„Láttu okkur sjá um fræðslumálin“

Guðmundur Arnar Guðmundsson stofnandi Akademias
Guðmundur Arnar Guðmundsson stofnandi Akademias

„Vinnustaðaskóli Akademias er langvinsælasta þjónustan okkar og í dag eru hátt í 100 fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir sem byggja fræðslustarf sitt í kringum hann. Mörg hundruð vinnustaðir í viðbót kaupa stök námskeið, greiningar og framleiðslu af okkur,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson framkvæmdastjóri Akademias.

Vinnustaðaskólinn er heildstæð áskriftarþjónusta á sviði fræðslumála sem veitir vinnustöðum af öllum stærðum og gerðum tækifæri til að bjóða upp á þarfamiðað og öflugt fræðslustarf sem er sérsniðið að þeirra umhverfi og markmiðum. Akademias er í tvíþættum rekstri; annars vegar er það stjórnendaskólinn og hins vegar rafrænar fræðslulausnir.

„Við segjum oft í kynningum og á fundum: „Láttu okkur sjá um fræðslumálin“ en Akademias á yfir 180 rafræn námskeið fyrir framlínufólk og stjórnendur sem við sníðum verkefni, próf, vinnustofur, kahoot-leiki og fleira í kringum. Við greinum fræðsluþarfir og hjálpum vinnustöðum að virkja stjórnendur til að búa til fræðslumenningu. Eins vinnum við maður á mann með stjórnendum við að skipuleggja fræðslustarfið. Við erum með stóra framleiðsludeild en jafnframt með tæknifólk sem aðstoðar við allt er snýr að kennslukerfum,“ segir Guðmundur.

Fræðsluefnið verður að hitta í mark

Ráðgjafateymi Akademias hefur umsjón með öllum viðskiptavinum sem eru í áskrift að þjónustu. „Hlutverk ráðgjafanna er að tryggja þróun öflugs fræðslustarfs sem stuðlar að auknum árangri í starfseminni og skilar vinnustaðnum enn hæfari starfsmannahópi. Þessu náum við fram með nokkrum lykilþáttum. Í fyrsta lagi framkvæmum við reglulega greiningu á fræðsluþörfum, skref sem tryggir að ákvarðanir í fræðslumálum byggist á traustum þekkingargrunni um raunþarfir í málaflokknum.

Þá höfum þróað aðferðafræði sem miðar að því að virkja lykilstjórnendur til þátttöku bæði hvað varðar mótun fræðslustarfsins sem og framkvæmd þess. Áskriftin felur þá líka í sér aðgengi að um 180 rafrænum námskeiðum sem textuð eru á ensku og fleiri tungumálum. Námskeiðin eru flokkuð í sjö flokka, auk verkfæra og fræðslulausna sem við höfum þróað í samstarfi við viðskiptavini okkar á undanförnum árum,“ segir Guðmundur og bætir við: „Að lokum felur Vinnustaðaskóli Akademias í sér mótun og framleiðslu á sértæku námsefni fyrir hvern og einn viðskiptavin. Þessi þjónustuþáttur gerir okkur kleift að mæta viðskiptavinum okkar þar sem þeir eru í dag og framleiða beint inn í þarfir þeirra,“ segir hann.

Klæðskerasniðið fræðsluefni er lykilatriði þegar kemur að auknum árangri vinnustaða að mati Guðmundar. „Þar sem tilbúið hilluefni nær sjaldnast að svara öllum þeim sértæku þörfum sem til staðar eru. Á þennan hátt gerum við vinnustöðum kleift að þróa sína eigin nýliðafræðslu, móta sérsniðin þjónustunámskeið eða búa til kennslumyndbönd og sýnikennslu sem eru sértæk fyrir þeirra umhverfi og starfsaðstæður, allt eftir því hvað aðstæður þeirra kalla á.“

Kosturinn fyrir vinnustaði að hafa aðgang að svona stóru safni af námskeiðum er að þegar búin eru til sértæk námskeið þá er hægt að nýta einn eða fleiri kafla úr námskeiðum sem til eru og bæta þeim við efni sem er búið til frá grunni. „ Það skapar hagræði fyrir vinnustaði því þarfirnar eru mjög ólíkar á milli vinnustaða og atvinnugeira,“ segir hann.

Hvergi að finna meiri sérfræðinga í faginu

Leiðarljós Guðmundar í starfi er að vinnustaðir nái árangri. „Ég þori jafnframt að fullyrða að hvergi á Íslandi er jafn mikil reynsla og þekking á fræðsluþörfum eins og í Akademias-hópnum, en sú þekking er viðskiptavinum okkar ómetanleg. Við erum áskriftarþjónusta en öll okkar orka og tími fer í að tryggja að vinnustaðir nái árangri.“

Hvernig framkvæmið þið greiningar á fræðsluþörfum?

„Greining fræðsluþarfa fer fram í gegnum spurningalistakönnun sem við höfum þróað. Greiningartækið er einfalt en um leið öflug leið til þess að kortleggja fræðsluþarfir innan vinnustaða. Gögnin eru greinanleg niður á svið, deildir og hópa. Allt eftir því hvað hentar best á hverjum stað fyrir sig. Markmið með slíkri greiningu er að koma í veg fyrir sóun, að ekki sé verið að fjárfesta í fræðslu sem engin þörf er á.

Með því að byrja á greiningu sem þessari þá verður öll ákvarðanataka í kjölfarið mun einfaldari. Allar aðgerðir í málaflokknum stuðla þá að auknum árangri þar sem fræðslustarfið verður hnitmiðaðra í takt við raunverulegar þarfir starfsfólks og stjórnenda. Af þessum ástæðum er þetta yfirleitt fyrsta skrefið í þjónustu okkar,“ segir Guðmundur.

Nýta Akademias sem fræðsludeild sína

Eru fyrirtæki að útvista fræðslustarfi sínu nú í meira mæli en áður?

„Við höfum fundið fyrir auknum takti í þessa átt á undanförnum árum og höfum samhliða því þróað þjónustu okkar þannig að vinnustaðir geta í raun nýtt Akademias sem fræðsludeild sína, óski þeir þess. Algengt er að tímaskortur standi í vegi fyrir öflugu fræðslustarfi, oft er málaflokkurinn á borði eins aðila sem oft á tíðum þarf að dreifa athygli sinni á milli ólíkra verkefna.

Með áskrift að Vinnustaðaskóla Akademias geta vinnustaðir sótt alla þá aðstoð og þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Engin verkefni tengd fræðslumálum eru öflugu ráðgjafateymi okkar óviðkomandi. Við útvegum fræðslulausnir og getum aðstoðað en jafnframt sinnt öllum verkefnum fræðslustarfsins, allt eins og viðskiptavinir kjósa,“ segir Guðmundur.

Það sem vekur athygli er hvað kennarahópurinn er fjölbreyttur. „Kennarar Akademias eru mörg hundruð í dag. Við gefum út ný námskeið og lausnir í hverjum mánuði sem allir okkar viðskiptavinir fá inn í kennslukerfin sín án aukakostnaðar á meðan þeir eru í áskrift. Í hverjum mánuði spyrjum við jafnframt viðskiptavini okkar um áskoranir þeirra og hvort það sé þörf á efni sem er ekki í safninu en ætti að vera þar.

Allt nýtt efni sem við framleiðum í dag eru námskeið sem viðskiptavinir óska eftir. Við framleiðum námskeiðin án aukakostnaðar og þegar það er tilbúið fær sá sem óskar eftir efninu sem og allir aðrir viðskiptavinir aðgang að námskeiðinu,“ segir Guðmundur og úskýrir þátt leikara í kennarastarfinu. „Leikararnir sem starfa með okkur geta flutt námskeið sem við framleiðum fyrir viðskiptavini, en jafnframt velja sérfræðingarnir, kennararnir, sem við störfum með oft að fá leikara til að flytja efnið sitt.“

Hafa stækkað mikið að undanförnu

Áskrift að Vinnustaðaskóla Akademias er til 12 mánaða í senn sem árgjald er greitt fyrir. „Við reynum að stilla verði okkar í hóf og tókum við meðvitaða ákvörðun um að stilla upp starfi okkar þannig að við þyrftum ekki að hækka verðskrá okkar þrátt fyrir breytingar í starfsumhverfi okkar. Ekki aðeins hefur þetta tekist hjá okkur, heldur höfum við getað bætt í þá þjónustu sem við veitum fyrir sama góða verðið og við fórum af stað með í upphafi,“ segir Guðmundur framkvæmdastjóri Akademias og bætir við að áskrifendahópur Vinnustaðaskóla Akademias hafi fjórfaldast á undanförnum árum.

„Á sama tíma hefur starfsmannafjöldinn farið úr 10 í 18. Við höfum fundið fyrir mikilli þörf á þjónustu okkar og hefur eftirspurnin aukist jafnt og þétt, en við sjáum ekki fram á annað en að sú þróun haldi áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert