Lithái á fertugsaldri hefur verið sýknaður af ákæru um að hafa valdið dauða samlanda síns með meiriháttar líkamasárás í sumarhúsi í Kiðjabergi í apríl á síðasta ári. Hlaut hann tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir að hafa löðrungað samlandann.
Þetta staðfestir Elimar Hauksson, verjandi mannsins, í samtali við mbl.is.
Segir Elimar að miðað við aðstæður í málinu yrði að mati dómsins sakfelling á grundvelli ákærunnar ekki hafin yfir skynsamlegan vafa.
Héraðsdómur hafði áður vísað málinu frá vegna þess að ákæra saksóknara þótti ónákvæm en Landsréttur ógilti síðar þá ákvörðun.
Saksóknari sagðist við aðalmeðferð í málinu telja manninn hafa framið heiftúðlega, vægðarlausa og tilefnislausa árás sem leiddi samlanda hans til dauða og sagði manninn ekki hafa sýnt neina iðrun og að til þess skyldi líta þegar dómur yrði ákveðinn.
Elimar segir dóminn telja að sakfelling ákæru á grundvelli 2. mgr. 218. gr. almennra hegningalaga, sem fjallar um meiriháttar líkamsárás, að atlaga gegn manninum hafi orðið honum að aldurtila við þær aðstæður sem eru í málinu, byggjast á ályktun um að líklegt eða líklegast væri að umbjóðandi sinn hafi veitt hinum látna þau högg eða spörk sem hafi leitt til dauða en ekki annar.
Miðað við sönnunarfærslu, skýrslu réttarlækna og framburðar annars þeirra, orsakir andlátsins og hvernig verknaðarlýsingu í ákæru er háttað, yrði sakfelling samkvæmt því á grundvelli ákærunnar ekki að mati dómsins hafin yfir skynsamlegan vafa.
„Hann er náttúrulega sakfelldur fyrir þessa tvo löðrunga, sem hann hefur alltaf viðurkennt. Hann viðurkenndi það greiðlega frá upphafi að hafa löðrungað manninn þar sem hann sat í sætinu sínu en neitaði því alfarið að það hafi getað valdið þessum afleiðingum sem var lýst í ákærunni.
Á það er bara fallist með honum. Það séu ekki nægar sannanir færðar fram af hálfu ákæruvaldsins til þess að hefja það yfir skynsamlegan vafa að umbjóðandi minn hafi valdið bana þessa manns.“