Halldór Ingi Stefánsson sölustjóri Hirzlunnar segir mikilvægt að starfsfólk hafi góða vinnuaðstöðu. Rétt hönnuð skrifstofa með góðum búnaði tryggir betri afköst, meiri sköpunargleði og færri veikindadaga. Hirzlan opnaði verslun sína árið 1993. Í gegnum árin hefur fyrirtækið aukið vöruúrval sitt og þjónustu og nú nýverið var opnaður glæsilegur sýningarsalur þeirra í Skeifunni 8. Þar geta gestir og gangandi komið og skoðað vöruúrvalið, talað við sérfræðinga og fundið út hvað hentar þeim best.
„Hirzlan er rótgróin verslun með húsgögn fyrir fyrirtæki og vinnustaði. Við erum umboðssalar fyrir nokkra sérvalda framleiðendur sem keppast við að framleiða endingargóð og falleg húsgögn. Hirzlan byggir á að eiga mikið úrval húsgagna á lager og getur þannig endurinnréttað heilu skrifstofurnar á aðeins örfáum dögum. Starfsmenn Hirzlunnar geta komið inn í verkefnið, teiknað upp rýmið, afhent vörurnar samsettar og raðað upp fyrir viðskiptavininn. Hirzlan sérhæfir sig í húsgögnum fyrir leikskóla, skóla, skrifstofur, veitingastaði og fyrir öldrunarheimili.“
Hvernig er nýi sýningarsalurinn?
„Hirzlan flutti í Skeifuna 8 í sumar. Þar með stækkuðum við sýningarsalinn okkar í tæpa 600 fermetra. Við höfum aldrei náð að sýna eins fjölbreytt úrval húsgagna á sama tíma.“
Þegar kemur að góðri vinnuaðstöðu þá segir Halldór hagsmuni starfsfólks og stjórnenda fara algjörlega saman.
„Góð vinnuaðstaða skiptir starfsfólk miklu máli. Vel hönnuð skrifstofa með réttum búnaði fyrir starfsfólk tryggir betri afköst, meiri sköpunargleði og rannsóknir hafa sýnt fram á færri veikindadaga. Að sjálfsögðu skiptir stærð vinnusvæðis máli, hæð og litur borða og húsgagna og þægindi skrifstofustólsins. Þess vegna kappkostum við hjá Hirzlunni að eiga á lager fjölbreytt úrval rafmagnsborða og skrifborðsstóla.“
En önnur svæði á skrifstofunni skipta einnig miklu máli að sögn Halldórs.
„Við þurfum alltaf að hugsa um heildina á skrifstofunni sem skiptir máli fyrir starfsfólkið á vinnustaðnum. Má þar nefna fundarherbergi, fundarstóla, samverurými og kaffistofuna. Samræmt og þægilegt útlit milli rýma er einnig nauðsynlegt til að tryggja vellíðan á vinnustaðnum. Hirzlan býður upp á ráðgjöf og lausnir sem henta öllum rýmum vinnustaðarins.“
Næðisrými og hljóðsófar eru nauðsynlegir um þessar mundir.
„Opin vinnurými eru og hafa verið framtíðin nú í nokkur ár og við finnum fyrir því að þau kalla á lausnir við áskorunum sem þau skapa. Oft leitar starfsfólk að næði til að sinna ákveðnum verkefnum eða málum. Ekki er alltaf gert ráð fyrir fundarherbergjum eða afdrepum til að sinna slíkum erindum. Undanfarin ár hefur það færst í vöxt að viðskiptavinir vilji fjárfesta í næðisrýmum. Þetta eru einfaldlega herbergi sem hönnuð eru fyrir áskoranir opinna vinnurýma. Næðisrýmin sem Hirzlan hefur verið að selja eru til í ótal útgáfum og hægt er að sníða þau að þörfum hvers og eins. Næðisrýmin okkar eru með hæst mældu hljóðvistina á sviði næðisrýma og eru með A-vottun samkvæmt ströngustu ISO-stöðlum. Við hvetjum alla til að koma og prófa næðisrýmin okkar því það kemur mörgum á óvart hversu vel þau virka. Við sýnum sex útfærslur af næðisrýmum í nýja sýningarsalnum okkar hér í Skeifunni 8.
Bætt vinnuumhverfi skilar sér í ánægju á vinnustaðnum, ég er ekki í nokkrum vafa um það. Í fallegu vinnuumhverfi verður meiri sköpunargleði og svo hafa rannsóknir sýnt fram á færri veikindadaga þar sem fer vel um starfsfólkið.“
Hvað ættu allir stjórnendur að hafa í huga þegar kemur að skrifborðsstólum?
„Góður skrifborðsstóll getur skipt sköpum fyrir þann sem notar hann. Skrifborðsstóllinn getur komið í veg fyrir eða unnið gegn ýmsum stoðkerfisvandamálum. Við hjá Hirzlunni veitum góða ráðgjöf og eigum fjölbreytt úrval stóla sem henta öllum. Mikilvægt er að hafa í huga að sami stóllinn hentar ekki öllum og því getur verið snjallt ráð að leyfa starfsmönnum að velja á milli nokkurra tegunda af stólum.“
Sjón er sögu ríkari og býður Halldór alla velkomna að sjá áhugaverðar samsetningar og skipulag í nýjum sýningarsal Hirzlunnar í Skeifunni 8.