Vinnumálastofnun rekur þjónustuskrifstofur um allt land þar sem boðið er upp á ráðgjafarþjónustu fyrir atvinnuleitendur. Hjá ráðgjafardeild Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu starfa 13 ráðgjafar auk deildarstjóra. Síðustu ár hefur verið lögð höfuðáhersla á vinnu með langtímaatvinnulausa eða þá sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur. Hver ráðgjafi sinnir um hundrað manns hverju sinni, tekin eru greiningarviðtöl við hvern einstakling og í kjölfarið ákveðin næstu skref.
Hlutverk ráðgjafa er að styðja við og hvetja einstaklinginn í atvinnuleit og meta hvaða úrræði geta gagnast viðkomandi. Vinnumálastofnun býður upp á mikinn fjölda námskeiða svo sem starfsleitar- og hvatningarnámskeið, sjálfstyrkingarnámskeið og tölvunámskeið, auk þess stendur fjölbreytt annað nám og úrræði atvinnuleitendum til boða með styrk frá Vinnumálastofnun. Það er mikilvægt að nýta vel þann tíma sem einstaklingar eru á skrá og að þeir haldi sér virkum, bæti við sig þekkingu og verði þannig betur undirbúnir til að fara aftur út á vinnumarkaðinn.
Sá hópur sem hættast er við að ílengist á skrá og festist í langtímaatvinnleysi er fólk um og yfir fimmtugt. Langtímaatvinnuleysi meðal 50+ er nú 23,6% meðan það er 16,6% hjá yngri aldurshópum.
Það hefur komið ráðgjöfum Vinnumálastofnunar á óvart hve erfitt getur reynst oft hámenntuðu fólki sem komið er um og yfir fimmtugt að komast aftur í starf við hæfi og í viðtölum kemur oft fram sú skoðun atvinnuleitenda að aldur þeirra sé stærsta hindrunin.
Bæði innlendar og erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að ákveðnir aldursfordómar eru fyrir hendi á vinnumarkaði. Þar má tína til ýmis dæmi svo sem að fólk sem komið er á þennan aldur sé illa að sér þegar kemur að stafrænni hæfni og tækniþróun, eldri starfsmenn séu ekki eins sveigjanlegir, séu hættir að fylgjast með nýjungum í faginu eða séu orðnir of dýrir starfsmenn. Fólk sé orðið útslitið og þreytt eftir fimmtugt og bíði bara eftir að komast á eftirlaun.
Þetta á auðvitað í fæstum tilfellum við nokkur rök að styðjast, í dag lifir fólk á þessum aldri mjög virku lífi, er á fullu í líkamsrækt, útivist og öðrum tómstundum og við lifum jú lengur og eigum að vinna lengur. Á skrá er fjöldi fólks á þessum aldri með allskonar hæfni og þekkingu, hámenntaðir sérfræðingar og fyrrverandi stjórnendur sem búa yfir mikilli hæfni, þekkingu og áratugareynslu. Rannsóknir sýna að þessi aldurshópur helgar sig meira vinnunni en þeir sem yngri eru og er minna frá vinnu. Fólk er orðið öruggt í sínu faglega hlutverki, hefur oft víðara sjónarhorn og góða yfirsýn og á því auðvelt með að taka erfiðar ákvarðanir.
Ein af skýringunum á því hve erfitt fólk á þessum aldri á með að komast aftur í starf getur verið hve vinnumarkaðurinn er að breytast mikið og hratt, það er mikill hraði í tækniþróuninni. Sum störf hafa úrelst og ákveðnir geirar skroppið saman svo sem fjármálageirinn og fjölmiðlageirinn. Þessi þróun mun bara verða sífellt hraðari með öllum þeim breytingum sem eru að verða en mögulega hefur þetta orðið til þess að færri störf eru í boði fyrir eldri og reyndari atvinnuleitendur. Vandamálið hjá þessum hópi er því samfélagslegt, það vantar oft ekkert upp á menntun, hæfni eða reynslu heldur er fólk að reka sig á aldursfordóma og að það er ekki lengur eftirspurn eftir þeirra þekkingu. Fólk upplifir allt í einu að allar dyr lokast. Sumir, til dæmis þeir sem eru með stjórnunarreynslu að baki, hafa nefnt að þeir telji sig ekki fá tækifæri þar sem yngri og óreyndari stjórnendur upplifi þá sem ógn.
Margir sem sjá ekki fram á að fá aftur sambærileg sérfræði- og stjónunarstörf fara að vinna að eigin viðskiptahugmynd en Vinnumálastofnun gefur atvinnuleitendum færi á því í gegnum verkefnið Frumkvæði. Sumir fara í endurmenntun en ráðgjafar Vinnumálastofnunar hvetja atvinnuleitendur mjög til endurmenntunar sem er oft það allra mikilvægasta í þeirri vegferð að komast aftur í starf. Margir snúa sér alveg að öðru, hámenntaðir einstaklingar taka meiraprófið, fara í leiðsögumanninn eða viðurkenndan bókara og sumir fara í ósérhæfð störf eins og að starfa við félagsstörf aldraðra og einstaka tekst að komast aftur í svipuð störf og þeir hafa verið í áður.
Fyrir um þremur árum fóru nokkrir ráðgjafar deildarinnar að skoða hvað hægt væri að gera sérstaklega fyrir þennan hóp, í kjölfarið var farið af stað með námskeið sniðin að þessum aldurshóp.
Á námskeiðinu Markviss atvinnuleit 50+ eru allar mögulegar leiðir í atvinnuleitinni kynntar. Sérstaklega er fjallað um þær hindranir sem mætt geta fólki á þessum aldri og hvernig sigrast megi á þeim. Hvernig hægt er að hanna umsóknargögn þannig að atvinnuleitendur á þessum aldri nái í gegn og komist í atvinnuviðtal. Hvernig sigrast megi á mögulegum aldursfordómum og komast í starf þar sem hæfni, þekking og reynsla viðkomandi fær að njóta sín.
Einnig var farið af stað með námskeiðið Stafræn hæfni á vinnumarkaði þar sem vinnuumhverfi samtímans gerir sífellt meiri kröfur um stafræna hæfni starfsmanna. Í heimi þar sem tæknibreytingar eru örar verður þörfin á að fólk uppfæri tölvufærni sína og tæknilæsi sífellt meiri.
Á námskeiðinu er skoðað hvað hefur verið að gerast í heimi upplýsingatækninnar undanfarin ár. Hvernig vinnuumhverfi nútímans lítur út, og kynnast þeim tólum og tækjum sem fyrirtæki eru að nýta sér í dag. Markmiðið er að þeir sem námskeiðið sitji öðlist aukna trú á eigin getu við vinnu í stafrænu umhverfi, geti þannig haldið í við nýjungar í tækniheiminum og eigi auðveldara með að aðlagast breyttu vinnuumhverfi þegar þeir koma aftur út á vinnumarkaðinn.
Við teljum mikilvægt að opna augu atvinnurekenda og þeirra sem standa að ráðningum fyrir þessum vannýtta mannauði. Þar er mikla hæfni að sækja sem kemur samfélaginu ekki að notum svo ekki sé minnst á þá persónulegu harmleiki sem það felur í sér að vera til dæmis rétt um fimmtugt með mikla menntun og reynslu að baki og fá ekki að nýta krafta sína, komast ekki aftur í starf þó fólk eigi jafnvel 20 ár eða meira eftir á vinnualdri. Það þarf ákveðna viðhorfsbreytingu, við lifum jú lengur, förum betur með okkur og eigum að vinna lengur.
Síðan byrjað var að vinna sérstaklega með langtímaatvinnulausa í ársbyrjun 2023 hefur langtímaatvinnuleysi farið úr 24% miðað við alla á atvinnuleysisskrá niður í 18-19%. Langtímaatvinnuleysi meðal 50+ var 36% áður en verkefnin hófust en er nú 23,6%. Við teljum okkur því klárlega geta séð árangur af þessum verkefnum. Því miður höfum við ekki nákvæm gögn um hvað verður um þá einstaklinga sem fara af skránni en fáum þó stundum einstaka sólskinssögur. Við viljum að lokum hvetja fyrirtæki og ráðningaraðila til að líta ekki framhjá þeim gífurlega mannauði sem þessi hópur býr yfir.
Höfundar eru ráðgjafar hjá Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu.