Davíð Tómas Tómasson hjá Moodup tók nýverið við keflinu af Birni Brynjúlfi Björnssyni sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Samhliða því starfi er hann alþjóðlegur körfuboltadómari. Hann segir fyrirtækið í mikilli sókn þessa dagana og að sumarið hafi verið vel nýtt í að bæta við nýjungum í kerfinu, en Moodup er hugbúnaður sem sendir út starfsánægjukannanir á starfsmenn fyrirtækja.
„Moodup var stofnað af æskuvini mínum Birni Brynjúlfi Björnssyni. Hann var í ráðgjafarverkefni fyrir Haga á sínum tíma þar sem eitt af verkefnunum var að finna skilvirka leið til að mæla starfsánægju innan fyrirtækisins. Eftir dágóða leit fann hann enga lausn sem honum fannst nægilega góð og stakk því upp á því við forstjóra Haga að hann hannaði sjálfur og þróaði hugbúnað og Hagar yrðu fyrsti viðskiptavinurinn.
Þegar Moodup var orðið til sá hann fljótt hversu stórt fyrirtækið gæti orðið og hafði samband við mig til að aðstoða sig við að kynna lausnina fyrir fyrirtækjum í landinu. Hratt og örugglega bættust viðskiptavinir við og áður en við vissum af var þetta orðið risastórt batterí. Það er búið að vera ótrúlegt ferðalag að horfa á lítinn hugbúnað verða að stóru og flottu fyrirtæki, og fá að vera samferða besta vini sínum í því er svo auðvitað algjör forréttindi,“ segir Davíð, sem hefur haft í nógu að snúast að undanförnu.
„Við höfum nýlokið skipulagningu fræðslufundar Moodup sem haldinn var á Hótel Grand 26. september. Þetta var í fjórða skiptið sem við héldum slíkan fræðslufund og það varð fljótt uppselt. Þar voru Kristján Þór Magnússon, mannauðsstjóri Mosfellsbæjar, og Eir Arnbjarnardóttir, mannauðsstjóri Center Hotels, ásamt mér sjálfum með erindi. Þar var fjallað um mikilvægi starfsánægju og rætt um ýmsar leiðir til að auka og viðhalda henni. Mannauðsdagurinn er svo handan við hornið og hann er alltaf mikið partí fyrir okkur Moodup-menn, þar sem öllu er til tjaldað og það verður engin breyting á því í ár,“ segir hann.
Í Moodup birtast allar niðurstöður starfsánægjukannana í rauntíma á stjórnborði sem eingöngu stjórnendur eru með aðgang að og geta þar rýnt í niðurstöður mælinga ásamt því að skoða nafnlausar ábendingar sem starfsfólk getur skilið eftir. „Þeim ábendingum geta stjórnendur einnig svarað og var hugmyndin þar að búa til beinan þráð milli starfsmanna og stjórnenda og stytta þar með boðleiðina í samskiptum milli hópanna beggja.
„Við bjóðum upp á þrjár mismunandi þjónustur hjá Moodup; Púlsmælingar en þar sendir kerfið út fyrir fram ákveðnar spurningar á starfsmenn úr fimmtíu spurninga banka. Hver og einn starfsmaður fær eingöngu fimm spurningar á fjögurra vikna fresti og eru þessar örkannanir hugsaðar til að taka stöðuna reglulega og gefa stjórnendum þar af leiðandi tækifæri til að bregðast hratt og örugglega við ef eitthvað bjátar á innan fyrirtækisins.
Sérsniðnar kannanir, en þar geta stjórnendur búið til sínar eigin kannanir algjörlega frá grunni eða notað sniðmát frá okkur. Þar bjóðum við til dæmis upp á EKKO-könnun eða könnun um fjarvinnu svo dæmi séu nefnd og þurfa stjórnendur því ekki að búa til kannanir frá grunni frekar en þeir vilja, þó að það sé vissulega hægt.
Í Stjórnendamati geta stjórnendur svo sent út stjórnendamat á starfsmenn fyrirtækisins og beðið þá um að meta sinn næsta yfirmann. Hér er hægt að safna gögnum um gæði stjórnenda og hjálpa þeim að taka næsta skref í að bæta sig sem stjórnendur.“
Notendur Moodup eru orðnir mjög margir þrátt fyrir ungan aldur fyrirtækisins. „Í dag eru 105 fyrirtæki sem nota Moodup. Þar af eru yfir 60.000 starfsmenn sem svara Moodup-könnunum og í kringum 3.000 virkir stjórnendur í kerfinu. Það er því gríðarlegt magn af fólki í atvinnulífinu sem bæði þekkir og reiðir sig á kerfið og erum við mjög stoltir af því,“ segir hann.
Á hvaða markaði eruð þið?
„Sem stendur er Moodup eingöngu á heimamarkaði enda nóg að gera þar. Á síðustu misserum höfum við hins vegar verið að stefna út fyrir landsteinana og hægt og rólega verið að prófa okkur áfram á mörkuðum erlendis. Við höfum sem dæmi verið með söluherferðir í Danmörku og í Finnlandi síðustu mánuði og ætlum að sjá hvort við náum fótfestu utan landsteinanna. Að því sögðu liggur aðalathygli okkar hér innanlands. Við erum með stóran kjarna viðskiptavina sem hlúa þarf að en samhliða því erum við að prófa okkur áfram,“ segir Davíð.
Hvað vinna margir hjá ykkur?
„Hjá Moodup eru fjórir starfsmenn, þar af einn í Danmörku sem er að hjálpa okkur við að komast inn á markað þar.“
Þegar kemur að sýn Davíðs á mannauðsmál svarar hann snöggur upp á lagið: „Það hefur lengi verið litið á starfsánægju sem mjúkt hugtak sem erfitt sé að skilgreina og mæla, þessu er ég algjörlega ósammála. Ég tel þvert á móti að með nútíma mælilausnum hafi aldrei verið eins auðvelt að greina starfsánægju innan fyrirtækja.
Hvað stjórnendur ákveða svo að gera við þau gögn er síðan annað mál. Í dag er ekki nóg að mæla, það þarf líka að bregðast við og það sama á við í samskiptum. Það er ekki nóg að kinka bara kolli þegar fólk talar við mann, það þarf að bregaðst við. Hvort sem það er með virkri líkamstjáningu eða einhverjum orðum erum við öll að leita að einhverjum viðbrögðum. Og alveg eins og fólk finnur ef maður er áhugalaus í samskiptum finnur starfsfólk líka ef það er bara verið að „kinka kolli“ innan fyrirtækisins.
Ég trúi því að raunveruleg verðmæti fyrirtækja séu mannauðurinn þeirra og í honum þarf að fjárfesta. Það er ekki nóg að sitja bara auðum höndum þegar það kemur að því að auka starfsánægju, það þarf að fara í aðgerðir! Ég er ótrúlega stoltur af hlutdeild okkar í aukningu starfsánægju innan fyrirtækja landsins og mun halda ótrauður áfram að búa til fleiri gögn og skapa aukið virði fyrir viðskiptavini okkar.“
Nú er breitt kynslóðabil á vinnumarkaðnum. Erum við að standa okkur að ná til ungu kynslóðarinnar?
„Ég tel að við séum algjörlega að gera það. Við sjáum það á mælingum að unga fólkinu okkar líður að meðaltali vel í vinnunni. Stjórnendur hafa verið virkir í hugmyndavinnu að ná utan um unga fólkið okkar og hlúa vel að því. Við hjá Moodup höfum einnig gert okkar besta í því og sendum til að mynda kannanir okkar út með SMS-skilaboðum. Fólk fær því könnunina beint í símann og getur svarað hvar og hvenær sem er. Svarhlutfall er umtalsvert hærra og sérstaklega er ungt fólk gríðarlega ánægt að fá kannanirnar beint í símann.“
Hvað er þér efst í huga tengt starfsánægju og leiðtogahæfni?
„Moodup er í grunninn hugsað sem tól fyrir vinnustaði til að hjálpa bæði starfsmönnum og stjórnendum að auka lífsgæði sín í vinnunni. Það er líka hugsað til að byggja upp og þjálfa stjórnendur og gera þá að betri leiðtogum.
Okkur hefur fundist vanta tól á markaðinn sem nær utan um báða hópa. Það hefur vantað vettvang fyrir fyrirtæki til að geta raunverulega haldið utan um mannauðinn sinn, hvort sem það er til að greina almenna ánægju og virkni starfsfólks eða að sækja sér gögn til að þjálfa upp stjórnendur sína. Við höfum gert okkar besta til að mæta þessari þörf og teljum okkur hafa gert vel í því. Aukin starfsánægja eða meiri leiðtogahæfni innan fyrirtækja verður ekki til af sjálfu sér. Númer eitt, tvö og þrjú er að sanka að sér gögnum og hefjast svo handa í greiningarvinnu og uppbyggingu,“ segir hann.
Davíð horfir björtum augum til framtíðar og þykir skemmtilegt að vera í hringiðu viðskipta og þróunar. „Við forum nýverið til London á ráðstefnu í mannauðstækni. Þar kynntum við hugbúnaðinn fyrir gestum á svokölluðu sprotasvæði. Við fengum margar hugmyndir á ráðstefnunni sem við hrintum strax í framkvæmd og sáum þar að við gætum hæglega náð fótfestu á erlendum markaði.“