Í dag laugardag opnar húsbúnaðar- og gjafavöruverslunin Home & You nýja og stórglæsilega verslun í Smáralind. Verslanir Home & You eru þekktar víða um heim fyrir hagstætt vöruverð og fjölbreytt vöruúrval.
Í tilefni af opnuninni verður 20% afsláttur af öllum vörum alla helgina og veglegt happadrætti fyrir viðskiptavini. Verslunin er staðsett í 400 fermetra verslunarrými á neðri hæð Smáralindar, til móts við Lyfju og A4.
„Við hlökkum afar mikið til að taka á móti fólki á nýjum og flottum stað,“ segir Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Home & You á Íslandi.
Undirbúningur opnunarinnar í Smáralind hefur verið í fullum gangi síðastliðna mánuði þar sem hugað hefur verið að hverju smáatriði á fætur öðru til að rýmið endurspegli vöruúrval og gildi Home & You.
„Síðustu mánuðir hafa svo einkennst af gríðarlegri vinnu, en það þarf að teikna upp nýju búðina, innrétta, velja og panta inn fallegar vörur svo ekki sé minnst á að koma þeim öllum fyrir. Svo nú eftir ansi margar svefnlitlar nætur er komið að því að opna 400 fm2 verslun,“ segir Ingibjörg.
Vöruúrval verslunarinnar er stóraukið og af fjölbreyttum toga en Home & You sérhæfir sig meira í sölu á smávöru fremur en stórum húsgögnum. „Það ættu allir að geta fundið eitthvað í sínum stíl í versluninni. Við bjóðum upp á frábært úrval af smávöru sem eru tilvaldar í gjafir eða bara til að lífga upp á heimili,“ segir hún.
„Fólk hefur oft komið inn í verslunina til að finna góða gjöf en labbað svo út með gjöfina og fullan poka til viðbótar fyrir eigið heimili svo það er allar líkur á að þú finnir réttu hlutina hjá okkur,“ lýsir Ingibjörg sem tekur inn nýjar vörulínur í verslunina fjórum sinnum á ári.
„Við erum alltaf með eitthvað nýtt í versluninni og erum svo heppin að fá inn nýjar vörulínur við hver árstíðaskipti. Svo höldum við líka í þær vörur sem eru vinsælastar,“ segir hún en vinsælustu vöruflokkar Home & You hér á landi hafa hingað til verið handklæði og heimilisilmir.
„Handklæðin eru sérlega þykk og mjúk og haldast ótrúlega vel í þvotti. Svo eru heimilisilmirnir einstaklega mildir og góðir og endast bæði vel og lengi. Fylgihlutirnir fyrir baðherbergin hafa líka verið mjög vinsælir og þá sérstaklega línurnar sem glitra,“ segir Ingibjörg.
„Við Íslendingar getum verið svo miklir hrafnar inn við beinið,“ bætir hún við og segir glitrandi vörur oftar en ekki fanga auga Íslendinga.
„Stundum segjum við að það sé hægt að koma til okkar og „blinga upp“ heimilið, sem er hræðileg íslenska og óskum við formlega eftir góðri þýðingu,“ segir Ingibjörg og hlær.
Home & You er hluti af evrópskri verslanakeðju sem sérhæfir sig í heimilis- og gjafavöru. Verslanirnar eru nú þegar orðnar hátt í 200 talsins víðs vegar um Evrópu og hefur vöxturinn farið á ógnarhraða undanfarin ár.
„Síðustu tvö ár höfum við verið að leita að betri staðsetningu fyrir verslunina. Svo heyrðum við af fáanlegu rými í Smáralindinni fyrir fáeinum mánuðum og við vorum ekki lengi að stökkva á það frábæra tækifæri,“ segir Ingibjörg en verslun Home & You var áður staðsett í Skeifunni 11.
Ingibjörg segir verslunarrýmið í Smáralind hæfa verslun Home & You fullkomlega, það sé mun stærra og þægilegra en gamla rýmið.
„Rýmið er hið glæsilegasta og vörurnar sóma sér svo vel hér. Svo ekki sé minnst á að í Smáralind er alltaf nóg af bílastæðum og öll þægindi í fyrirrúmi. Við getum ekki beðið eftir því að taka á móti viðskiptavinum okkar, nýjum sem gömlum, í verslun okkar í Smáralind. Verið öll hjartanlega velkomin.“