Mikið líf og fjör hefur verið á Ólafsfirði um helgina en þar hefur farið fram hið árlega Sápuboltamót. Mikið var um að vera í bænum að sögn Viktors Freys Einarssonar, framkvæmdastjóra Sápuboltans.
Sápubolti er sáraeinfaldur leikur. Skipt er í tvö lið sem spila svo hefðbundinn fótboltaleik á stórum plastdúk sem sápa hefur verið borin á.
„Í gær byrjuðum við þetta á krakka sápubolta, svo komu BMX bros með sýningu, um kvöldið kom svo Páll Óskar að spila," segir Viktor í samtali við mbl.is.
Í dag fór svo mótið sjálft fram. Um 400 manns tóku þátt í mótinu í 44 liðum. Öll liðin mættu í skemmtilegum búningum og á endanum var það svo lið klætt í pylsubúninga sem stóðu uppi sem sigurvegarar.
Þetta er í níunda sinn sem hátíðin fer fram og hefur hún vaxið mikið frá fyrsta árinu. „Þetta byrjaði nú með því að okkur vinunum vantaði eitthvað að gera eina helgina og fengum þessa klikkuðu hugmynd. Við ætluðum bara að gera þetta einu sinni en þetta gekk svo vel að við ákváðum að gera þetta aftur og við höfum gert þetta á hverju ári síðan," segir hann.
Viktor segir mótið hafa vaxið mikið og er nú orðið líkara bæjarhátíð en fótboltamóti.
Í kvöld fara svo stórtónleikar hátíðarinnar fram og stíga þar á stokk margir af þekktustu tónlistarmönnum landsins um þessar stundir. Fram koma meðal annars Birnir, Daniil, Aron Can og Floni. Aðsókn er góð og Viktor býst við að uppselt verði á tónleikana.
Viktor segir hátíðarhöldin hafa gengið gríðarvel og gerir fastlega ráð fyrir því að sápuboltinn snúi aftur tíunda árið í röð næsta sumar.