Þekking og ferlar besta veganestið

Morgunblaðið/Eggert

Erfið samskipti, einelti, áreitni og ofbeldi eru meðal flóknustu verkefna sem stjórnendur og mannauðsfólk fá inn á borð til sín,“ segir Katrín Kristjánsdóttir sálfræðingur og ráðgjafi í mannauðsmálum hjá Lífi og sál. Hún segir miklu máli skipta að vinnustaðir hafi mótað sér skýra stefnu og verklag ef grunur um slík mál kemur upp. „Eins er mikilvægt að verklagið sé öllum ljóst. Að ferlar séu á hreinu og viðhorf þeirra sem að málinu koma séu gagnleg og fordómalaus.

Það er með þessi mál, sem og önnur viðkvæm mál er snerta sálrænt öryggi fólks, að við þurfum að flýta okkur hægt og vera með á hreinu hvað þarf að gera og í hvaða röð. Að gæta hlutleysis, sýna virðingu og vera sanngjarn í málsmeðferð skiptir miklu máli og einnig að þeir aðilar sem eiga aðkomu að málum séu með sín hlutverk og verkefni á hreinu.“

Flókin mál reyna á mannauðsfólk

Það er áhugavert að tala við Katrínu um yfirvegun og fagmennsku og af máli hennar má skilja að það hvernig tekið er á málunum getur orðið meira vandamál en málið sjálft. „Fagmennska og yfirvegun skiptir svo miklu máli svo málsmeðferðin verði ekki vandamál í sjálfu sér og svo ekki sé farið út af sporinu,“ segir hún. Þegar málin stækka þá verður erfiðara að leysa þau og starfshópurinn mun alltaf líða fyrir það. „Við þurfum að gæta meðalhófs, vera lausnamiðuð í viðhorfi og hafa uppbyggilega sýn sem gagnast málum í ferlinu,“ segir hún.

Að þessu sögðu telur Katrín mikilvægt að stjórnendur geti dregið línur, sett mörk og forðast meðvirkni. „Það er aldrei gott þegar stjórnendur sogast inn í deilur, þegar þeir líða markalausa hegðun eða eru hluti af flokkadrætti, dómhörku og baktali. Stundum hættir stjórnendum jafnvel til að verða of umburðarlyndir ef um er að ræða starfsfólk sem er duglegt og afkastamikið. Oft myndast náin vinatengsl sem flækja myndina eða hagsmunir vinnustaðar flækjast fyrir við að taka afdráttarlausa afstöðu gegn hegðun sem ógnar sálfélagslegu öryggi vinnufélaga,“ segir Katrín.

Það er eðlilegt að flókin mál reyni á stjórnendur og mannauðsfólk. „Það getur verið mjög flókið að finna lausnir sem eru líklegar til að skapa vinnufrið og öryggi á vinnustaðnum og mikilvægt að hugsa hvert skref eins og hægt er til enda. Þá er þekking, reynsla og skýrir ferlar besta veganestið.“

Námskeið um erfið samskipti á vinnustöðum

Hverjar eru áherslur ykkar á næstu misserum?

„Líf og sál mun fagna 25 ára afmæli á næsta ári og við viljum halda upp á það með því að heiðra markmið og áherslur okkar um bætta vinnustaðamenningu á Íslandi. Við viljum miðla reynslu okkar og ætlum okkur að halda námskeið fyrir mannauðsfólk og stjórnendur á vormánuðum. Þema námskeiðsins eru faglegar úttektir á kvörtunum um erfið samskipti á vinnustað. Líf og sál býr að langri reynslu í þeim málum og tilgangur vinnustofunnar er að styðja mannauðsfólk og stjórnendur í að taka á og leysa þessi flóknu starfsmannamál og þar með auka líkur á að hægt sé að viðhalda góðum starfsanda og farsælu samstarfi. Þrátt fyrir viðkvæmt og flókið verkefni,“ segir Katrín.

Farið verður yfir helstu lög og reglugerðir sem eiga erindi á námskeiðinu. „Eins verður farið ítarlega í skilgreiningar á hugtökum og farið yfir gagnleg dæmi sem byggjast á okkar reynslu. Þá verður farið yfir stefnur og verklag vinnustaða og mikilvægi þeirra fyrir starfsfólk og stjórnendur, svo unnt sé að grípa málin og leysa þau á uppbyggilegan hátt.

Þá verður einnig litið til forvarna og skoðað í hvers konar jarðvegi kvartanir sem þessar kvikna. Hver viðvörunarljósin eru og hvernig best er að bregðast við þeim. Um er að ræða eins dags námskeið og er skráning þegar hafin. Áhugasamir geta haft samband við mig á netfangið katrin@lifogsal.is,“ segir Katrín Kristjánsdóttir sálfræðingur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert