Óvenju mikið vatn flæðir nú yfir stórt svæði á Mælifellssand og varasamt getur verið að fara þar um. Þetta segir Árni Tryggvason, en hann vakti athygli á stöðunni í færslu á Facebook-hópnum Færð á fjöllum. Segir hann hættu á að menn festi sig í vatnavöxtunum.
„Þarna er svæði sem ég hef ótal oft farið yfir á mínum 40 ára fjallaferli og yfirleitt byrjar vatn að seytla þarna niður upp úr hádegi þegar sólbráðin fer að skila sér af jöklinum eða ef það er mikil úrkoma en þarna bara flæddi yfir stórt svæði,“ segir Árni.
Hann segir hættu á því að menn geti lent í sandbleytu og festi sig í kjölfarið en hann giskar á að svæðið sem var á floti hafi náð yfir um einn og hálfan kílómeter.
„Maður sá nokkra bíla á ferðinni en þarna er hætta á því að menn lendi í sandbleytum og pikkfesti sig og ég sá fólk labba yfir þetta, einhverjir sem hafa ætlað sér að fara yfir sandinn eins og hann er, ég myndi ekki nenna að labba einn og hálfan kílómetra berfættur.“
Árni heldur að góða veðrið og sólin undanfarna daga hafi ekki haft þessi áhrif á svæðið heldur eitthvað annað.
„Ég myndi halda að eitthvað annað sé að gerast, ég hef oft farið þarna yfir í fínu og flottu veðri og þetta var að sunnudagsmorgni, það vex vanalega ekki í þessari á fyrr en það líður á daginn þannig það er eitthvað að gerast þarna.“
Hann segir jökulánna Ytri-Bláfellsá, sem kemur upp undan jökli á svipuðum stað, hafa verið óvenju vatnslitla og giskar hann á að vatnið sem ætti að fara í Ytri-Bláfellsá sé að finna sér nýja leið þarna út á sandinn. Hann segist þó ekki hafa mjög fræðileg rök fyrir því.
„Það var hlaup í jöklinum um daginn en það var allt í ám sem voru suður úr en þetta er eiginlega ekki inni á áhrifasvæði Kötlu. Katla er miklu sunnar í jöklinum og ég efast um að flóð sem fari úr Kötlu fari hér niður, þó svo að hún sé óútreiknanleg.“
Árni segir ástæðu til þess að vara fólk við því að fara yfir Mælifellssand á vanbúnum, minni jeppum. Þegar hann ók yfir sandinn rak hann augun í þó nokkra bíla af gerðinni Dacia Duster.
„Þetta er ekki jepplingafæri. Það er hætta á að fólk festi sig í sandinum. Þarna uppi á sandinum er eitt af fallegustu fjöllum Íslands sem heitir Mælifell og ég veit að það eru mjög margir ferðamenn sem fara þarna upp eftir til þess að sjá Mælifell og taka myndir af því en það stendur þarna upp úr kolsvörtum sandi.“