Hitamet bætt um allt að 8 gráður

Hitaspá Veðurstofu kl. 15 á morgun.
Hitaspá Veðurstofu kl. 15 á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Hita­met hafa fallið á fjöl­mörg­um veður­stöðvum Veður­stofu Íslands í dag. Víða hef­ur mun­ur­inn á nýju meti og fyrra meti verið óvenju mik­ill, sums staðar yfir átta gráður.

Slík stökk eru sjald­séð og sýna vel hve hlýtt var í dag, eins og seg­ir í til­kynn­ingu á vef Veður­stof­unn­ar.

Aðeins einni gráðu munaði að lands­hita­metið frá ár­inu 1939 hefði verið jafnað.

„Það fór í 29,5 í Hjarðarlandi í Bisk­upstung­um. Það er met fyr­ir þá stöð og það voru fleiri stöðvar að setja met, svona mis­mik­il,“ seg­ir Krist­ín Her­manns­dótt­ir, fag­stjóri veðurþjón­ustu á Veður­stofu Íslands, í sam­tali við mbl.is.

Fyrsta skipti á þessu ári

Krist­ín seg­ir hita­stig nú fara lækk­andi en bend­ir á að bú­ast megi jafn­vel við svipuðum degi á morg­un.

„Það er enn þá verið að spá nokkuð hlýju veðri, sér­stak­lega á norðaust­ur­horni lands­ins. Þar gætu orðið ein­hver met líka á morg­un.“

Meg­um við bú­ast við að sjá svona töl­ur út vik­una?

„Ekki al­veg svona háar töl­ur en það verður hlýtt hjá okk­ur út vik­una og næstu daga. En þess­ar töl­ur, yfir 25 gráður, held ég að við séum nú að hætta að sjá eft­ir tvo eða þrjá daga.“

Hún nefn­ir að lok­um að hiti í Reykja­vík hafi farið yfir 20 stig í dag, sem hafi ekki gerst fyrr á þessu ári.

„Það er óvenju­hlýtt í Reykja­vík líka þó við séum ekki í ein­hverj­um 29 stig­um.“

Yfir 28 stig á fimm stöðvum

Hiti hef­ur farið yfir 28 stig á fimm veður­stöðvum:

  • Hjarðar­land: 29,5°C (staðarmet)
  • Bræðra­tungu­veg­ur: 28,7°C
  • Lyng­dals­heiði: 28,3°C
  • Skál­holt: 28,3°C
  • Kálf­hóll: 28,0°C

Auk þess fór hit­inn yfir 27 stig á stöðum eins og Þing­völl­um, Mörk á Landi, Öræf­um og Ásbyrgi og dags­hita­met féllu þar einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert