Inngilding er lykillinn að árangri

Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé stofnandi og framkvæmdastjóri Öldu.
Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé stofnandi og framkvæmdastjóri Öldu.

Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé og Sigyn Jónsdóttir hjá Öldu segja að ef vinnustaðurinn er ekki inngildandi – þannig að öll geti blómstrað sama hver þau eru – muni fjölbreyttir hópar ekki haldast í starfi á vinnustaðnum. „Alda er hugbúnaðarfyrirtæki sem býður upp á tæknilausn fyrir fjölbreytileika og inngildingu (DEI eða Diversity, Equity & Inclusion). Í Öldu geta fyrirtæki og stofnanir nálgast allt á einum stað sem tryggir þeim árangursríka vegferð í þessum mikilvæga málaflokki. Öldu-lausnin býður upp á greiningu, markmiðasetningu, aðgerðaáætlun sérsniðna af gervigreind og leikjavædda örfræðslu – allt á einum stað! Þetta veitir fyrirtækinu ákveðna sérstöðu á heimsvísu og forskot á alþjóðlegum markaði fyrir DEI-lausnir,“ segja þær Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, stofnandi og framkvæmdastjóri, og Sigyn Jónsdóttir, meðstofnandi og tæknistjóri fyrirtækisins.

Með Öldu hafa fyrirtæki og stofnanir gögn sem sýna hvort það sé mismunun milli ólíkra hópa innan fyrirtækisins, lausn sem mælir inngildingu sem er nauðsynleg til að halda í fjölbreytta hópa fólks og niðurstöður um hvernig allt starfsfólk upplifir vinnustaðamenninguna.

„Með þessu móti geta stjórnendur tekið gagnadrifnar ákvarðanir á þessu sviði og nýtt leikjavæddu örfræðsluna til þess að auka inngildingu en fræðslan er bæði fyrir starfsfólk og stjórnendur,“ segja þær.

Alda er nýtt fyrirtæki stofnað af Þórey Vilhjálmsdóttur Proppé og …
Alda er nýtt fyrirtæki stofnað af Þórey Vilhjálmsdóttur Proppé og Sigyn Jónsdóttur.

Byggt á sannreyndri aðferðafræði

Hver er sagan á bak við fyrirtækið og hvernig kynntust þið?

„Tæknilausn Öldu var fyrst þróuð undir formerkjum nýsköpunarfyrirtækisins Empower. Grunnurinn að stofnun þess byggðist á aðferðafræði sem Þórey hafði þróað og unnið með hjá ráðgjafarfyrirtækinu Capacent um árabil. Eftir að hafa öðlast gríðarlega reynslu og innsýn á vinnustöðum var ákveðið að hanna lausn sem gæti raunverulega tryggt árangursríka vinnu í fjölbreytni og inngildingu til skemmri og lengri tíma. Hugbúnaðurinn byggist því á sannreyndri aðferðafræði sem þróuð hefur verið um árabil með fjölda fyrirtækja og stofnana á Íslandi,“ segir Sigyn og Þórey tekur við:

„Árið 2022 tryggði fyrirtækið 300 milljóna króna fjármögnun frá Frumtaki og Tennin ásamt því að hljóta 50 milljóna króna styrk frá Tækniþróunarsjóði. Fyrsta mál á dagskrá var þá að ráða inn tæknistjóra og byggja upp teymið. Við Sigyn höfðum hist nokkrum sinnum í gegnum tíðina á viðburðum tengdum jafnréttismálum og höfðum lengi dáðst að verkum hvor annarrar í þágu jafnréttis en við þekktumst ekki mikið. Þegar staða tæknistjóra hjá Öldu var auglýst varð hún fyrir valinu og kom inn sem meðstofnandi. Allar götur síðan höfum við átt gjöfult og dýrmætt samstarf,“ segir Þórey.

Af hverju ættu allir vinnustaðir að huga að inngildingu?

„Því þannig ná þeir meiri árangri. Sér í lagi í nýsköpun, að leysa flókin vandamál, rýna gögn og í skapandi vinnu. Það hefur því borið mikið á því undanfarin ár að fyrirtæki og stofnanir séu að vinna í því að auka fjölbreytileikann í starfsmannahópnum, en oft á tíðum gleymist að hugsa um hvaða umhverfi tekur við þeim fjölbreytta hópi. Þar kemur inngildingin til sögunnar. Ef vinnustaðurinn er ekki inngildandi – þannig að öll geti blómstrað sama hver þau eru – munu fjölbreyttir hópar ekki haldast í starfi á vinnustaðnum. Í Öldu-lausninni mælum við inngildingu með Inngildingarpúlsinum sem nú er aðgengilegur á 17 tungumálum. Út úr púlsinum fá fyrirtæki sitt Inngildingarskor sem þau geta svo borið saman við Inngildingarvísitölu Öldu og sjá þannig hvar þau standa,“ segja þær.

Alda er nýtt fyrirtæki stofnað af Þórey Vilhjálmsdóttur Proppé og …
Alda er nýtt fyrirtæki stofnað af Þórey Vilhjálmsdóttur Proppé og Sigyn Jónsdóttur.

Það tekur tíma að breyta menningu

Þórey og Sigyn eiga það sameiginlegt að njóta sín vel í hröðu og síbreytilegu umhverfi. Þær segja það henta vel í þeirri hröðu vegferð sem Alda er á sem tiltölulega ungt nýsköpunarfyrirtæki.

Er erfitt að breyta menningu fyrirtækja?

„Að breyta menningu fyrirtækja er langtímaverkefni. Rannsóknir sýna að átaksverkefni tengd fjölbreytileika og inngildingu skila ekki þeim árangri sem skyldi, enda yfirleitt um einskiptisverkefni að ræða. Það eru að verða algjör umskipti á heimsvísu hvernig verið er að nálgast þessi verkefni. Fókusinn er nú settur meira á stefnumótun, mælanleg markmið, gagnadrifna ákvarðanatöku og stafrænar lausnir. Undirtónninn sem þarf svo að styðja við allt saman er samkenndin, það að við getum lært að setja okkur í spor hvert annars og skilja upplifun ólíkra einstaklinga á vinnustaðnum. Það er nefnilega fullkomin fylgni milli samkenndar og inngildingar,“ segja þær og bæta við:

„Alda hjálpar til við að auka samkennd bæði með gögnum um inngildingu, örfræðslu sem styður við aukna þekkingu og skilning á stöðu annarra og svo auðvitað sérsniðinni aðgerðaáætlun til að tryggja að vinnustaðir nái sínum markmiðum.“

Í lok árs 2023 var Öldu-hugbúnaðurinn valinn á lista ráðgjafarfyrirtækisins Gartner yfir leiðandi tæknilausnir sem bjóða upp á mælikvarða og markmiðasetningu í fjölbreytileika og inngildingu (DEI) en einungis fimm aðrar lausnir voru nefndar.

„Að komast á slíkan lista er ein stærsta viðurkenning sem hugbúnaðarfyrirtæki geta öðlast enda er Gartner fremsta greiningar- og ráðgjafarfyrirtækja í tæknilausnum í heiminum. Viðurkenning Gartner á Öldu-hugbúnaðinum staðfestir sérstöðu lausnarinnar á heimsvísu enda er verið að bera saman þær lausnir sem eru hvað stærstar í heiminum í dag.

Það er mikill áhugi á Öldu bæði hérlendis og erlendis, sér í lagi á Norðurlöndunum. Fyrstu skandinavísku viðskiptavinirnir eru byrjaðir að nota vöruna en á næstu misserum munum við einnig stefna til Evrópu og Bandaríkjanna, þar sem þörfin fyrir lausnina er brýn um allan heim.“

Samkennd og virðing í öndvegi

Hvað finnst ykkur skipta mestu máli þegar kemur að fræðslu fyrir starfsfólk?

„Að fjárfesta í áhrifaríkri fræðslu fyrir fólk er lykilatriði í að byggja upp eða viðhalda inngildandi starfsumhverfi þar sem öll geta blómstrað. Örfræðsla Öldu er leikjavædd og hönnuð til að auka inngildingu með því að stuðla að aukinni samkennd, virðingu, þekkingu og skilningi. Örfræðsla tekur ábyrgðina af herðum þeirra sem eru jaðarsett eða upplifa ekki inngildingu og setur hana á heildina sem er einmitt það sem þetta snýst allt um.“

Þær segja leikjaformið gera örfræðsluna aðgengilegri og markmið með þróun hennar hafi verið að ná til sem flestra á skemmtilegan hátt.

„Það er mjög gaman að segja frá því að örfræðslan er nú í gangi í sjö löndum: Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Bretlandi, Bandaríkjunum, Indlandi og Þýskalandi og viðtökurnar eru nákvæmlega í takt við það sem við einsettum okkur frá upphafi – fólk er spennt að sjá næstu örfræðslu til að skilja betur málefni fjölbreytileika og inngildingar. Við erum sérstaklega stoltar af því að hafa einnig framleitt allt efnið á íslensku þrátt fyrir að lausnin sé fyrst og fremst hugsuð fyrir erlendan markað. Örfræðslugallerí Öldu um fjölbreytileika og inngildingu er því líklega orðið einn ítarlegasti grunnur af fræðslu á þessu sviði sem til er hér á landi.“

Alda tók þátt í spennandi verkefni í aðdraganda Mannauðsdagsins.

„Samstarfsverkefni okkar og Mannauðs er eitt af því skemmtilegasta sem við höfum verið að fást við að undanförnu – mæling á Inngildingu fyrir íslenskan vinnumarkað. Tugir aðildarfélaga Mannauðs tóku þátt í Inngildingarpúlsi Öldu og niðurstöðurnar gefa mynd af inngildingu á íslenskum vinnumarkaði. Á Mannauðsdeginum á morgun verður Inngildingarvísitalan svo kynnt í Hörpu og áhugaverðar niðurstöður úr könnuninni sýndar. Mælingin er samfélagslega mikilvæg og veitir aðildarfélögum Mannauðs einnig tækifæri til að meta stöðu inngildingar hjá sér og bera saman við heildina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert