Ísak Leon Júlíusson bjargði lífi föður síns, Júlíusar M. Jónssonar, í gærkvöldi, með aðstoð góðs fólks úr nágrenninu við Elliðavatn. Þeir feðgar voru á kajaksiglingu á vatninu er Júlíus féll í vatnið. Ísak var þá í töluverðri fjarlægð frá föður sínum en heyrði köll hans þar sem hann reyndi að halda sér uppi á kajaknum.
Greint var frá því í gærkvöldi að slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefði verið með töluvert viðbragð við Elliðavatn eftir að maður á kajak féll í vatnið.
Fram kom í frétt mbl.is að maðurinn hefði komist af sjálfsdáðum upp úr vatninu. Þetta vildi Júlíus leiðrétta en sonur hans og aðrir í nágrenninu, sem svo heppilega vildi til að áttu bát, björguðu lífi hans í gærkvöldi.
Að sögn Ísaks sagði læknirinn að ef faðir hans hefði verið tíu mínútum lengur í vatninu hefði hann getað dáið.
„Við vorum á kajak á Elliðavatni og vorum báðir að veiða. Það var smá vegalengd á milli okkar og pabbi hafði ákveðið að fara í land, það hafði verið eitthvað óeðlilega erfitt að róa, hvort báturinn var of lítill eða farinn að leka, það var alla vega eitthvað að honum,“ segir Ísak í samtali við mbl.is.
„Ég var frekar langt í burtu en heyrði í honum kalla. Ég hélt hann væri með fisk þannig að ég setti veiðistöngina á kajakinn og fór að sigla í áttina að honum. Þá sá ég að hann var í vatninu og var að reyna að komast upp á kajakinn sem snerist alltaf við og hann datt aftur út í vatnið.
Mér fannst þetta fyrst fyndið og hugsaði: „Pabbi, ertu að grínast, hvolfdirðu honum, hvað ertu að pæla?“
Þá vissi ég ekki að hann var búinn að vera í vatninu í einhvern tíma. Þá sá ég að pabbi var orðinn örmagna, hann var búinn að vera að halda sér uppi en maður verður svo þungur í vatninu í öllum fötunum og svo fljótt þreyttur.“
Ísak flýtti sér þá til föður síns sem náði að halda í fótinn á syni sínum með annarri hendinni og í kajakinn með hinni.
„Ég byrjaði að öskra á hjálp eins hátt og ég gat. Fyrir tilviljun var ég með símann á milli fótanna og hringdi strax í neyðarlínuna og byrjaði að sigla í land með pabba, þá þurfti ég að halla mér í gagnstæða átt til að ég færi ekki sjálfur ofan í. Við vorum búnir að sigla svolítið langt,“ segir hann.
„Pabbi var orðinn svo þreyttur að ég varð að drífa mig í land af því að ef hann hefði sleppt takinu þá hefði hann bara drukknað og ég veit ekki hvort ég hefði getað farið á eftir honum, ég var sjálfur svo þreyttur.“
Fyrir tilviljun voru þeir feðgar í beinni sjónlínu við hús hjóna sem eiga bát. Sonur þeirra var í PlayStation-tölvunni sinni og heyrði öskur Ísaks.
„Sem betur fer var hann með tölvuna lágt stillta. Þau hlupu út, voru með bát og komu á móti mér, einmitt þegar ég var hættur að geta siglt kajaknum, sem var orðinn svo þungur. Þetta fólk bjargaði okkur alveg, þau eru algjörir englar. Ég hefði ekki komist í land með okkur báða, þetta var dýpsti parturinn.“
Um það leyti sem báturinn náði til feðganna heyrði Ísak sírenur nálgast og áður en hann vissi af sá hann lögreglubíla, sjúkrabíl og slökkviliðsbíl.
„Bara hjörð af fólki koma hlaupandi að ströndinni. Þau ætluðu að fara að hoppa út í en sáu að bátur þessa fólks var kominn,“ segir Ísak.
„Ég fór upp á land og konan sem á heima þarna knúsaði mig strax, maður hennar og sonur höfðu siglt bátnum að okkur,“ segir Ísak sem hafði verið í símanum við neyðarlínuna allan tímann.
„Þetta símtal við neyðarlínuna var níu mínútur. Þau voru í níu mínútur að fara frá Grafarvogi niður að Elliðavatni að finna okkur, en þetta leið eins og klukkutími.“
Ísak segir það venjuna að klæðast björgunarvesti á kajak og vill brýna fyrir öllum að gera einmitt það.
„Það var heimskulegt að vera ekki í björgunarvesti. Við vorum nýbúnir að vera með litlu systur mína og vinkonu hennar og fjölskyldu og þá voru öll börn í björgunarvesti.
Ég og pabbi erum báðir mjög syndir og maður heldur að maður geti synt en maður fær sjokk og verður svo þungur í fötum og öllu, og svo kaldur, hitastigið hans pabba var komið niður í 35 gráður þegar við komum upp á spítala,“ segir hann.
Hann segir þessa lífsreynslu vera góða lexíu fyrir alla þá sem nokkurn tímann sjá fyrir sér að setjast upp í kajak.
„Fullorðnir og börn verða að vera í vesti, þó að vatnið eigi að vera grunnt þá er það ekki grunnt alls staðar og þú ferð í sjokk. Við vorum heppnir að það var búið að vera heitt úti og vatnið var heitara en það er venjulega, sem þýðir að hann kólnaði ekki jafn mikið og hann hefði getað gert.
Læknirinn sagði: „Bara tíu mínútum lengur í vatninu og hann hefði dáið.“ Ef hann hefði misst takið á kajaknum þá hefði hann bara sokkið og ég veit ekki hvort ég hefði getað hjálpað honum, ég veit ekki alveg hvað maður hefði gert þá, þetta var svo hræðilegt,“ segir Ísak Leon að lokum.