Gefum tækifæri fyrir heilbrigði og vöxt í vinnunni

Árið 2014 var fyrirtækið Auðnast stofnað af Hrefnu Hugosdóttur og …
Árið 2014 var fyrirtækið Auðnast stofnað af Hrefnu Hugosdóttur og Ragnhildi Bjarkadóttur, en þær höfðu verið vinkonur frá barnæsku. Fyrirtækið hugsuðu þær til að stuðla að félagslegu öryggi starfsfólks á vinnumarkaði.

Árið 2014 var fyrirtækið Auðnast stofnað af Hrefnu Hugosdóttur og Ragnhildi Bjarkadóttur en þær hafa verið vinkonur frá barnæsku. Hrefna og Ragnhildur stofnuðu Auðnast til að stuðla að félagslegu öryggi starfsfólks á vinnumarkaði. Samhliða því stofnuðu þær Auðnast klíník þar sem boðið er upp á þverfaglega meðferð, handleiðslu og ráðgjöf fyrir einstaklinga. Hugmyndafræði Auðnast byggist á að gera vinnustaði sjálfbæra í vinnuvernd, forvörnum og öryggi og að aðstoða einstaklinga við að vera ábyrgir fyrir eigin líðan og heilsu.

„Við viljum að öll fái tækifæri til að verða sérfræðingar í eigin heilsu um leið og við aðstoðum vinnustaði við að skapa rými og þekkingu til að styðja við heilbrigða og uppbyggilega vinnumenningu,“ segja þær. Hrefna og Ragnhildur eru báðar fjölskyldufræðingar og sérfræðingar í vinnuvernd. Hrefna er einnig hjúkrunarfræðingur að mennt og Ragnhildur er klínískur sálfræðingur.

„Þegar við stofnuðum Auðnast var fókusinn á fyrirlestra og fræðslu í fyrirtækjum. Með árunum hefur þjónustan þróast, orðið skilvirkari og tæknivæddari. Samhliða þessu hefur klíníkin okkar vaxið. Í dag starfa yfir 30 einstaklingar á okkar vegum með fjölbreyttan bakgrunn og mikla þekkingu. Vinsælasta þjónustuleiðin okkar er Heil heilsu þjónustusamningur. Með slíkum samningi við Auðnast tryggir þú félagslegt öryggi á vinnustaðnum og veitir starfsfólki þínu heildstæða þjónustu á sviði heilsu- og vinnuverndar. Stjórnendur hafa greiðan aðgang að okkar færustu sérfræðingum og starfsfólk nýtur forgangs á Auðnast klíník. Við erum með teymi í kringum flesta málaflokka sem koma inn á borð til okkar. Þetta er besta leiðin til að leggja grunninn að öryggi og góðri heilsu starfsfólks að okkar mati,“ segir Ragnhildur og Hrefna tekur við:

„Gott skipulag og skýrir verkferlar eru lykill að vellíðan og öryggi starfsfólks. Við viljum öll vera örugg í vinnunni okkar. Við þurfum að vita hvert hlutverkið okkar er og hvers er ætlast til af okkur.“

Mikilvægt að fá að þróast í starfi

Hrefna og Ragnhildur tala um heilbrigði út frá andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og að ekki megi gleyma að stjórnendur séu einnig starfsfólk sem þurfi að hlúa að. „Stjórnendur verða að fá tækifæri til að læra og vaxa í starfi sínu. Góðir stjórnendur hafa getu til að tengjast fólki og búa yfir hæfni í mannlegum samskiptum,“ segja þær og bæta við: „Þeir hafa svigrúm til að læra að verða betri í starfi sínu og þurfa ekki að vera fullkomnir frekar en aðrir. Traust skiptir máli, því það líður engum vel í vinnunni sem ekki er í góðum tengslum við yfirmann sinn,“ bæta þær við.

Þegar kemur að kröfum eru verkefnin í vinnunni að jafnaði mörg og stundum lítill tími fyrir eitthvað annað.

„Það er mikið að gera hjá öllum í vinnunni og ekki raunhæft að gera þær kröfur að vera með puttann á púlsinum þegar kemur að nýjustu fræðum. Þar komum við hjá Auðnast sterk inn. Tökum samskipti sem dæmi. Rannsóknir hafa sýnt að þau hafi bein áhrif á vellíðan og framleiðni á vinnustöðum. Okkar hugmyndafræði er sú að ágreiningur kemur upp á öllum vinnustöðum, en það sem skiptir máli er hver viðbrögðin eru og að ramminn sé skýr. Eins þurfa öll að vera upplýst um boðleiðir til að koma ágreiningi í heilbrigðan farveg. Hér komum við gjarnan til aðstoðar,“ segja þær.

Hrefna segir fjölmargar leiðir til að tryggja félagslegt öryggi í vinnunni. „Þjónustuleiðir Auðnast urðu til í kringum margvísleg flókin mál sem við höfum fengið inn á borð til okkar í gegnum árin. Sérfræðingar þurfa svigrúm til að greina vinnustaðinn, svo hægt sé að átta sig á stöðunni hverju sinni, enda er félagslegt öryggi ekki eins á milli staða. Málin eru greind í yfir- og undirflokka og svo vinnum við markvisst að því að efla heilbrigði á vinnustaðnum út frá fræðasviði okkar. Við erum eins og fyrr segir með teymi um flesta málaflokka sem koma inn á borð til okkar. EKKO-teymi, áfallateymi, áhættumatsteymi og vinnuverndarteymi svo eitthvað sé nefnt,“ segir hún.

Fjarvistir og vinnuforðun geta verið vandamál

Hvaða mál koma helst upp á íslenskum vinnustöðum?

„Málin eru ótrúlega fjölbreytt en dæmi um hefðbundin mál er til að mynda heilsubrestur hjá starfsfólki og ástvinum þess. Hjónaskilnaðir eru líka algengir í íslensku samfélagi. Að fara í gegnum skilnað hefur nánast alltaf áhrif á öll hlutverk lífsins, þar með talið starfshlutverkið. Annað dæmi um algeng mál sem við fáum er þegar stjórnendur þurfa að takast á við erfið mál í vinnunni eins og til að mynda andlát. Það er gott að vera með faglegan stuðning og handleiðslu í slíkri vegferð. Stundum þegar starfsmaður fer í gegnum missi vill hann kannski fá að mæta í vinnuna til að fá frí frá sorginni, eða vill fá svigrúm frá vinnu til að ná að fóta sig aftur. Hvort tveggja er eðlilegt við erfiðan atburð. Það eru til margar leiðir til að hlúa að starfsfólki og mikilvægt að spegla með sérfræðingi þá leið sem hentar hverju sinni,“ segir Ragnhildur.

Önnur mál sem þær segja vinnumarkaðinn vera að vinna í af miklum krafti núna eru fjarvistir starfsfólks og vinnuforðun. „Það er mikilvægt að vinnustaðir starfi eftir ákveðinni fjarvistastefnu og að stjórnendur séu þjálfaðir í að taka samtöl um eðli fjarvistanna. Í það þarf alltaf ákveðna tækni,“ segja þær og Hrefna bætir við að ástæður fjarvista geti verið margvíslegar.

„Ástæður geta verið allt frá sálfræðilegum vanda yfir í stoðkerfisvanda. Á síðustu árum höfum við séð streitu valda því að starfsfólk missir getuna til að mæta eins vel í vinnu og það hefur áður gert, svo dæmi séu tekin.“

Hrefna og Ragnhildur trúa á þá hugmyndafræði að efla starfsfólk í að taka ábyrgð á eigin heilsu. „Að starfsfólk öðlist færni í að hugsa sem best um sig og læri leiðir til að takast á við streitu. Þegar reynir á hæfnina til að vera í jafnvægi, getur myndast þörf fyrir að fá inn fagaðila, til að styðja við vinnustaðinn,“ segir Hrefna.

Sálræn skyndihjálp vinsæl fræðsla

Spurðar um vinsælustu fræðsluerindin má á þeim heyra að úrvalið er mikið og málaflokkarnir spennandi. „Fræðsluerindið Sálræn skyndihjálp er mjög vinsælt núna. Það felur í sér að kenna fyrstu viðbrögð þegar erfiðir sálrænir atburðir koma upp. Þessi erindi eiga til dæmis vel við á lögfræðistofum eða í framlínustörfum þar sem unnið er með viðkvæm mál daglega. Flest sem sækja námskeið í þessari tegund fyrstu hjálpar segjast hefðu viljað koma miklu fyrr.

Samskiptafræðslan okkar er einnig vinsæl og er algengt að þau sem sækja slíka fræðslu fylgi því eftir með einkatímum á klíníkinni. Það er alltaf gott að skerpa á þjálfun í að taka erfið samtöl, læra að setja mörk og útskýra þau á skilvirkan hátt.“

Þær segja gott að muna að lífið er vegferð, öll eru að vinna að því að bæta sig sem manneskjur, að vinna með veikleika sína og áskoranir. Þegar kemur að ágreiningi á vinnustöðum sé algengt að hann komi upp þegar ólík vinnumenning, hefðir og viðhorf mætast. Þegar verið sé að færa til fólk á milli starfstöðva eða breyta teymum.

„Viðkvæmustu málin eru þegar einstaklingar eru óviðeigandi í tali og eða hegðun. Það er mikilvægt að stjórnendur fái fregnir af slíku og kunni að bregðast við því. Þá getur verið gott að vera í handleiðslu. Að bjóða upp á fræðslu og að skoða viðbragðsáætlun og ferla er því lykilatriði,“ segja þær.

Þá tala Hrefna og Ragnhildur um að stjórnendum sé meira umhugað um starfslok starfsmanna en áður hefur verið að þeirra mati. „Það er mikið talað um bestu leiðirnar til að laða til sín rétta starfsfólkið en það er gott að muna að öll tímabil starfsævinnar skipta máli. Til að mynda þegar það styttist í starfslok. Við höfum í áratug haldið starfslokanámskeið fyrir vinnustaði. Það er ótrúlega gaman að sjá hvernig sú vinna hefur skilað sér í viðhorfsbreytingu úti í atvinnulífinu. Í dag lítur fólk á starfslokanámskeið sem heilbrigða leið til þess að leggja grunn að starfslokum,“ segja þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert