ segir hún af námsárunum og heimför þaðan.
Í náminu hafði Ragnheiður fengið töluverða reynslu af því að leiðbeina við fornleifauppgröft á vettvangi sem nýttist henni í Garðabænum. En verkefnið vatt upp á sig.
„Þetta varð miklu meira og stærra og eldra og endaði með því að ég fann út að þetta voru landnámsminjar, svo ég eiginlega flyt heim. En það sem var nú svo skrýtið á þeim tíma var að ég var uppgreftrarstjóri, en svo um veturinn fékk ég ekki vinnu við að vinna úr þessu þannig að það vann aldrei neinn úr því á sínum tíma,“ rifjar Ragnheiður upp.
Sumarið 1995 hafi hún haldið uppgreftrinum áfram og staðfest að um skála var að ræða auk þess sem bronsnæla í Jelling-stíl [vísar til frægs fornleifafundar í Jelling á Jótlandi] hafi fundist við uppgröftinn. Garðabær hafi þar með ákveðið að varðveita svæðið og Ragnheiður því starfað þar þriðja sumarið, 1996, en þá veittist henni staða á Þjóðminjasafninu og lauk þá BA-náminu sem dregist hafði á langinn vegna verkefnisins í Garðabæ.
„Ég var þar mikið í skipulagsmálum og uppgröfturinn varð aukavinna, maður var að grafa á sumrin en náði einhvern veginn ekki að vinna úr þessu. Það var ekki fyrr en 2001 sem það breyttist þegar farið var að tryggja að úrvinnslupeningar fylgdu uppgreftri, það mætti ekki bara grafa og grafa,“ segir hún.
Með tilkomu Kristnihátíðarsjóðs um aldamótin var farið að setja peninga í að grafa víðs vegar um land og var rannsóknin á Hólum í Hjaltadal, Hólarannsóknin, þá hafin og hóf Ragnheiður uppgröft þar 1. júlí 2002.
„Þetta var sjóður til fimm ára með miklum peningum, Skálholt, Hólar og allir þessir staðir. Við fórum af stað á Hólum, en vorum með fleiri verkefni undir og einn af þeim stöðum sem var mikilvægt að kanna var Kolkuós sem er höfn Hólastaða og þar endaði ég með að vera með björgunarrannsókn til að grafa upp það sem er að fara út í sjó. Við grófum þar einn mánuð á hverju ári og kláruðum 2012,“ segir fornleifafræðingurinn af þeirri vakningu sem varð með Kristnihátíðarsjóði.
Ragnheiður lauk meistaranámi frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð, en meðal þess sem hún hefur sýslað utan vettvangs fræða sinna má nefna mikla aðkomu að handboltamálum í Garðabæ. Ragnheiður sat um árabil í stjórn Stjörnunnar og endaði sem formaður handknattleiksdeildar auk þess að sitja í aðalstjórn og vera formaður landsliðsnefndar kvenna.
Þá átti hún sæti í stjórn Félags fornleifafræðinga og gegndi formennsku í Hinu íslenska fornleifafélagi, einu elsta félagi á Íslandi innan vébanda fræðasviðsins sem enn fremur gefur út Árbók, sem svo heitir, og fjallar um fornleifafræði og menningarsöguleg efni. Varð Ragnheiður fyrst kvenna til að gegna þar formennsku, en hér er aðeins hluti félagsstarfa hennar talinn og kveðst hún með ísmeygilegu brosi hafa staðið við þann svardaga sinn að sitja ekki í neinum stjórnum eftir fimmtugt.
„Mér líkar mjög vel í Noregi og mér finnst það sérstaklega gaman núna að þetta er fyrsta sumarið sem ég fæ að vera hérna, ég hef alltaf verið á Seyðisfirði á sumrin og svo er ég heima að vinna með Fjörð á veturna á Þjóðminjasafni Íslands svo ég fer mikið á milli,“ segir Ragnheiður frá aðspurð, en hún á fjölskyldu á Íslandi og í fyrra átti hún auk þess fjölskyldu í Danmörku og Svíþjóð þar sem dóttir hennar er í meistaranámi í afbrotafræði í Malmö í Svíþjóð og sonur hennar var þá í flugvirkjanámi í Kaupmannahöfn. „Elsti sonur minn býr í Hafnarfirði og vinnur hjá Kópavogsbæ og ég á tvö barnabörn á Íslandi,“ bætir hún við.
Fyrirtækið Antikva sem Ragnheiður rekur á Íslandi sérhæfir sig í fornleifarannsóknum, fornleifaskráningu og miðlun menningarminja. „Ég er búin að reka það síðan 2013, en þar á undan var ég í tíu ár á Hólum í Hjaltadal, aðjúnkt við Háskólann á Hólum, og þar á undan var ég á Þjóðminjasafni Íslands, eiginlega alveg til 2006,“ segir hún.
Hjá Antikva á hún sér samstarfsfólk sem vinnur saman gegnum lýðnetið svo sem nú er algengt, en af verkefnum þar nefnir hún auk rannsóknarinnar á Seyðisfirði uppgröft Hamrahlíðar í Mosfellsbæ og mikla fornleifaskráningu fyrir sveitarfélög og aðra framkvæmdaaðila.
„Ég fer minna í vettvangsvinnu, þau sem eru á Íslandi stýra því bara. Á Íslandi er þetta allt saman meira og minna í höndum einkageirans og búið að vera það síðan árið 2000. Þjóðminjasafnið stundar mjög litlar fornleifarannsóknir og er eiginlega nýbyrjað að gera það aftur,“ útskýrir Ragnheiður og segir um fimm fyrirtæki starfandi á vettvangi fræðanna, en auk þess stundar Byggðasafn Skagfirðinga fornleifarannsóknir.
„Það er þó mikið áhyggjuefni að Þjóðminjasafnið hafi látið þrjá fornleifafræðinga fara í vor og því erfitt að sjá að safnið getið stundað fornleifarannsóknir,“ segir Ragnheiður, áhyggjufull yfir framgangi síns fræðasviðs.
Undir lokin kveðst hún stefna á að flytjast alfarið til Noregs. „Sambýlismaður minn grínast alltaf með það að ég komi með nokkrar bækur í einu í ferðatöskunni og nú er bókasafnið eiginlega alveg komið hingað,“ segir hún og hlær, en veglegir bókaskápar á huggulegu heimilinu í Drammen bera orðum hennar vitni.
„Og þegar bókasafnið er komið hingað þá verð ég að vera hér,“ segir Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur að lokum, enda sammælast þau blaðamaður um að fátt ef nokkuð í lífinu jafnist á við góða bók er amstur dagsins linar sitt rótgróna tak.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.