Ostar eru frábærir í tækifæris- og jólagjafir og sívinsælir á veisluborðum yfir hátíðarnar. Falleg gjafakarfa með úrvali af bragðgóðum íslenskum ostum og öðru góðgæti er gómsæt gjöf sem gleður í aðdraganda jólanna og setur skemmtilegan svip á aðventuna. Mjólkursamsalan býður nú sem fyrr upp á fjölbreytt úrval ostakarfa til fyrirtækja og einstaklinga þar sem flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi enda koma körfurnar í ýmsum stærðum og gerðum.
Litrík og falleg gjafakarfa með íslenskum ostum og sérvöldu meðlæti hefur fyrir löngu fest sig í sessi enda gómsæt og vinsæl gjöf með eindæmum. Fólk vill gera vel við sig um jólin og hittir gjarnan vini og ættingja og þá getur komið sér vel að eiga osta á ostabakkann.
„Allar körfurnar frá MS innihalda vinsæla mygluosta úr Dölunum á borð við Camembert, Kastala og Brie. Til viðbótar eru bragðgóðir rjóma- og kryddostar ásamt meðlæti og fjölgar ostunum eftir því sem körfurnar stækka,“ segir Harpa Hrönn Gunnarsdóttir, sem hefur yfirumsjón með ostakörfugerðinni hjá MS.
MS býður líkt og undanfarin ár upp á fjölbreytt úrval ostakarfa í aðdraganda hátíðanna og fást þær í átta mismunandi stærðum.
„Stærri og veglegri körfurnar innihalda enn fremur aðra bragðgóða osta eins og Auði, Óðalsost og Goðdali, ásamt kjöti og sælgæti og er óhætt að segja að þær hafi verið mjög vinsælar hjá íslenskum fyrirtækjum undanfarin ár,“ segir Harpa Hrönn og bætir því við að vinsældir ostakörfugjafabréfa séu sífellt að aukast en slík gjafabréf gefa viðtakendum tækifæri til að panta körfu og sækja þegar þeim hentar, hvort sem er fyrir jólin eða á nýju ári.
„Það er mjög algengt að fyrirtæki og einstaklingar vilji bæta annarri matvöru, víni eða gjafavöru í körfurnar og finnst okkur meira en sjálfsagt að verða við því,“ segir Harpa Hrönn.
„Þessi viðbót er viðskiptavinum okkar að kostnaðarlausu enda leggjum við mikinn metnað í að veita hverjum og einum góða og persónulega þjónustu.“
Starfsfólk söludeildar MS er boðið og búið að aðstoða viðskiptavini við val á körfum og innihaldi. Þá má einnig benda á að það er í boði að setja saman eigin körfur.
„Við höfum það að leiðarljósi að í öllum körfunum, óháð stærð þeirra, er hugað sérstaklega vel að fjölbreyttu úrvali osta og meðlætis og að ostarnir parist vel á ostabakka,“ segir Harpa Hrönn.
Í nóvember ár hvert opnar sérstök ostakörfuverslun á ms.is þar sem nálgast má allar upplýsingar um körfurnar og innihald ásamt því hvernig best er að haga pöntunarferli. Harpa Hrönn segir að ostakörfuverslunin hafi farið vel af stað í ár og greinilegt sé að fólk sé snemma á ferðinni með undirbúning jólanna í ár og er að mæla með gómsætum ostakörfum í jólapakkann.
„Netverslun hentar þó ekki öllum okkar viðskiptavinum og því er vert að taka fram að sölufulltrúar okkar eru tilbúnir að svara öllum fyrirspurnum í síma 450-1111 eða í gegnum netfangið ostakorfur@ms.is,“ segir Harpa Hrönn.
Harpa Hrönn vekur athygli á því að boðið er upp á heimsendingu á ostakörfum um allt land og eru sérstakir ostakassar afar hentugir til póstflutninga og raðast jafnframt vel í þeim tilfellum sem fólk er að kaupa margar gjafir og keyra þeim út sjálft. Velji viðskiptavinir heimsendingu er fast verð 1.100 kr. á hvert heimilisfang hvort sem um er að ræða körfu eða kassa.
Undanfarin ár höfum við tekið skref í átt að umhverfisvænni umbúðum og höfum nú sagt alveg skilið við bastkörfur sem við notuðum áður.
„Pappakörfur, -kassar og -öskjur eru mun umhverfisvænni en gömlu bastkörfurnar auk þess sem þær eru framleiddar hér á landi,“ segir Harpa Hrönn og bætir við að viðskiptavinir hafi tekið þessu jákvæða skrefi fagnandi enda er auðvelt að endurnýta og endurvinna pappann.