Of margir boltar á lofti í einu

Anna Claessen er þekkt fyrir að hjálpa fólki að ná fram markmiðum sínum, hvort sem er persónulega eða á vinnustaðnum, enda markþjálfi með mikla reynslu. Sérstaklega er hún reynslumikil sem streitu- og kulnunarmarkþjálfi en samhliða markþjálfun er hún einka­þjálfari sem þjálfar bæði einstaklinga og hópa. Anna talar um að það sé mikilvægt að vera ekki með of marga bolta á lofti í einu en hún vinnur með fjölbreyttum hópi einstaklinga og fyrirtækja þar sem áherslan er á persónulega þróun, aukna sjálfsvitund og árangursríka leiðtogahæfni.

„Nútímakröfur eru alltof miklar. Við þurfum að passa okkur sjálf og læra að segja ekki já við öllu og við verðum að virða mörkin okkar. Það að vinna með mörk fólks er mjög mikilvægt og reynist fólki oft mjög erfitt. Eldri kynslóðin okkar lætur meira vaða yfir mörkin sín og á erfiðara með að segja nei á meðan yngri kynslóðin er meðvitaðri um mörkin og segir frekar nei,“ segir Anna og bætir við að þessi mismunur kynslóðanna geti myndað spennu og streitu, bæði á vinnustað og heima fyrir.

„Við erum mörg alin upp í mikilli meðvirkni sem felst í því að vera endalaust að hjálpa öðrum. Við gerum það oft frekar en taka á okkar eigin vandamálum sem við ættum frekar að vera að vinna í. Einnig er mikil krafa um að við séum alltaf til staðar fyrir alla, tökum þátt í öllu og gerum allt 100%. Við setjum staðalinn alltof hátt. Það er engan veginn raunhæft því það er enginn 100%. Og svo brjótum við okkur endalaust niður fyrir að ná ekki markmiðum okkar.“

Traust og mannúðleg nálgun

Anna segir mikilvægt að skapa góða og djúpa tengingu við skjólstæðinga sína. Hún vinnur ekki bara með þekkingu heldur notar hún einnig innsæi og mannúðlega nálgun til að ná til kjarna þess sem skiptir máli. Fyrir Önnu er markþjálfun ekki bara tól til að bæta frammistöðu heldur lítur hún á hana sem ferli sem getur breytt viðhorfum og byggt upp sjálfstraust. „Ég hjálpa einstaklingum að sjá eigin styrkleika og takast á við hindranir með nýjum hætti. Með því að vinna með markþjálfun öðlast stjórnendur ekki bara skýrari sýn á markmið sín heldur einnig hæfileikann til að leiða aðra með samkennd og skýrleika.“

Huglægir þættir skipta sköpum

Anna hefur starfað víða, bæði á Íslandi og erlendis. Hún hefur unnið með stjórnendum í fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum, allt frá sprotafyrirtækjum til stórra fyrirtækja. Markþjálfunin hefur verið hennar helsta tæki og tól sem og reynsla lífsins. „Það skiptir máli að vita hver þú ert, hvað þú vilt og hvað þú vilt verða. Með markþjálfuninni kemstu að því. Við verðum að kunna að spyrja okkur sjálf réttu spurninganna og gera hlutina á okkar forsendum,“ segir Anna sem lítur björtum augum á framtíðina. „Hraðar tæknibreytingar og gervigreind munu auðvelda fólki vinnuna og í leiðinni lífið. Huglægir þætti eins og góð tilfinningagreind, gott innsæi og að kunna og geta lesið umhverfið vel munu skipta sköpum hvað bæði vellíðan sem og árangur varðar. Það sama má segja um rökhugsun, markmiðasetning og stefnumótun líka en þessi atriði verða helstu aflvakar framtíðarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert