Starfsánægja þrátt fyrir óvissutíma

Hjá Bláa Lóninu starfa um 800 manns af 40 þjóðernum í fjölbreyttum störfum víða um landið. Sigrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs, menningar og öryggis hjá Bláa Lóninu, hefur brennandi áhuga á mannauðsmálum og að setja þau í samhengi við rekstrarlegan ávinning. Hún er rekstrarverkfræðingur með meistaragráðu í mannauðsstjórnun sem nýtist henni vel í starfi.

„Starf mitt sameinar þá þætti sem ég brenn fyrir. Ég hef mikinn áhuga á fólki, rekstri og að ná árangri sem liðsheild. Í starfi mínu hjá Bláa Lóninu skiptir máli að hafa þekkingu á mannlegum þáttum, hæfni til að greina og meta verkefni og að taka ákvarðanir út frá rekstrarlegum ávinningi,“ segir Sigrún.

Ægir Viktorsson, forstöðumaður ráðninga og mannauðsráðgjafar, bendir jafnframt á að vinnustaðurinn sé gríðarlega fjölbreyttur. „Heildarfjöldi starfsfólks Bláa Lóns-fjölskyldunnar telur 800 manns af 40 þjóðernum. Við bjóðum upp á fjölbreytt störf víðs vegar um landið. Starfsemi okkar nær allt frá Svartsengi upp í Kerlingarfjöll og austur að Hoffelli og Hrauneyjum.

Hjá okkur starfar fólk í framlínustörfum við að þjónusta gesti, en innan okkar raða eru líka vísindamenn og sérfræðingar á ýmsum sviðum. Það er í raun fjölbreytnin og breidd starfa sem kemur flestum hvað mest á óvart. Við erum afar stolt af þessum fjölbreytileika og teljum hann mikinn styrk fyrir okkur sem upplifunarfyrirtæki en ekki síður sem vinnustað. Mismunandi reynsla, bakgrunnur og menntun skilar sér ekki síst í auknum þjónustugæðum og fagmennsku, “ segir Ægir.

Stóðu vörð hvert um annað í óvissunni

Spurð um vinnustaðamenningu Bláa Lónsins segir Lóa Ingvarsdóttir, forstöðumaður fræðslu, gæðamála mannauðs og innri samskipta, menninguna einkennast fyrst og síðast af gleði. „Vinnustaðamenning okkar einkennist fyrst og fremst af gleði, umhyggju, metnaði og virðingu. Við þekkjum okkar stöður, hjálpumst að við að þróast og eflast og erum öll að róa í sömu átt. Við leggjum ríka áherslu á að miðla upplýsingum vel til allra með það að markmiði að byggja upp traust. Það er lykilatriði á óvissutímum sem þessum að allir séu vel upplýstir þannig að fólk finni fyrir öryggi þegar það kemur í vinnuna. Á okkar mælingum sést að það skiptir sköpum og skilar sér í meiri helgun og ánægju. Við veitum hvert öðru stuðning og vinnum sífellt að því sem heild að finna leiðir til þess að læra og gera betur,“ segir Lóa og Ægir tekur undir það. Hann segir mannauð fyrirtækisins ávallt hafa verið hjartað í rekstri Bláa Lónsins.

„Í jarðhræringum síðustu missera, þegar fótum var kippt undan stórum hópi starfsfólks, þá stóðum við öll vörð hvert um annað. Áhersla var á að skapa starfsfólki öryggi og tryggja starfsöryggi þó að rekstraröryggi fyrirtækisins væri stöðugt ógnað. Í því samhengi kom sér vel að vera búin að byggja upp sterka liðsheild og öfluga vinnustaðamenningu,“ segir hann.

Metnaðarfullt starfsumhverfi

Á hvað leggur mannauðssviðið áherslu núna?

„Jarðhræringar eru vissulega verkefni sem hefur fengið mikla athygli. Hins vegar er mikilvægt að muna að önnur verkefni á mannauðssviði hverfa ekki á meðan og hefur núverandi skipulag á mannauðssviði gert okkur kleift að sinna öðrum metnaðarfullum verkefnum samhliða. Til dæmis opnuðum við nýja gisti- og baðaðstöðu í Kerlingarfjöllum um mitt sumarið 2023. Eðlilega er ýmislegt sem mannauðussvið þarf að huga að þegar starfsfólk er í fjarlægð eða uppi á hálendi árið um kring. Sviðið leggur áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu til allra starfseininga fyrirtækisins samhliða því að takast á við náttúruöflin í Svartsengi.

Einnig eru öll fræðslumál fyrirtækisins á okkar borði og við leggjum mikinn metnað í að bjóða starfsfólki upp á fjölbreytta fræðslu í Bláa Lóns-akademíunni sem gagnast bæði í leik og starfi. Til dæmis bjóðum við upp á fræðslu um ólíka menningarheima, fræðslu um jarðfræði á Reykjanesi og svo buðum við upp á hlaupanámskeið í aðdraganda Reykjavíkurmaraþonsins. Okkur er mjög annt um andlega og líkamlega heilsu starfsfólksins en Bláa Lónið býður upp á fjölbreytt fríðindi sem og aðgang að ýmsum sérfræðingum og námskeiðum í þeim efnum,“ segir Lóa.

Sigrún segir mikilvægt að fylgjast grannt með mælikvörðum mannauðs í rauntíma og að bregðast hratt og örugglega við þegar þess þarf. „Það á jafnt við um helgun, aðbúnað og líðan starfsfólks yfir í mælikvarða eins og starfsmannaveltu, veikindahlutfall, mönnun og kostnað. Allt miðar að því að búa til metnaðarfullt starfsumhverfi og stjórnun sem einkennist af gæðum, ásamt því að veita starfsfólki og stjórnendum öflugan stuðning.

Við viljum vera framsækin og bregðast við í rauntíma. Öflugt mannauðssvið leikur lykilhlutverk í að skapa frábært og metnaðarfullt starfsumhverfi, draga úr sóun og auka starfsánægju og hollustu starfsfólks. Á sama tíma er framtíðarhugsunin stór þáttur í allri uppbyggingu og rekstri félagsins og því mikilvægt að starfsfólk mannauðssviðs hafi færni og þekkingu til þess að vinna bæði að framtíðarsýn sem og getu til þess að bregðast við í rauntíma,“ segir Sigrún.

Skilvirk upplýsingagjöf mikilvæg

Rýmingaráætlun Bláa Lónsins í Grindavík hefur vakið athygli og hversu rólegir starfsmenn hafa verið í kringum jarðhræringarnar. Þessi mál hafa án efa verið á ykkar borði. Hvernig hafið þið nálgast þetta verkefni?

„Það er mjög góð spurning. Í raun hafa verkefni tengd jarðhræringum verið á okkar borði mun lengur en frá því í nóvember árið 2023, þegar núverandi hrina hófst. Um leið og aðdragandinn að gosinu í Fagradalsfjalli hófst árið 2021 vorum við byrjuð að undirbúa ýmsar sviðsmyndir. Á mannauðssviðinu má helst nefna verkefni tengd vellíðan og öryggi starfsfólks í breiðum skilningi, bæði hvað varðar andlega og líkamlega heilsu og vellíðan. Til að mynda hafa verkefnin snúist um sífellda endurskoðun og bestun á rýmingaráætlunum og þjálfun í því samhengi.

Þá hefur skipt miklu að skapa umgjörð utan um fólkið okkar til að hittast, veita og fá stuðning, vera með skilvirka upplýsingagjöf, bjóða aðgengi að aðstoð sérfræðinga á borð við sálfræðinga og aðra sérfræðinga, tryggja starfsfólki og fjölskyldum þeirra húsnæði og öryggi, vera með öfluga öryggisþjálfun og ekki síst reglulegt og virkt samtal við starfsfólkið. Þetta er auðvitað bara toppurinn á ísjakanum. Í grunninn snýst starf mannauðssviðs á tímum jarðhræringa um fólk, öryggi, upplýsingagjöf og stuðning ásamt því að vinna ötult að framtíðarsýninni á sama tíma,“ segir Sigrún og tekur Ægir undir með henni og bætir við hversu mikilvægt sé að halda utan um starfsfólkið með fjölþjóðlegan bakgrunn þess í huga.

„Það þarf að taka tillit til ólíkra menningarheima og mismunandi reynslu sem og ólíkra tungumála. Þess vegna bjóðum við til dæmis upp á íslenskunámskeið og birtum allar upplýsingar frá fyrirtækinu á bæði íslensku og ensku á innra vefsvæði okkar. Upplýsingafundirnir sem framkvæmdastjórn heldur með öllu starfsfólki vikulega fara jafnframt fram á ensku til að tryggja sameiginlegan skilning alls starfsfólks,“ segir hann.

Sigrún segir það djúpt í menningu Bláa Lónsins að horfa til framtíðar og það hafi gert þau betur undirbúin fyrir þetta tímabil en ef þau hefðu ekki verið búin að skoða mögulegar sviðsmyndir framtíðarinnar.

„Við höfum breytt áherslum, ferlum og verklagi innan félagsins til þess að búa okkur undir áframhaldandi vöxt og efla okkur enn frekar. Samhliða þeirri vinnu höfum við eflt mannauðssviðið til muna sem gerði okkur vissulega kleift að takast á við verkefni jarðhræringa af mikilli fagmennsku og festu samhliða öðrum mikilvægum verkefnum sviðsins,“ segir Sigrún.

Mæta framtíðinni af hugrekki og krafti

Lóa segir að þótt ekki hafi borið á því utan frá hafi reynt á starfsfólk Bláa Lónsins að undanförnu. „Óvissa reynir alltaf á okkur. Bæði óvissan í náttúrunni en líka óreiða í umræðunni. Besta leiðin til að eyða óvissu er að upplýsa og á vikulegum fundum með öllu starfsfólkinu miðlum við upplýsingum frá okkar færustu sérfræðingum hjá til að mynda Veðurstofunni, Eflu verkfræðistofu, almannavörnum og Bliku. Starfsfólkið veit að það fær réttustu upplýsingar, á hverjum tíma, beint frá okkur og það skapar sannarlega öryggi í óreiðunni. Við einbeitum okkur að því sem við höfum stjórn á, það er innri upplýsingagjöf, og reynum að gera það vel. Þegar það verða mistök þá erum við fljót að upplýsa um þau, læra af þeim og gera betur. Við vitum að það er mikilvægt því við erum fyrst og síðast í þessu öll saman, sem eitt lið,“ segir hún.

Sigrún segist lengi hafa verið þakklát fyrir liðsheildina, en sjaldan meira en nú. „Það sem einkennir Bláa Lóns-fjölskylduna er hversu þétt hún stendur saman. Við förum saman í gegnum allar þær áskoranir sem verða á vegi okkar sem er einstakt að mínu mati. Við höfum náð að þétta liðsheildina, auka traust og skora hátt á starfsánægju-mælikvörðum á óvissutímum. Við horfum saman til framtíðar með skýra sýn. Það þarf sterkan slagkraft til að fylgja slíkri sýn og þann kraft höfum við,“ segir Sigrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert