Þykk þoka hefur legið yfir höfuðborgarsvæðinu í morgun. Að sögn veðurfræðings er líklega um sambland af gosmóðu og þoku í hefðbundnari skilning.
„Það er hátt rakastig núna, þannig að það er þoka. En það getur verið að gosmóðan valdi að hún sé ennþá þykkari,“ segir Katrín Agla Tómasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Mælar í Kópavogi og á Laugarnesi sýna að loftgæði eru slæm um þessar mundir.
„Þannig að þetta er örugglega sambland af þoku og gosmóðu,“ segir Katrín Agla.
Hún segir að hlýtt loft yfir sjónum leiði til þess að raki setjist við sjávarsíðuna og myndi þoku.
Þokunni á að létta til með morgninum og eftir hádegi á að bæta úr skyggninu. Það eigi svo eftir að koma í ljós hversu mikil áhrif gosmóðan hefur á skyggnið síðdegis.
Síðdegis á morgun er spáð norðanátt, 3-8 m/s. Vindurinn gæti nægt til að hreyfa við gosmóðunni og færa hana suður yfir landið.
„Við erum að vona að þá ná nú aðeins að blása gosmóðunni í burtu,“ segir Katrín Agla að lokum.