Fjölbreyttur hópur sumarfólks í enn fjölbreyttari verkefnum

Viðtal Landsvirkjunar í Mannauðsblaði Morgunblaðsins.
Viðtal Landsvirkjunar í Mannauðsblaði Morgunblaðsins.

„Við hjá Landsvirkjun höfum alltaf lagt mikla áherslu á að halda aflstöðvum okkar og umhverfi þeirra snyrtilegu,“ segir Björg Agnarsdóttir, mannauðs- og launasérfræðingur hjá Landsvirkjun. „Við höfum því lengi ráðið ungmenni til starfa í alls konar fjölbreytt gróðursetningar- og viðhaldsverkefni. Seinna varð svo til samfélagsverkefnið Margar hendur vinna létt verk. Við kappkostum að vera góðir grannar og viljum láta gott af okkur leiða í nærsamfélagi aflstöðvanna okkar. Þess vegna höfum við boðið fyrirtækjum og félagasamtökum nærri stöðvunum að fá vinnuhópa í heimsókn til að leysa alls konar verkefni, hvort sem það er hreinsun, alls konar ræktun og garðvinna, viðhald eða önnur umhverfistengd verkefni. Ungmenni sem búa í nærsveitum við hverja aflstöð eiga forgang að þessum sumarstörfum og við höfum sannarlega ekki þurft að kvarta undan áhugaleysi í þeirra hópi, því þetta eru eftirsóttustu störfin okkar.“

Björg Agnarsdóttir er stolt af mannauðsverkefnum Landsvirkjunar.
Björg Agnarsdóttir er stolt af mannauðsverkefnum Landsvirkjunar.

Miðlum þekkingu og reynslu

Björg segir að myndarlegur hópur háskóla-, iðn- og tækninema starfi hjá Landsvirkjun á sumrin og mörg hver starfi hjá fyrirtækinu meðfram námi allt árið um kring. „Við höfum lagt mikla áherslu á að vera í góðu og stöðugu samstarfi við fræðasamfélagið,“ segir hún. „Við leggjum áherslu á að miðla þekkingu okkar og reynsu til þeirra, reyna að sá fræi áhuga hjá þeim og búa þannig til framtíðarstarfsfólk hjá fyrirtækinu. Starfsfólkið okkar er margt hvert að kenna í háskólum eða að taka að sér að vera leiðbeinendur fyrir meistaraverkefni, auk þess sem við höfum boðið háskóla- og iðnnemum upp á starfstengt nám. Nemendur fá að koma í starfsnám og vinna verkefni með skólanum hjá okkur og fá einingar fyrir.

Við tökum jafnframt virkan þátt í framadögum HR, þar sem við kynnum nemendum sumarstörfin. En meginatriðið er að við bjóðum nemum áhugaverð störf sem tengjast náminu þeirra og þeir fá að spreyta sig áfram hjá okkur. Eftir því sem fyrirtækið hefur stækkað og verkefnum fjölgað hefur nemum fjölgað og fjölbreyttari verkefni eru í boði fyrir þau.“

Ekki bara verkfræðingar

Margir virðast trúa því að Landsvirkjun sé bara með sumarstörf fyrir verkfræði- eða jarðfræðinema, en það er alls ekki raunin. „Þau sem hafa starfað hjá okkur undanfarin sumur eru með alls konar menntun, sem dæmi á sviði sálfræði, næringarfræði, bókmenntafræði, viðskiptafræði, tölvunarfræði, hagfræði og lögfræði, en auðvitað eru alltaf margir verkfræðinemar líka,“ segir Björg.

Hún segist stolt af þeim fjölbreyttu sumarstörfum sem orkufyrirtæki þjóðarinnar getur boðið. „Við erum með ungmenna- og verkstjórastörf á öllum aflstöðvum okkar. Í sumar voru hvorki fleiri né færri en 100 ungmenni og 13 verkstjórar á sex starfssvæðum, á Suðurlandi, Norðurlandi og Austfjörðum. Þá dreifðust 67 háskóla-, iðn- og tækninemar á 30 deildir innan fyrirtækisins, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þessi störf voru fjölbreytt og féllu víða til, meðal annars í lögfræðideild, móttöku, innkaupadeild, reiknings- og fjármáladeild, mannauðsdeildinni, samskiptum og upplýsingamiðlun, deild vatnsafls, deild jarðvarma og svo mætti lengi telja. Það eru störf í boði fyrir alla. Undanfarin sumur höfum við verið meðal vinsælustu vinnustaða hjá háskólanemum og ungmennum og fáum hátt í 800 umsóknir á hverju ári um þær 180 stöður sem eru í boði. Sumarstarfsfólkið okkar er 34% af heildarfjölda Landsvirkjunar á sumrin, sem er gríðarlegur fjöldi.“

Guðni forseti í unglingavinnunni

Björg segir skemmtilega staðreynd að margt af núverandi starfsfólki Landsvirkjunar hafi byrjað sem sumarstarfsfólk og sé núna jafnvel orðið forstöðumenn eða framkvæmdastjórar. „Eitt fyrsta sumarstarf Guðna Th. Jóhannessonar, fyrrverandi forseta Íslands, var í ungmennavinnunni í Búrfelli.

Í íslensku atvinnulífi er stór og glæsilegur hópur fólks sem byrjaði starfsferil sinn í sumarvinnu hjá Landsvirkjun. Það er líka gott að vita að fólki líður vel hjá okkur, meðalstarfsaldur hérna er níu ár en elsti starfsmaður okkar hefur verið hjá okkur í 45 ár.

Landsvirkjun er rótgróið fyrirtæki og unga fólkið nælir sér í ákveðna reynslu og þroska hjá okkur. Við vinnum til dæmis öll verk okkar eftir skýrt skilgreindum verkferlum, gæðakerfum og vottunum og ávallt þarf að fylgja ákveðnu verklagi. Það er enginn vafi í mínum huga að þeir sem hafa lært og starfað eftir verklagi okkar hafa gott forskot inn í atvinnulífið.“

Góð reynsla fyrir öll

Uppskriftin að því að halda í gott starfsfólk er að leyfa því að þroskast og blómstra í starfi, hjálpa því að finna sína grein í atvinnulífinu, að sögn Bjargar. „Við erum öll mismunandi og það er ekkert eitt sem hentar fyrir alla. Hjá Landsvirkjun erum við með margar ólíkar deildir, margar mismunandi stöður og nemarnir okkar fá að prófa sig áfram. Það er ekkert sem gefur manni eins mikið og að sjá nemana okkar stíga brosandi inn í fyrirtækið fyrsta daginn sinn og sjá þau svo stíga út stútfull af fróðleik, reynslu og þekkingu eftir sumarið. Þau koma með ferskan blæ inn í fyrirtækið og þau eru svo sannarlega ekki þau einu sem hagnast á starfinu, því við hin lærum líka mikið af þeim,“ segir Björg Agnarsdóttir, mannauðs- og launasérfræðingur hjá Landsvirkjun.

Anna Sigríður Jónsdóttir verkstjóri sumarungmenna í Búrfelli
Anna Sigríður Jónsdóttir verkstjóri sumarungmenna í Búrfelli

Anna Sigríður Jónsdóttir, verkefnastjóri sumarungmenna í Búrfelli

Hvað kom þér mest á óvart í starfi þínu í sumar?
„Hversu fljótt sumarið var að líða.“

Hvað fannst þér skemmtilegast?
„Að sjá öll vinasamböndin myndast, það gleður mig að sjá hvað sumarvinnuhópurinn verður náinn og hve skemmtilegt þeim finnst að mæta í vinnuna.“

Viltu hrósa einhverjum eftir sumarið?
„Yfirmönnum mínum í Búrfelli fyrir gott samstarf, góða upplýsingagjöf og jákvæð samskipti.“

Bryndís Brynjúlfsdóttir, nemi hjá Samskiptum og upplýsingamiðlun.
Bryndís Brynjúlfsdóttir, nemi hjá Samskiptum og upplýsingamiðlun.

Bryndís Brynjúlfsdóttir, nemi hjá Samskiptum og upplýsingamiðlun

Hver voru verkefni þín í sumar?
„Verkefnin mín voru að sjá um samfélagsmiðla Landsvirkjunar.“

Hvað kom þér mest á óvart í starfi þínu í sumar?
„Hvað starfsfólk Landsvirkjunar var tilbúið að koma í viðtöl hjá mér og taka þátt í framleiðslu á efni fyrir samfélagsmiðla.“

Viltu hrósa einhverjum eftir sumarið?
„Mig langar að hrósa öllu starfsfólki Landsvirkjunar fyrir að taka svona vel á móti okkur sumarnemunum, sýna okkur traust og gefa okkur þetta dýrmæta tækifæri.“

?Agnar Daði Kristinsson, nemi hjá Þróun vatnsafls
?Agnar Daði Kristinsson, nemi hjá Þróun vatnsafls

Agnar Daði Kristinsson, nemi hjá Þróun vatnsafls

Hvað kom þér mest á óvart í starfi þínu í sumar?
„Hversu fjölbreytt og ólík verkefnin voru.“

Hvað fannst þér skemmtilegast?
„Vinnuferðirnar á hálendinu.“

Viltu hrósa einhverjum eftir sumarið?
„Samstarfsfélögum mínum í deildinni, þeir eru frábærir!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert