Ráðgjöfin milljóna króna virði

Feðginin Viðar Böðvarsson og Rakel Viðarsdóttir hjá Fasteignasölunni Fold.
Feðginin Viðar Böðvarsson og Rakel Viðarsdóttir hjá Fasteignasölunni Fold. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fasteignasalan Fold er rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem hefur verið starfrækt í 30 ár. Frá upphafi hefur Fasteignasalan Fold sérhæft sig í sölu á öllum tegundum fasteigna og haslað sér völl sem ein öruggasta og traustasta fasteignasala landsins.

Viðar Böðvarsson, löggiltur fasteignasali og eigandi Fasteignasölunnar Foldar, segir að frá upphafi hafi rík áhersla verið lögð á fagmennsku og framúrskarandi þjónustu hjá Fasteignasölunni Fold.

Viðar Böðvarsson hefur starfað við fasteignasölu síðan árið 1980 en …
Viðar Böðvarsson hefur starfað við fasteignasölu síðan árið 1980 en hann á og rekur Fasteignasöluna Fold. Ljósmynd/Aðsend

„Fasteignasalan Fold byggir á persónulegri þjónustu. Viðskiptavinurinn hefur beinan aðgang að starfsfólki okkar og er alltaf velkominn á skrifstofuna í spjall og til að fá ráðgjöf,“ segir Viðar og bendir á að hagsmunir viðskiptavina séu ávallt hafðir í fyrrirúmi hjá Fasteignasölunni Fold.

„Það getur verið milljóna virði að fá ráðgjöf um hvernig best er að haga málum í kaupum eða sölum á fasteign,“ segir hann og bætir við:

„Fold hefur alla tíð lagt áherslu á að sinna hinum almenna viðskiptavini á markaðnum, það er að segja einstaklingum og fjölskyldufólki sem vill selja, kaupa eða leigja fasteign. Það tryggir að öll ráðgjöf byggir á hagsmunum viðskiptavina.“

Reynslubankinn verðmætur

Fasteignasalan Fold er staðsett í Sóltúni 20. Skrifstofan er í björtu og fallegu rými sem hannað var árið 2017 af Berglindi Berndsen, innanhússarkitekt. Þar voru þarfir fasteignasölunnar í hávegum hafðar og þægindi viðskiptavina jafnt sem starfsfólks höfð í huga.

Að sögn Viðars er starfsfólk Foldar þrautreynt í sínu fagi og hefur áratugareynslu af fasteignaviðskiptum. Sjálfur hefur Viðar starfað við fasteignasölu frá árinu 1980 og þekkir þann geira því betur en margur.

„Reynslubankinn er verðmætur fyrir viðskiptavininn og tryggir það að hann fái ábyggilega og gagnlega ráðgjöf,“ segir Viðar. 

Frá árinu 2017 hefur Fasteignasalan Fold verið til húsa í …
Frá árinu 2017 hefur Fasteignasalan Fold verið til húsa í glæsilegu skrifstofurými í Sóltúni 20. Ljósmynd/Aðsend

Hjá Fasteignasölunni Fold er að finna allar tegundir fasteigna á skrá hvort sem um íbúðir, einbýlishús, sumarhús eða atvinnuhúsnæði er að ræða. Samhliða kaupum og sölu á fasteignum segir Viðar eftirspurn eftir leiguhúsnæði hafa færst í aukana.

„Þjónusta Foldar í sambandi við útleigu húsnæðis hefur aukist mikið síðustu árin. Það er orðið flóknara að finna rétta leigjandann en var hér áður fyrr. Við leitum eftir upplýsingum um lánshæfisstöðu leigutaka og meðmæli, sýnum eignirnar og önnumst gerð leigusamninga. Til okkar leita sendiráð, öflug fyrirtæki og opinberir aðilar sem eru að leita að leigueignum.“

Viðskiptavinum fylgt alla leið

Löggiltir fasteignasalar hjá Fasteignasölunni Fold eru í fullu starfi og sinnir hver sínu hlutverki af mikilli kostgæfni. Það segir Viðar setja mikinn gæðastimpil á starfsemi Foldar þar sem málin eru unnin á hraðan og örugglegan hátt.

„Sölumennsku er sinnt af löggiltum fasteignasölum sem eru í fullu starfi við sölu og leigu fasteigna. Allir sölumenn eru aðgengilegir á skrifstofu Foldar. Það tryggir að staða hvers máls innanhúss er ávallt skýr og upplýsingaflæði innan fyrirtækisins gott,“ segir hann en samkvæmt Viðari verður það sífellt algengara í fasteignageiranum að fjölmennar fasteignasölur byggi starfsemi sína á fasteignasölum í hlutastarfi.

„Skjalagerð fer einnig fram innanhúss hjá okkur en margar fasteignasölur úthýsa slíkum verkefnum og fer þá skjalagerð fram utan fasteignasölunnar,“ útskýrir hann. 

Berglind Berndsen, innanhússarkitekt, hannaði skrifstofuhúsnæði Fasteignasölunnar Foldar þar sem hugað …
Berglind Berndsen, innanhússarkitekt, hannaði skrifstofuhúsnæði Fasteignasölunnar Foldar þar sem hugað var að hverju smáatriði og útkoman er stórglæsileg. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir skjalagerð hjá fasteignasölunni í öruggum höndum Rakelar Viðarsdóttur sem er hvort tveggja löggiltur fasteignasali og viðskiptalögfræðingur að mennt og á langa starfsreynslu að baki. 

Aðrir starfsmenn Foldar eru Gústaf A. Björnsson, íþróttafræðingur og löggiltur fasteignasali, sem hefur starfað lengi hjá Fold og á að baki farsælan feril sem leikmaður og þjálfari í hand- og fótbolta og Hörður Sverrisson, hagfræðingur og löggiltur fasteignasali, sem hefur starfað við sölu fasteigna frá aldamótum og hefur einnig mikla reynslu úr fjármálageiranum.

Stjórnarformaður fyrirtækisins er Anna Ólafía Guðnadóttir, íslensku og bókmenntafræðingur. Hún sinnir ýmsum verkefnum í þágu Foldar.

„Það er mikilvægt fyrir kaupendur og seljendur fasteigna að þeirra fulltrúi sé í fullu starfi og aðgangur sé að honum eða staðgengli allan þann tíma sem fasteignaferlið tekur,“ segir hann og hvetur þá sem hyggja að fasteignaviðskiptum til að kanna með hvaða hætti þessum málum er háttað áður en fasteignasali og viðskipti við fasteignasölur verða fyrir valinu.

Fasteignaviðskiptin einfölduð

Þrátt fyrir að Fasteignasalan Fold leitist gjarnan við að halda í gömul og góð gildi þá er starfsemin knúin áfram í takt við tíð og tíma til að einfalda viðskiptavinum fasteignaviðskipti. Rafrænar undirritanir eru einn liður í því sem bæði eru einfaldar og öruggar í notkun.

„Fold hefur ávallt verið framarlega hvað varðar tækninýjungar í fasteignaviðskiptum. Við erum í samskiptum við hugbúnaðarfyrirtækið Dokobit hvað varðar rafrænar undirritanir og leitumst við að gera öll fasteignaviðskipti sem einföldust með aðstoð nútímatækni. Nú er verið að vinna að rafrænni þinglýsingu skjala og er Fold virkur þátttakandi í þeirri vegferð. Enda er okkur mjög umhugað um öryggi og þægindi viðskiptavinarins og sýnum það í verki að við erum traustsins verð.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka