Ástríða að leiðarljósi í tímalausri hönnun

Helgi Kristjánsson og Elísa Mjöll Guðsteinsdóttir eiga skartgripaverslunina mjöll sem …
Helgi Kristjánsson og Elísa Mjöll Guðsteinsdóttir eiga skartgripaverslunina mjöll sem stofnuð var árið 2019 við borðstofuborðið á heimili hjónanna. Ljósmynd/Þórdís Björt

 „Það sem skiptir okkur mestu máli er að viðskiptavinurinn fái góða þjónustu og oft er það gullsmiður sem afgreiðir hjá okkur. Skartgripir eru mjög persónulegar gjafir og oft eru þetta tilfinningaleg kaup, við viljum að fólk finni að við gefum þeim tíma,“ segir Elísa Mjöll Guðsteinsdóttir en hún og Helgi Kristjánsson eru eigendur skartgripaverslunarinnar mjöll.

„Þetta er fjölskyldufyrirtæki og það er ótrúlega gaman að heyra frá viðskiptavinum okkar að það er einmitt það sem þau upplifa, að það sé persónuleg þjónusta og ástríða í öllu sem við gerum.“

Í mjöll má finna fínlega, mínímalíska og tímalausa skartgripi.
Í mjöll má finna fínlega, mínímalíska og tímalausa skartgripi. Ljósmynd/Aðsend

Mínímalskir og fínlegir skartgripir

Þegar mjöll var stofnað árið 2019 var verslunin í fyrstu eingöngu á vefnum en í mjöll er hægt að fá handsmíðaða skartgripi úr silfri, gullfyllingu og 14 karata gulli auk lífstílsvöru. Elísa talar um að í versluninni sé hægt að fá allt frá hversdags skartgripum yfir í giftingarhringa og demantsskart, og allt þar á milli.

„Skartgripirnir okkar eru mínímalískir og tímalausir. Það er hægt að ganga að því vísu að gripirnir þreytist ekki eftir eitt eða tvö ár. Vitanlega verðum við fyrir áhrifum af tískunni en ég held að viðskiptavinir okkar viti fyrir hvað við stöndum. Það er mikið hrós þegar talað er um að gripirnar okkar séu voða mikið mjöll. Þegar við komum inn á markaðinn fannst okkur íslenskir skartgripir vera frekar grófir en okkar gripir eru töluvert fínlegri en það sem hefur verið í gangi í íslenskri handsmíði.“

Gullfylling er málmur sem er ekki bara húðað gull heldur …
Gullfylling er málmur sem er ekki bara húðað gull heldur er notuð öðruvísi aðferð við framleiðsluna þannig að það er meira og þykkara gull í gullfyllingu. Ljósmynd/Aðsend

Byrjuðu við borðstofuborðið

Nýverið flutti mjöll í glæsilegt húsnæði að Ármúla 42 en áður hafði verslunin verið í Hamraborg auk þess sem það er verslun á Laugavegi. Helgi talar um að það hafi verið erfitt að kveðja Kópavoginn og fastakúnnana þar en þetta frábæra pláss í Ármúlanum hafi dottið í fangið á þeim.

„Sem betur fer eru viðskiptavinir okkar svo tryggir að við erum þegar farin að sjá Kópavogsbúana í nýju versluninni. Ármúlinn er líka í ótrúlega spennandi hverfi og hér er að byggjast upp flott verslunargata. Það er greinilegt að fólk er vant því að sækja verslanir og þjónustu í þessu hverfi. Um leið og við opnuðum dyrnar kom fólk hér inn eins og við hefðum alltaf verið hérna. Það er ótrúlega dýrmætt að hingað sé að koma fólk sem kom til okkar í Kópavog og jafnvel heim til okkar,“ segir Helgi og Elísa bætir við að þannig hafi þau einmitt byrjað.

„Fyrsta parið sem keypti giftingarhringa frá okkur kom bara heim til okkar og sat við borðstofuborðið á meðan dóttir okkar var að leika sér við hliðina. Það er svo mikils virði að mikið af þessum fyrstu kúnnum fylgi okkur enn.“

Skartgripaverslunin mjöll er fjölskyldufyrirtæki þar sem ástríða er höfð að …
Skartgripaverslunin mjöll er fjölskyldufyrirtæki þar sem ástríða er höfð að leiðarljósi í tímalausri hönnun. Ljósmynd/Aðsend

Vinsæl gullfylling

Elísa segir að það hafi svolítið verið í eðli hennar að hanna og smíða skartgripi. Hún bjó í Bandaríkjunum í nokkur ár og var þá að selja skartgripi á mörkuðum þar. Þegar heim kom sá hún ekki fyrir sér að hún gæti lifað á þessu en þegar hún og Helgi kynnast þá varð „gullið til,“ eins og hún orðar það sjálf. Þótt Helgi hafði ekki snert skartgripi þá voru þau lík að þessu leyti að vilja fara í eigin rekstur.

„Ég sá líka tækifæri í gullfyllingu sem var þá ekki í boði hérlendis en ég kynntist gullfyllingunni í Bandaríkjunum. Gullfylling er málmur sem er ekki bara húðað gull heldur er notuð öðruvísi aðferð við framleiðsluna þannig að það er miklu meira og þykkara gull í gullfyllingu. Það er því frábær kostur fyrir þá sem vilja gull án þess að fara í ekta gull því það er dýrara,“ segir Elísa og gefur Helga orðið:

„Það hefur alltaf verið draumur hjá mér að búa til og byggja og það sem er svo fallegt við þennan sameiginlega draum okkar Elísu er að við erum með rekstur sem snérist líka um smíði og ég hef því fengið mína mestu skapandi útrás við að smíða alla umgjörðina. Og svo líka að sjá þetta litla verkefni okkar verða stærra en við tvö. Núna erum við bara orðin eitt tannhjól í öllu gangverkinu og það er svo gaman að fylgjast með því og fylgjast með fyrirtækinu stækka þar sem starfsfólkið og viðskiptavinirnir eru hjartað í starfseminni,“ segir Helgi.

Brúðkaupsdagurinn er stór dagur í lífi allra og því gott …
Brúðkaupsdagurinn er stór dagur í lífi allra og því gott að fá persónulega þjónustu við val á hinum fullkomna hring. Ljósmynd/Aðsend

Vinkonuhópurinn hannar skartgrip saman

Þá talar Elísa um skemmtilega nýjung hjá mjöll og á íslenskum markaði en vinkonuhópar, systur eða aðrir hópar geta komið í mjöll og hannað skartgrip fyrir hópinn. „Þetta hefur verið mjög vinsælt hjá okkur enda hefur svona skartgripur mikið vægi fyrir fólk og oft er þetta við einhver ákveðin tímamót. Einn fyrsti hópurinn sem kom til okkar var vinkonuhópur sem átti þrítugsafmæli á árinu og þær vildu fá sér hringa í tilefni þess. Þetta er þá alltaf einhver gripur sem hópurinn hannar sameiginlega ásamt gullsmið. Stundum eru gripirnir nákvæmlega eins og stundum tengjast þeir á einhvern hátt. Það má til dæmis áletra gripinn með einhverju persónulegu eða velja mánaðarsteina, allt eftir því hvað hópurinn vill,“ segir Elísa og bætir við að hóparnir sem hafa komið hafa valið hringa, armbönd eða hálsmen.

„Þetta er ótrúlega skemmtileg stund sem hópurinn á saman og þegar gripurinn er tilbúinn þá gerum við eitthvað skemmtilegt, höfum freyðívin svo hægt sé að skála og njóta þessarar stundar. Það er mjög gaman að geta gert smá upplifun í kringum þetta.“

Eilífðararmbönd eru fínleg og falleg armbönd sem ekki er hægt …
Eilífðararmbönd eru fínleg og falleg armbönd sem ekki er hægt að taka af sér án þess að klippa þau af. Keðjurnar er líka hægt að fá sem ökklaband eða hálsmen. Ljósmynd/Aðsend

Armbönd til eilífðar

Ein nýjasta varan hjá mjöll eru svokölluð eilífðararmbönd en það eru armbönd sem ekki er hægt að taka af sér án þess að klippa þau af. Elísa talar um að þetta séu þunnar keðjur sem er líka hægt að fá sem ökklaband eða hálsmen. „Það er enginn lás á þessum keðjum og þetta er því eilífðarskartgripur. Þegar búið er að festa skartgripinn á þér ertu með hann á þér þar til hann er klipptur af með litlum klippum. Og þá þarftu aldrei að gera armbandajóga eftir það,“ segir Elísa og hlær.

„Við erum með nokkrar týpur af keðjum og erum að bæta fleirum við því þetta hefur verið svo vinsælt hjá okkur. Og þar sem þetta eru þunnar keðjur þá er alveg hægt að fá sér nokkrar. Þetta er líka skemmtileg gjöf fyrir mæður, frænkur eða bestu vini,“ segir Elísa að lokum og hvetur alla til að kíkja í opnunarteiti að Ármúla 42 í dag, fimmtudaginn 20. júní, á milli klukkan 17-19. „Við verðum með góða afslætti og gjafapoka ásamt léttum veitingum auk þess sem DJ Karítas mun þeyta skífum fyrir gesti og gangandi.“

Verslunin mjöll flutti nýverið í Ármúla 42 og þar verður …
Verslunin mjöll flutti nýverið í Ármúla 42 og þar verður opnunarteiti í dag klukkan 17-19. DJ Karítas þeytir skífum og boðið verður upp á léttar veitingar, gjafapoka og góða afslætti. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert