Hitamet hafa fallið á fjölmörgum veðurstöðvum Veðurstofu Íslands í dag. Víða hefur munurinn á nýju meti og fyrra meti verið óvenju mikill, sums staðar yfir átta gráður.
Slík stökk eru sjaldséð og sýna vel hve hlýtt var í dag, eins og segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
Aðeins einni gráðu munaði að landshitametið frá árinu 1939 hefði verið jafnað.
„Það fór í 29,5 í Hjarðarlandi í Biskupstungum. Það er met fyrir þá stöð og það voru fleiri stöðvar að setja met, svona mismikil,“ segir Kristín Hermannsdóttir, fagstjóri veðurþjónustu á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Kristín segir hitastig nú fara lækkandi en bendir á að búast megi jafnvel við svipuðum degi á morgun.
„Það er enn þá verið að spá nokkuð hlýju veðri, sérstaklega á norðausturhorni landsins. Þar gætu orðið einhver met líka á morgun.“
Megum við búast við að sjá svona tölur út vikuna?
„Ekki alveg svona háar tölur en það verður hlýtt hjá okkur út vikuna og næstu daga. En þessar tölur, yfir 25 gráður, held ég að við séum nú að hætta að sjá eftir tvo eða þrjá daga.“
Hún nefnir að lokum að hiti í Reykjavík hafi farið yfir 20 stig í dag, sem hafi ekki gerst fyrr á þessu ári.
„Það er óvenjuhlýtt í Reykjavík líka þó við séum ekki í einhverjum 29 stigum.“
Hiti hefur farið yfir 28 stig á fimm veðurstöðvum:
Auk þess fór hitinn yfir 27 stig á stöðum eins og Þingvöllum, Mörk á Landi, Öræfum og Ásbyrgi og dagshitamet féllu þar einnig.