Fundi Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, með Kristrúnu Frostadóttir forsætisráðherrra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra á öryggissvæðinu í Keflavík er lokið, og fer senn að hefjast blaðamannafundur.
Hægt er að fylgjast með blaðamannafundinum í beinu streymi hér að neðan.
Kristrún tók á móti Ursulu á Reykjavíkurflugvelli klukkan 10 í morgun og flaug þyrla Landhelgisgæslunnar með þær stöllur frá Reykjavíkurflugvelli og yfir Suðurlandið. Flugu þær meðal annars yfir Þórsmörk þar sem þyrlan lenti nálægt fjallstindi, en Kristrún bauð von der Leyen í stutta gönguferð á útsýnisstað þar sem þær fengu einstakt útsýni yfir Þórsmörk.
Þá heimsóttu þær einnig Grindavík þar sem Fannar Jónasson bæjarstjóri tók á móti þeim.
Von der Leyen heilsaði upp á Otta Rafn Sigmarsson, einn af burðarásum björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík en Otti er einnig fyrrverandi formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Hann sýndi von der Leyen aðgerðarstjórn í Grindavík.
Þá heilsaði hún upp á Runólf Þórhallsson, sviðsstjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, en eitt af markmiðum heimsóknar Evrópuleiðtogans er að hún kynni sér starfsemi almannavarna sem og áfallaþol á Íslandi.