„Það er eitthvað annað að gerast“

Hér má sjá mynd af flóðinu við Mælifellssand sem tekin …
Hér má sjá mynd af flóðinu við Mælifellssand sem tekin var í gær. Ljósmynd/Árni Tryggvason

Óvenju mikið vatn flæðir nú yfir stórt svæði á Mæli­fellssand og vara­samt get­ur verið að fara þar um. Þetta seg­ir Árni Tryggva­son, en hann vakti at­hygli á stöðunni í færslu á Face­book-hópn­um Færð á fjöll­um. Seg­ir hann hættu á að menn festi sig í vatna­vöxt­un­um.

„Þarna er svæði sem ég hef ótal oft farið yfir á mín­um 40 ára fjalla­ferli og yf­ir­leitt byrj­ar vatn að seytla þarna niður upp úr há­degi þegar sól­bráðin fer að skila sér af jökl­in­um eða ef það er mik­il úr­koma en þarna bara flæddi yfir stórt svæði,“ seg­ir Árni.

Hætta á að fólk fest­ist

Hann seg­ir hættu á því að menn geti lent í sand­bleytu og festi sig í kjöl­farið en hann gisk­ar á að svæðið sem var á floti hafi náð yfir um einn og hálf­an kíló­meter.

„Maður sá nokkra bíla á ferðinni en þarna er hætta á því að menn lendi í sand­bleyt­um og pikk­festi sig og ég sá fólk labba yfir þetta, ein­hverj­ir sem hafa ætlað sér að fara yfir sand­inn eins og hann er, ég myndi ekki nenna að labba einn og hálf­an kíló­metra ber­fætt­ur.“

Eitt­hvað annað en veðrið

Árni held­ur að góða veðrið og sól­in und­an­farna daga hafi ekki haft þessi áhrif á svæðið held­ur eitt­hvað annað.

„Ég myndi halda að eitt­hvað annað sé að ger­ast, ég hef oft farið þarna yfir í fínu og flottu veðri og þetta var að sunnu­dags­morgni, það vex vana­lega ekki í þess­ari á fyrr en það líður á dag­inn þannig það er eitt­hvað að ger­ast þarna.“

Hér má sjá Mælifelli árið 2007. Myndin var tekin síðdegis …
Hér má sjá Mæli­felli árið 2007. Mynd­in var tek­in síðdeg­is og er vatnið rétt byrjað að seytla í flæðurn­ar. Ljós­mynd/Á​rni Tryggva­son

Hann seg­ir jök­ulánna Ytri-Blá­fellsá, sem kem­ur upp und­an jökli á svipuðum stað, hafa verið óvenju vatns­litla og gisk­ar hann á að vatnið sem ætti að fara í Ytri-Blá­fellsá sé að finna sér nýja leið þarna út á sand­inn. Hann seg­ist þó ekki hafa mjög fræðileg rök fyr­ir því.

„Það var hlaup í jökl­in­um um dag­inn en það var allt í ám sem voru suður úr en þetta er eig­in­lega ekki inni á áhrifa­svæði Kötlu. Katla er miklu sunn­ar í jökl­in­um og ég ef­ast um að flóð sem fari úr Kötlu fari hér niður, þó svo að hún sé óút­reikn­an­leg.“

Ástæða til þess að vara fólk við

Árni seg­ir ástæðu til þess að vara fólk við því að fara yfir Mæli­fellssand á van­bún­um, minni jepp­um. Þegar hann ók yfir sand­inn rak hann aug­un í þó nokkra bíla af gerðinni Dacia Dust­er.

„Þetta er ekki jepp­linga­færi. Það er hætta á að fólk festi sig í sand­in­um. Þarna uppi á sand­in­um er eitt af fal­leg­ustu fjöll­um Íslands sem heit­ir Mæli­fell og ég veit að það eru mjög marg­ir ferðamenn sem fara þarna upp eft­ir til þess að sjá Mæli­fell og taka mynd­ir af því en það stend­ur þarna upp úr kol­svört­um sandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert