„Við viljum virkja kraftinn í fólkinu okkar“

Ný ljósmynd
Ný ljósmynd

Hjá Arion starfa hátt í níu hundruð einstaklingar, kraftmikill hópur fólks á öllum aldri og með alls kyns bakgrunn, menntun og reynslu. Styrkur Arion-samstæðunnar felst í þessum öfluga hópi starfsfólks sem býður fjölbreyttum hópi viðskiptavina upp á margs konar lausnir í bankaþjónustu, tryggingum og eignastýringu.

Helga Halldórsdóttir, forstöðumaður mannauðs hjá Arion, segir að það sé margslungið og krefjandi verkefni en líka afar skemmtilegt að halda utan um svo stóran hóp og bjóða upp á fræðslu við hæfi. Ekki nægi að starfsfólk þekki einungis dagleg verkefni sín heldur sé brýnt að það þekki starfsemi Arion í heild sinni og sömuleiðis fjármálaumhverfið á Íslandi.

„Við erum þekkingar- og lærdómsfyrirtæki og því er afar mikilvægt að hlúa stöðugt að símenntun fólksins okkar en einnig að líðan og heilsu þess,“ segir Helga. Þetta er gert með því að bjóða upp á yfirgripsmikið úrval af rafrænni fræðslu og staðbundnum námskeiðum, auk þess sem fólk sæki alls kyns fyrirlestra og ráðstefnur.

„Við hvetjum líka til tengslamyndunar, ekki einungis gagnvart viðskiptavinum okkar heldur einnig innan okkar raða til að efla tengslanetið hér innanhúss,“ segir hún og nefnir tvö nýleg innanhússverkefni – Mentorprógramm Arion og Útskriftar­prógramm Arion – sem bera þeirri viðleitni skýrt merki.

Tvö spennandi verkefni eru í gangi í Arion samsteypunni um …
Tvö spennandi verkefni eru í gangi í Arion samsteypunni um þessar mundir.

Mentorprógrammið færði mig upp á næsta stig

„Í Mentorprógramminu fengum við til liðs við okkur tuttugu og sex öfluga stjórnendur og sérfræðinga innan samstæðunnar sem öll eiga það sameiginlegt að vera með mikla reynslu á fjármálamarkaði,“ segir Maríanna Finnbogadóttir, verkefnastjóri menningar og upplifunar starfsfólks hjá Arion. „Hvert og eitt þeirra er svo parað saman við einn nemanda, með það fyrir augum að báðir aðilar hafi gagn og gaman af sambandinu.“ Mentorprógrammið virkar þvert á deildir fyrirtækisins og leiðir oft saman ólíklegasta fólk með frjóum og skemmtilegum árangri.

Tvö spennandi verkefni eru í gangi í Arion samsteypunni um …
Tvö spennandi verkefni eru í gangi í Arion samsteypunni um þessar mundir.

Svanhildur Ásta Haig hefur starfað hjá Arion banka í níu ár og hefur sinnt þar fjölbreyttum störfum í þjónusturáðgjöf, fyrirtækjaráðgjöf, regluvörslu, viðskiptaeftirliti og nú síðast innri endurskoðun. Hún segir að Mentorprógrammið hafi veitt henni hugrekki til að taka næsta skref fram á við í starfi. „Já, ég hafði séð spennandi starf í innri endurskoðun auglýst en ætlaði ekkert að taka stökkið,“ segir Svanhildur. „Svo komst ég inn í Mentorprógrammið og „mentorinn“ minn veitti mér kjarkinn sem ég þurfti til að sækja um. Í svona stóru fyrirtæki getur fólk unnið árum saman án þess að kynnast öllum. Þess vegna er svo frábært og nauðsynlegt að vinnustaðurinn standi fyrir alls kyns verkefnum sem hafa tengslamyndun starfsfólks að leiðarljósi. Að fá „mentor“ er svolítið eins og að fara til markþjálfa eða sálfræðings. Viðkomandi veit kannski ekkert um mig í upphafi og því er ég óskrifað blað þegar við erum að kynnast. Þetta er frábær leið til að stíga út fyrir þægindahringinn og átta sig á því að möguleikarnir eru ótæmandi. „Mentorinn“ hafði engar fyrir fram mótaðar hugmyndir um hvað ég gæti eða gæti ekki og því voru spurningarnar meira um hvað ég vildi gera, af hverju, og hvernig ég ætlaði að komast þangað.“

Svanhildur bætir því við að Mentorprógrammið hafi ekki einungis nýst henni í starfi heldur einnig eflt hana persónulega. „Ég hef fengið aukna trú á sjálfa mig, hvað ég get og möguleika mína. Mentorprógrammið færði mig upp á næsta stig á starfsferlinum – og sem manneskja.“

Leiðbeinandinn lærir ekki minna en nemandinn

Guðfinna Helgadóttir, rekstrarstjóri á viðskiptabankasviði Arion, tók að sér að vera „mentor“ í fyrsta skipti sem Mentorprógrammið fór fram og hlakkar til að endurtaka leikinn.

„Það var mjög gefandi reynsla að vera slíkur leiðbeinandi,“ segir Guðfinna. „Nemandinn minn sagði mér til dæmis hvers vegna hann hefði valið mig sem „mentor“ og fannst mér það mjög áhugavert því ég hafði aldrei gefið þeim eiginleikum sem drógu viðkomandi að mér gaum. Eins fannst mér æðislegt að sjá nemanda minn vaxa og komast á næsta stað á starfs­ferlinum.“

Guðfinna hefur starfað í bankanum frá árinu 2010 en innan fjármálageirans í um tuttugu og fimm ár. Á þeim tíma hefur hún fengist við fjölbreytt verkefni. Hún hefur sinnt bakvinnslu, þjónustu í framlínu, markaðsmálum og eignastýringu, séð um lánanefndir og sinnt stefnumótun og þróun. Reynsla hennar er því víðtæk og fagnar hún því að geta deilt reynslu sinni og hjálpað samstarfsfélögum að blómstra.

„Margir eru leitandi og vilja vaxa, bæði í starfi en líka bara sem manneskjur. „Mentorinn“ getur veitt viðkomandi kjark til að taka ný skref á ferlinum. Það er svo gott að spegla sig í einhverjum sem er ekki yfirmaður þinn eða náinn samstarfsmaður dags daglega og hefur þar með ekki sterkar fyrir fram mótaðar hugmyndir um þig.“

Guðfinna segir enn fremur að það séu mikil forréttindi, og í raun fjársjóður, að hafa aðgang að þeim stóra hópi sérfræðinga sem starfi innan bankans. „Verkefnin eru svo ólík og fólkið svo fjölbreytt að það er alltaf eitthvað nýtt að gerast. Ég hef verið hér í fjórtán ár og þau hafa flogið hjá!“

Útskriftarprógramm að erlendri fyrirmynd

Nýlega ýtti Arion úr vör öðru tilraunaverkefni innan bankans. Átján mánaða útskriftarprógrammi fyrir einstaklinga sem hafa lokið eða eru um það bil að ljúka háskólanámi með framúrskarandi árangri. Þar gefst litlum hópi ungra einstaklinga tækifæri til að kynnast fjölbreyttum störfum Arion og spreyta sig á alls kyns ólíkum verkefnum.

„Það kom inn þvílíkt magn af umsóknum, sem bendir til þess að það sé mikil eftirspurn eftir slíku verkefni á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Maríanna. „Að velja sjö nöfn úr bunkanum var ekki auðvelt.“

Útskriftarverkefni Arion er sniðið að erlendri fyrirmynd, en margir af stærstu bönkum í Evrópu bjóða upp á slíka námsbraut fyrir nýtt starfsfólk. Námsbrautin er þannig uppbyggð að þátttakendur færast á milli sviða eða fyrirtækja Arion-samstæðunnar á nokkurra mánaða millibili og öðlast þar með yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á fjölbreyttum verkefnum. Reynt er að velja inn fjölbreyttan hóp starfsfólks með ólíkan bakgrunn og menntun. „Í útskriftarprógramminu erum við fyrst og fremst að leita eftir einstaklega metnaðarfullu fólki, sem er reiðubúið að takast á við alls konar spennandi áskoranir og læra mikið á stuttum tíma. Þá skiptir ekki máli hvort fólk hefur bakgrunn í viðskiptafræði, hjúkrun eða jarðfræði,“ segir Björn Björnsson, framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Arion banka, en hann hefur, rétt eins og aðrir stjórnendur innan samstæðunnar, tekið þessari nýju námsbraut fagnandi.

Tvö spennandi verkefni eru í gangi í Arion samsteypunni um …
Tvö spennandi verkefni eru í gangi í Arion samsteypunni um þessar mundir.

Baldvin Bjarki Gunnarsson er einn þeirra sem voru valin inn í verkefnið. Hann hóf störf hjá Arion sumarið 2022 í viðskiptaumsjón og var svo í hlutastarfi þar til hann lauk námi í verkfræði síðasta vor. Baldvin ákvað að láta slag standa þegar útskriftarprógrammið var auglýst og var einn þeirra sem komust inn. Hann hóf leik í greiningu innan Stefnis, sjóðastýringarfyrirtækinu sem er hluti af Arion-samstæðunni, og starfar eins og sakir standa í áhættustýringu Arion banka. Næst fer hann í fjárstýringu bankans og svo lýkur verkefninu hjá honum í greiningardeildinni. Þá mun hann hafa öðlast víðtæka reynslu af störfum innan Arion á stuttum tíma.

„Ég sé að margt af því fólki sem maður lítur upp til hér í bankanum hefur mjög fjölbreyttan bakgrunn og reynslu,“ segir Baldvin. „Því er frábært að fá að kynnast ólíkum sviðum og störfum og sömuleiðis alls kyns ólíku fólki.“

Guðfinna Helgadóttir, Svanhildur Ásta Haig og Baldvin Bjarki Gunnarsson.
Guðfinna Helgadóttir, Svanhildur Ásta Haig og Baldvin Bjarki Gunnarsson.

Maríanna úr mannauðsdeild Arion segir bæði verkefnin komin til að vera, enda samrýmist þau vel menningunni sem leitast er við að byggja upp innan fyrirtækisins. „Við viljum leyfa öllum að blómstra og virkja kraftinn í fólkinu okkar,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert