Faðir Dags B. Eggertssonar, formanns Borgarráðs, virðist ósáttur við Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, en í færslu á Facebook lýsir hann því hvernig hún hafi lítillækkað Dag og tekið annað reynsluminna fólk fram yfir hann.
Eggert Gunnarsson dýralæknir er faðir Dags og hann fellir sig greinilega ekki við að Dagur skipi 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður og eigi ekki ráðherraembætti í vændum, komist flokkurinn í ríkisstjórn að loknum kosningum.
Þessu lýsti hann í færslu á Facebook í gær, sem ekki er laus við fínlegt en napurt háð. Þar spyr hann hverjir þeir séu „svo þessir snillingar“ á vegum Kristrúnar, sem hafi til að bera meiri kosti en sonur hans til þess að verða ráðherrar.
Eggert segir að það sé eflaust allt „hið vænsta fólk“, en ekki fer milli mála að hann telur Dag hafa meira til brunns að bera, bæði hvað varðar reynslu, þekkingu og forystuhæfileika.
Orðum sínum lýkur Eggert á því að segja „Já, það er margt skrýtið í …“ en sleppir af einhverjum ástæðum kýrhausnum í málshættinum, án þess að fara nánar út í þá sálma.
Eins og fram hefur komið ríkir ekki eining innan Samfylkingarinnar um þingframboð Dags. Eftir að boðað var til kosninga með skömmum fyrirvara og ljóst að stillt yrði upp á lista en ekki viðhaft prófkjör, lýstu ýmsir stuðningsmenn hans, þar á meðal Gauti B. Eggertsson bróðir hans, yfir miklum efasemdum með þá tilhögun og óttuðust sumir að Dagur yrði ekki hafður með á listanum.
Eftir talsvert þóf varð úr að Dagur skipaði 2. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, í sama kjördæmi og Kristrún. Hann varð því ekki oddviti, en jafnframt var tryggt að hann gæti ekki stært sig af kosningasigri ef til kæmi.
Sjálfur gerði Dagur lítið úr þessu og sagðist ekki gera neinar kröfur um sæti eða ráðherradóm ef til kæmi.
Um liðna helgi kom hins vegar upp úr kafinu svar Kristrúnar til áhyggjufulls kjósanda í Grafarvogi, sem ekki kvaðst geta kosið listann ef Dagur væri á honum. Í svarinu útilokaði Kristrún að Dagur yrði ráðherra og sagði hann aukaleikara á listanum, en til vonar og vara gæti kjósandinn einfaldlega strikað hann út í kjörklefanum.
Talsverður kurr reis innan Samfylkingarinnar þegar svar Kristrúnar var opinberað í íbúahóp Grafarvogs á Facebook, en fjölmiðlar greindu í framhaldinu frá því. Augljóst þótti að grunnt væri á því góða milli þessa forystufólks flokksins, en ýmsir átöldu Kristrúnu einnig fyrir að grafa undan Degi með þessum hætti og hvetja til útstrikana.
Dagur var gestur í Silfrinu í Ríkissjónvarpinu á mánudagskvöld og vildi ekki gera mikið úr málinu, þó hann játaði að sér hefði brugðið við tíðindin. Þau Kristrún hefðu síðan rætt saman og farið yfir málið. Kvaðst Dagur sáttur við það og sinn hlut.
Af færslu föður hans að dæma virðist það hins vegar ekki vera á eina lund og a.m.k. ekki eiga við um hans nánustu.
– – –
Færsla Eggerts, föður Dags, er í heild sinni svona:
Kristrún hefur látið að því liggja að komi til þess að Samfylkingin myndi ríkisstjórn verði Dagur B. Eggertsson ekki ráðherraefni enda sé hann hann [að] feta sig á nýjum slóðum. Fyrir í fleti séu leiðtogar flokksins í hinum ýmsu kjördæmum. Og hverjir eru svo þessir snillingar. Fyrir utan hana sjálfa eru það:
Jóhann Páll Jóhannsson, alþingismaður til þriggja ára
Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og ritari Samfylkingarinnar
Logi Einarsson, alþingismaður og frv. formaður
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn
Alma Möller, landlæknirAllt að sjálfsögðu hið vænsta fólk. Á móti þessu fólki er Dagur veginn og metinn og léttvægur fundinn þrátt fyrir gífurlega pólitíska reynslu, yfirburða þekkingu og síðast en ekki síst einstaka hæfileika til þess að vinna með fólki. Já, það er margt skrítið í …