Besta eða lakasta húsnæðislánið?

Í myndskeiðinu hér að ofan fer Tinna Björk Bryde, viðskiptaþróunarstjóri hjá Aurbjörgu, yfir hentugustu og hagkvæmustu leiðirnar þegar sótt er um húsnæðislán.  

Aurbjörg heldur úti vefsíðu sem m.a. er ætlað að stuðla að auknu fjármálalæsi almennings. Fjármálalæsi hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú þegar stöðugar stýrivaxtahækkanir er sá raunveruleiki sem við lifum við og verðbólga í hæstu hæðum.

„Þeir sem eru með breytilega vexti finna fyrir hækkandi greiðslubyrði. Verðtryggðu lánin hækka bara og hækka og svo eru það þeir sem eru með fasta vexti sem vita ekkert hvað bíður þeirra þegar vextirnir losna,“ segir Tinna og augljóst að þrálátar stýrivaxtahækkanir eru farnar að hafa veruleg áhrif á heimilin í landinu og þrengja þar af leiðandi að ákvarðanatöku almennings þegar litið er til húsnæðislána. Mikilvægt er að vanda þá ákvörðun vel líkt og Tinna fer yfir í myndskeiðinu.

Getur munað gríðarlegum upphæðum

„Í dag munar 1,75% á bestu og lökustu kjörum á óverðtryggðu láni með breytilegum vöxtum. Ef við tökum verðtryggðu lánin þá munar 1,1% á bestu og lökustu kjörum. Þetta lítur kannski ekki út fyrir að vera mikið en það getur munað um mjög háar greiðslur á mánuði,“ segir Tinna Björk og tekur dæmi um 35 milljóna króna lán.

„Það getur munað 45 þúsund krónum í greiðslum á mánuði, 540 þúsund yfir árið og 21,5 milljón yfir lánstímann,“ útskýrir Tinna muninn á góðum og lökum kjörum á óverðtryggðu láni með breytilegum vöxtum.

„Munur á greiðslum á verðtryggðu láni er um 18 þúsund á mánuði, 216 þúsund yfir árið og 98 milljónir yfir lánstímann,“ segir hún og mælir með að fyrstu kaupendur og/ eða fólk sem nú þegar er á húsnæðismarkaði skoði ólíka lánstíma. Styttri lánstími getur þýtt hærri mánaðargreiðslur en töluvert lægri heildargreiðslur yfir allan lánstímann.

„Það skiptir máli að velja rétta húsnæðislánið. Kannaðu hvar þú átt lánsrétt. Kannaðu alla lánsmöguleika og kannaðu ólíka lánstíma. Það margborgar sig.“

Á fræðsluvef Aurbjargar er að finna margvíslegar gagnlegar upplýsingar og ráðleggingar er varða fjármál heimilisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert