Ferðalagið sem allir ættu að fara í

Hópmynd af teyminu sem vinnur hjá 50skills.
Hópmynd af teyminu sem vinnur hjá 50skills.

Kristján Kristjánsson framkvæmdastjóri 50skills segir að tími mannauðsfólks hafi aldrei verið dýrmætari en hann er nú. Hann mælir með Journeys-hugbúnaðinum í öll þau verkefni sem eru stöðluð og þarf að vinna reglulega. Það spari tíma og fyrirhöfn.

„Ef við þurfum að framkvæma sama verkefnið tíu sinnum eða oftar er gott að hafa í huga að setja það í ferli og sjálfvirknivæða. Margir kannast við ráðningarlausnina Hire sem kom á markað árið 2017. Journeys varð til í kjölfar þess þegar við fórum að fá beiðnir um að útfæra inngönguferil starfsfólks (e. onboarding), starfslokaferil og fleiri mannauðsferla,“ segir Kristján og útskýrir:

„Stjórnendur vilja hafa skýra sýn á reksturinn og þykir sjálfsagt að gögn um fjármál og sölu séu sett upp á skýran hátt. Við vildum skapa þessa þægilegu sýn á alla ferla sem tengjast fólki. Þá geta stjórnendur og starfsmenn séð hvar málin eru stödd hverju sinni, hvar þau fá hraða afgreiðslu og hvar þau stoppa.“

Allir geta orðið sérfræðingar í Journeys

Allir geta teiknað upp ferla í Journeys að mati Kristjáns og ákveðið hvort, hvar og hvenær þeir vilja nota gervigreind. „Segjum til dæmis að þú sért með feril þar sem nýtt starfsfólk hleður inn starfsréttindum á borð við ökuréttindum, sérfræðileyfum eða flugréttindum. Stjórnandi þarf þá yfirleitt að staðfesta gildistíma þeirra og gera aðra útreikninga, til dæmis um endurnýjun. Í þessu ferli má spara tíma við hverja yfirferð með því að hanna feril með gervigreind sem vinnur þennan verkþátt sjálfvirkt. Það borgar sig að koma inn hagræðingu og skilvirkni. Þá fá persónulegu málin meira rými, sem er kjarninn í þessari viðskiptalausn, að fólk eyði minni tíma í skriffinnsku og endurtekin verkefni.“

Morgunblaðið/Eggert

Við sóum fjármunum, að mati Kristjáns, með því að hafa ferla fyrirtækisins í kollinum á fólki. „Ef við teiknum upp ferlana sjáum við einnig hvar verið er að sóa fjármunum. Kerfið þarf ekki að vera algjörlega sjálfvirkt, hluti þess getur einnig verið handvirkur og byggist sá hluti vanalega á samtölum sem við eigum við fólk og niðurstöðuna úr því,“ segir Kristján.

Viðtökurnar verið framar öllum vonum

Það er áhugavert að heyra hvernig Kristján horfir á vinnustaði. „Þeir eru samansafn af ferlum, ýmist skilgreindum eða ekki. Með Journeys geta allir teiknað upp ferla sem tengjast fólki og gert þá skilvirkari. Hægt er að stilla hvort og með hvaða hætti ferill er sjálfvirkur og bæta gervigreind við þar sem hentar. Journeys tengist fremstu tækni veraldar á sviði gervigreindar. Aðalkostur hugbúnaðarins er að gervigreindin getur verið afmarkaður hluti af ferlinu. Þetta er frábær leið til að byrja að nota gervigreind þar sem hún á við, í afmörkuðum skýrum verkefnum. Við viljum að það sé jafn einfalt að setja upp feril í Journeys eins og það er að teikna feril upp á töflu. Munurinn er að með Journeys getur þú sett upp ferilinn án aðkomu tæknifólks og haft fulla stjórn,“ segir hann.

Viðtökur 50skills á Íslandi hafa verið góðar frá upphafi. „Í dag starfa yfir 20 manns hjá fyrirtækinu. Við erum einnig með fjóra starfsmenn í Bretlandi þar sem við erum að fóta okkur á markaði. Að mörgu leyti má segja að íslensk fyrirtæki séu framar Bretum í ferlun og sjálfvirknivæðingu svo Journeys er kærkomin hugbúnaðarlausn þar. Flestir nota excel eða sérsniðnar lausnir til að leysa tiltekin verkefni, en kosturinn við Journeys er að það getur bæði unnið með öðrum kerfum, og gert ferlana í þeim betri, eða séð um ferlana sjálft án aðkomu annarra lausna. 50skills hefur sótt yfir 500 milljónir króna í fjármögnun frá fjárfestum og í gegnum styrki hjá tækniþróunarsjóði til að þróa þessa nýju lausn sem er þegar komin í notkun hjá hundruðum stjórnenda,“ segir Kristján.

Bjóða upp á skemmtilegt tækifæri á Mannauðsdeginum

50skills hefur lagt mikið upp úr því að búa til gott kennsluefni á netinu.

„Það sem við ætlum að setja í loftið á Mannauðsdeginum er ótrúlega spennandi bestunarverkefni fyrir Journeys. Hugmyndafræðin er falleg að mínu mati því ef þú starfar í mannauðsmálum og upplifir að þú sért að gera eitthvað mjög vel í Journeys, þá geturðu deilt því með félögum í greininni og fengið hugmyndir frá öðrum. Við erum þeirrar skoðunar að mannauðsfólk sé best til þess fallið að finna sína ferla sjálft,“ segir Kristján og bætir við að Journeys sé í raun fyrir allar deildir fyrirtækja þótt 50skills sé með sérhæfingu í að leysa verkefni fyrir mannauðsdeildir.

„Stjórnendur geta farið inn í hugbúnaðinn og teiknað upp ferla sem hægt er að deila með starfsfólki. Starfsfólk getur einnig teiknað ferla sína inn í kerfið og sem dæmi um það gæti verið að fylla út form fyrir ferðalög, leggja inn beiðni fyrir búnað og fleira í þeim dúr.“

Til að lesendur geri sér grein fyrir umfangi Journeys segir Kristján hugbúnaðinn vera nýja tegund af excel. „Öll fyrirtæki nota excel-skjöl en í staðinn fyrir að nota það í þúsund hluti þá getur Journeys leyst mikið af þeim verkefnum með sjálfvirkni og gervigreind, og sett svo niðurstöðuna í Journeys eða í töflurita á borð við excel, google sheets eða önnur forrit þar sem þau eiga heima. Tengingin við önnur kerfi er eitt af okkar sérsviðum. Journeys er hannað með þeim hætti að það getur tengst öllum helstu lausnum í heimi, og hægt er að setja þær tengingar upp án aðkomu okkar starfsfólks. Það er sem dæmi jafn einfalt að senda skilaboð beint úr Journeys í formi textaskilaboða eða tölvupósts eins og það er að senda það í gegnum Teams, Slack eða önnur forrit sem eru notuð á vinnustaðnum.“

Journeys er fyrir allar deildir fyrirtækja

Það geta allir farið inn á heimasíðu 50skills og prófað Journeys, bæði einyrkjar og stærri fyrirtæki. „Við erum með myndbönd, námskeið og reglulegar vinnusmiðjur í hverjum mánuði. Kerfið er ekki dýrt og það getur hver sem er byrjað að nota það með einföldum hætti. Það eina sem þarf að gera er að fara á netið og prófa að kaupa einn mánuð á kreditkorti. Stærri vinnuveitendur geta svo að sjálfsögðu bókað fund með sérfræðingum okkar og fengið nánari leiðsögn. Allt eins og hentar eftir stærð og því sem á að nota lausnina í.“

Fyrirtæki úr öllum greinum nota hugbúnaðinn og virðist þeim ganga mjög vel með það. „Það sem okkur finnst skemmtilegast er að finna út hvernig fyrirtæki leysa vandamálin sín með vörunni okkar. Við heyrum einungis af brotabroti af þessum verkefnum þegar verið er að leita til okkar með aðstoð eða deila með okkur hvað gengur vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert