Í Hafnarfirði slær hjartað taktfast í sumar. Þar hefur bæjarhátíðin Hjarta Hafnarfjarðar vaxið og dafnað svo um munar, og það eru ekki bara Hafnfirðingar sem dansa við þann takt.
Hjarta Hafnarfjarðar fer nú fram í níunda sinn og hafa rúmlega 40.000 manns sótt hátíðina á fyrstu fjórum helgunum en enn eru tvær helgar eftir.
Að sögn Páls Eyjólfssonar, framkvæmdastjóra hátíðarinnar, sóttu 40.000 manns Hjartað í fyrra og er búist við að minnsta kosti 60.000 manns í ár, sem yrði nýr metfjöldi.
„Þetta hefur gengið bara ótrúlega fallega fyrir sig,“ segir Páll.
„Það er einhver galdur í gangi hérna.“
Hann segir hátíðina nú vera farna að líta út eins og hann sá hana fyrir sér þegar henni var fyrst hleypt af stokkunum, árið 2017. Þá stóð hátíðin yfir í tvo daga, eina helgi, og heimsóttu um 500 manns hátíðina.
„Það sem maður hefur áttað sig svolítið á núna er að þetta er eiginlega eina svona stóra og viðrandi aktivitíið á höfuðborgarsvæðinu á sumrin. Allar bæjarhátíðir eru fyrir utan og fólk er búið að kveikja svolítið á þessu,“ segir Páll og nefnir að það séu ekki bara Gaflarar sem láti sjá sig á hátíðinni.
Fólk alls staðar af höfuðborgarsvæðinu, sem og utan af landi, sé einnig að leggja á ferð til Hafnarfjarðar.
Páll er Eyjamaður og hefur sótt Þjóðhátíð í Heimaey 35 sinnum. Hann segir Hjartað vera innblásið af Eyjastemningunni.
„Þetta er sá fílingur sem ég var alltaf að leita að og er kominn með núna, þar sem allir geta skemmt sér saman með mikið af músík og fjöri.“
Aðspurður segir hann hátíðina alltaf hafa gengið vel fyrir sig og verið haldna án þess að alvarleg atvik komi upp.
Mikið sé þó lagt upp úr öryggisgæslu og er t.a.m. öflugt myndavélakerfi á svæðinu sem myndar hvern krók og kima.
„Það eru miklar forvarnir í gangi hérna áður en þú ætlar þér að gera eitthvað. Við erum blessunarlega laus við það og höfum alltaf verið. Það hefur aldrei nokkur alvarlegur hlutur komið upp hjá okkur.“
Hægt er að kynna sér dagskrá Hjarta Hafnarfjarðar hverja helgi á Facebook.