Markmiðið að gæta hagsmuna millitekjufólks

Vilhjálmur Hilmarsson og Katrín Björg Ríkarðsdóttir koma úr ólíkum áttum …
Vilhjálmur Hilmarsson og Katrín Björg Ríkarðsdóttir koma úr ólíkum áttum en hafa nú bæði hafið störf sem sérfræðingar hjá nýstofnaða stéttarfélaginu Visku. Ljósmynd/Aðsend

Katrín Björg Ríkarðsdóttir og Vilhjálmur Hilmarsson koma úr ólíkum áttum. Hún var framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu en hann var hagfræðingur BHM. Þau hafa nú bæði hafið störf sem sérfræðingar hjá nýstofnaða stéttarfélaginu Visku. Félagið varð til við samruna nokkurra stéttarfélaga um áramótin og er ætlað að verða áhrifaríkt nýtt hagsmunaafl á vinnumarkaði fyrir millitekjuhópa. Félagið er nú þegar stærsta stéttarfélag háskólamenntaðra á Íslandi og hefur áform um fjölmargar nýjungar í þjónustu stéttarfélaga hérlendis.

Millistéttin þarf skýrari rödd

Vilhjálmur segir að það hafi verið áhugavert að ganga til liðs við Visku vegna þess að félagið hafi það að markmiði að tala sérstaklega fyrir millitekjuhópa.

„Að mínu mati er nauðsynlegt að millistéttin fái meira rými í þjóðfélagsumræðunni. Ég bendi á að verkalýðshreyfingin hefur einblínt nánast eingöngu á lágtekjuhópa, sem sannarlega þurfa stuðning, en millistéttin er sá hópur sem ber uppi samfélagið í gegnum skattkerfið. Á sama tíma hefur þessi hópur fengið lítið út úr kjarasamningum síðustu ára, hvort sem við horfum á launaliðinn eða aðgerðir stjórnvalda. Við finnum ákveðna þreytu gagnvart því og ætlum að svara kallinu með því að byggja upp Visku.“

„Ég bendi á að verkalýðshreyfingin hefur verið að einblína nánast …
„Ég bendi á að verkalýðshreyfingin hefur verið að einblína nánast eingöngu á lágtekjuhópa, sem sannarlega þurfa stuðning, en millistéttin er sá hópur sem ber uppi samfélagið í gegnum skattkerfið,“ segir Vilhjálmur. mbl.is/Karítas

Mikil tækifæri á jafnréttissviðinu

Katrín Björg tekur undir með Vilhjálmi og segir Visku á afar spennandi vegferð. Hún segir það hafa verið stóra ákvörðun að hætta sem framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu eftir margra ára starf en að Viska hafi boðið upp á einstakt tækifæri til taka þátt í að byggja upp nýtt og mikilvægt afl á vinnumarkaði.

„Það er spennandi að taka þátt í að byggja upp stéttarfélag sem horfir til launajafnréttis og leggur áherslu á virkilega góða þjónustu við sitt félagsfólk. Svo vakti það ekki síst athygli mína að félagið er borið uppi af háskólamenntuðum konum. Mig langar að leggja mitt af mörkum til að vinna að launajafnrétti, sérstaklega í ljósi þess að vinnumarkaðurinn er kynjaskiptur og menntun kvenna er oft vanmetin,“ segir Katrín.

„Mig langar að leggja mitt af mörkum til að vinna …
„Mig langar að leggja mitt af mörkum til að vinna að launajafnrétti, sérstaklega í ljósi þess að vinnumarkaðurinn er kynjaskiptur og menntun kvenna er oft vanmetin,“ segir Katrín. mbl.is/Karítas

Getum lært mikið af Norðurlöndunum

Katrín og Vilhjálmur tala bæði um að það sé spennandi að við stofnun félagsins hafi sérstaklega verið horft til reynslu sambærilegra stéttarfélaga á Norðurlöndunum.

„Eitt sem Viska hefur tileinkað sér að norrænni fyrirmynd er að sameina stéttarfélög háskólafólks og sérfræðinga þvert á tegund menntunar. Þannig verða til sterkar einingar sem þó eru deildarskiptar þannig að sérstaða hópa fær að njóta sín. Við leggjum áherslu á að innra starfið sé öflugt og skilvirkt, erum bæði með kjaradeildir og faghópa þar sem fólk með svipaða menntun fær tækifæri til að tala um hin ýmsu mál á jafningjagrundvelli. Þetta er mjög áhugavert og skemmtilegt,“ segir Vilhjálmur. 

Katrín grípur orðið og bætir við: „Svo bjóðum við háskólanema velkomna í Visku og erum með sérstaka námsmannaþjónustu. Við erum með mikinn sýnileika gagnvart háskólasamfélaginu því ég held að það sé mikilvægt að háskólanemar séu meðvitaðir um þá flóru stéttarfélaga sem er til staðar og að háskólanemar geti strax valið sér stéttarfélag við hæfi.”

Betri árangur gegnum styrk og stærð

Framtíðin fyrir Visku virðist björt í augum Katrínar og Vilhjálms sem segja að nú sé verkefnið að stækka félagið og fjölga félagsfólki.

„Í gegnum styrk og stærð náum við betri árangri fyrir millistéttina á Íslandi því eins og tölur sýna þá hefur verið mjög lítil kaupmáttaraukning hjá háskólamenntuðum á þessari öld og hjá millitekjuhópum í heild sinni. Það ætlum við að gera með fjölgun félagsfólks og vonandi sjá fleiri stéttarfélög háskólafólks sér svo hag í því að sameinast inn í Visku með tímanum,“ segir Vilhjálmur að lokum og hvetur alla til að skoða heimasíðu Visku sem má finna hér.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert