Vaknar í nýrri höfn á hverjum degi

Súla travel býður upp á skemmtiferðasiglingar með Norwegian Cruise Line …
Súla travel býður upp á skemmtiferðasiglingar með Norwegian Cruise Line sem er með 20 skip sem sigla allt árið um kring. Ljósmynd/Aðsend

„Það dásamlega við skemmtiferðasiglingar er að þú ferð að sofa á kvöldin og vaknar í nýrri höfn, nýju landi eða jafnvel nýrri heimsálfu daginn eftir. Svo ertu á fimm stjörnu hóteli allan tímann sem ferðast með þér,“ segir Skúli Unnar Sveinsson, ferðaráðgafi og fararstjóri hjá Súla Travel sem er umboðsaðili fyrir Norwegian Cruise Line á Íslandi.

„Svona siglingar verða ávanabindandi og við sjáum oft sama fólkið koma aftur og aftur, jafnvel í nákvæmlega sömu ferðirnar. Þegar það er tilfellið þá fer fólk kannski minna í land eða sleppir að minnsta kosti skoðunarferðunum, röltir kannski bara um svæðið og nýtur frekar verunnar í skipinu sjálfu. Það er mjög þægilegt líf.“

Það er allt til alls í skemmtiferðaskipum NCL og þar …
Það er allt til alls í skemmtiferðaskipum NCL og þar má meðal annars finna skemmtistaði, heilsulind, leikhús og yfir 20 veitingastaði. Ljósmynd/Aðsend

Fimm stjörnu hótel sem ferðast með þér

Norwegian Cruise Line er með 20 skip sem sigla 365 daga á ári út um allan heim, til að mynda um Gríska eyjahafið, Miðjarðarhafið og frá Barcelona til Miami. Aðspurður hvernig tilfinning það sé að fara í skemmtiferðasiglingu spyr Skúli á móti: „Hvernig er að vera á fimm stjörnu hóteli? Það er bara nákvæmlega þannig. Það er allt til alls á skipinu; sundlaugar, líkamsræktarstöð, heilsulind, 20 veitingastaðir og svona get ég haldið áfram að telja. Svo má ekki gleyma leikhúsunum sem taka hátt í 1000 manns í sæti en þar má sjá alls kyns sýningar á hverju kvöldi,“ segir Skúli og viðurkennir að þótt hann hafi gaman af öllum siglingunum þá sé Gríska eyjahafið í sérstöku uppáhaldi.

„Svo er Panama skurðurinn frá Flórída til Los Angeles líka svakalega skemmtileg sigling. Bæði af því að það er gaman að sigla skurðinn og svo eru rosalega fallegar litlar hafnir á Mexíkönsku ríverunni. Það er líka einn staður sem mér finnst rosalega gaman að koma á, Katakolon sem er lítill 300 manna bær í Grikklandi sem er ekki langt frá Olympíu hinni fornu. Það er æðislegt að skoða Olympíu og fara svo í þennan litla bæ en þar má til dæmis finna pínulítið og mjög skemmtilegt safn. Þar er eldri maður í sirka 40 fermetra húsi sem hefur síðustu 40 ár búið til líkön úr íspinnaspýtum og eldspýtum. Þetta er alveg ótrúlega gaman að sjá.“

Það er hægt að finna eitthvað fyrir alla á skemmtiferðasiglingu, …
Það er hægt að finna eitthvað fyrir alla á skemmtiferðasiglingu, hvort sem er að slaka á, fara í skoðunarferðir eða upplifa næturlífið um borð. Ljósmynd/Aðsend

Áhugaverðar skoðunarferðir

Greitt er fast gjald fyrir skemmtiferðasiglingu og innifalið í því er fullt fæði í skipinu, skemmtidagskrá og þjórfé ásamt fararstjórn. Greiða þarf sérstaklega fyrir skoðunarferðir og þá talar Skúli um að hægt sé að kaupa drykkjarpakka, netpakka sem og matarpakka fyrir hvert herbergi og klefa. Þótt verðimiðinn virðist kannski hár sé það ekki raunin þegar allt er talið saman.

Þegar innt er eftir því hvort Skúli mæli með skoðunarferðunum talar hann um að þær geti verið mjög áhugaverðar. „Skipafélagið er með átta til tuttugu skoðunarferðir í hverri höfn og ef fólk hefur ekki komið áður á staðinn þá mælum við oft með ferðunum. Til að mynda í Napólí þá er eiginlega nauðsynlegt að skoða Pompei. Við fararstjórarnir förum svo alltaf í göngutúra í hverri höfn sem allir eru velkomnir með í og það kostar ekki neitt. Þetta er mislangt eftir höfnum og til að mynda í Róm röltum við um í sex klukkutíma en með því er hægt að skoða borgina vel.“

Að ferðast með skemmtiferðaskipi er líkt því að vera á …
Að ferðast með skemmtiferðaskipi er líkt því að vera á fimm stjörnu hóteli sem ferðast með þér. Ljósmynd/Aðsend

Allir fundið eitthvað við sitt hæfi

Skúli hefur lengi unnið sem fararstjóri hjá Súlu Travel og hefur farið í 56 skemmtiferðasiglingar. Hann talar um að jólaferðirnar séu mjög vinsælar en gaman sé að sjá að svona ferðir heilli fólk á öllum aldri. „Í gamla daga var oft sagt að skemmtiferðasiglingar væri bara fyrir gamalt og ríkt fólk en með okkur hafa farið farþegar frá þriggja mánaða aldri og upp í 91 árs,“ segir Skúli og hlær.

„Ég hef farið með dætur mínar í ferð. Þær voru kannski ekki spenntar í byrjun en þær voru hæstánægðar og sögðu að þetta væri eins og Benidorm. Þær gátu verið í sólbaði, farið út að borða sem og á djammið, hvort heldur sem er á barinn, diskótek eða næturklúbb.

Það er misjafnt eftir ferðum hvort verið sé á siglingu allan daginn eða komið í höfn flesta daga. Í ferð eins og í Miðjarðarhafinu þar sem er saga í hverri höfn þá er nóg að gera. Þá er vaknað snemma á morgnana, farið í land að skoða og svo þegar komið er aftur í skipið er farið út að borða, kannski á barinn og í leikhúsið. Það er alveg full dagskrá. Það geta því allir fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem er að slaka á í skipinu eða skoða nýja menningarheima,“ segir Skúli að endingu og tekur fram að það þurfi enginn að hafa áhyggjur af sjóveiki. „Þetta eru svo stór skip að þau hreyfast yfirleitt ekki mikið.“

Skúli Unnar Sveinsson hefur farið í 56 skemmtiferðarsiglingar og viðurkennir …
Skúli Unnar Sveinsson hefur farið í 56 skemmtiferðarsiglingar og viðurkennir fúslega að það geti orðið ávanabindandi enda einstakur ferðamáti.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert