Opnað hefur verið fyrir umferð almennings um Grindavík. Þetta segir í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Atvinnurekendur í Grindavík gagnrýndu í dag harðlega að bænum skyldi hafa verið lokað fyrir almenningi og ferðamönnum á meðan Bláa lónið fékk að vera opið.
Segir í tilkynningunni að ákvörðunin sé tekin með hliðsjón af uppfærðu áhættumati þar sem fram kemur að meðaláhætta sé metin fyrir Grindavík og Svartsengi og að mesta áhættan sé metin vegna gasmengunar frá gróðureldum og eldgosi.
„Mikilvægt er að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega. Lögregla varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir,“ segir í tilkynningunni.
„Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum. Áréttað er að atburður er enn yfirstandandi og starfað er á hættustigi.“
Þá kemur fram að fyrirtæki sem bera ábyrgð á starfsfólki og gestum þurfi að tryggja að öryggisáætlanir séu virkar og taki mið af hættu vegna mengunar.