Vinnustaður vaxtar

Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Íslandsbanki er vinnustaður þar sem boðið er upp á nútímanlegt, sveigjanlegt og framsækið umhverfi sem styður við árangur og ánægju starfsfólks. „Hjá Íslandsbanka starfa um 750 manns, meirihlutinn í höfuðstöðvum en einnig í útibúum um allt land og á skrifstofu okkar í Póllandi. Mikil áhersla er lögð á góð og uppbyggileg samskipti sem stuðla að jákvæðri vinnustaðamenningu,“ segir Ásdís Erla Jónsdóttir, fræðslu- og starfsþróunarstjóri á mannauðssviði Íslandsbanka.

„Leiðarljós okkar er að bankinn sé vinnustaður vaxtar og á síðasta ári kynntum við nýja mannauðsstefnu þar sem við römmum betur inn áherslur okkar. Kjarninn í stefnunni er rík áhersla á fræðslu og vöxt, heilsu og vellíðan og nútímalegt vinnuumhverfi. Auðvitað þurfum við líka að ganga úr skugga um að við bjóðum samkeppnishæf starfskjör og hlunnindi og að vandað sé til verka í ráðningum og móttöku nýs starfsfólks. Við trúum því að þarna getum við haft raunveruleg áhrif, að áherslur í mannauðsmálum stuðli að helgaðra starfsfólki sem leggur sig fram við að skila framúrskarandi starfi sem á endanum leiðir til betri árangurs og afkomu bankans,“ segir hún.

Ein af fjórum stefnuáherslum bankans er starfsfólkið. „Við í mannauðsteyminu gleðjumst sérstaklega yfir því að mannauðsmálin fái þennan sess formlega og í kjölfarið hafa mörg spennandi verkefni orðið til. Eitt þessara verkefna er að styrkja ábyrgðar- og árangursmenningu í bankanum.“

Viðurkenningar fyrir framúrskarandi frammistöðu

Hvað er árangursdrifin menning?

„Árangursdrifin menning felur í sér að skapa umhverfi þar sem starfsfólk er hvatt til að ná markmiðum sínum og árangri í starfi. Menningin byggist á skýrum markmiðum, tímanlegri endurgjöf og viðurkenningu fyrir framúrskarandi frammistöðu og skýrum leiðum til vaxtar. Með því að samþætta árangursdrifna menningu inn í daglegt starf hvetur það okkur til nýsköpunar og styrkir ánægju og helgun. Til að styðja okkur á þeirri vegferð höfum við fjárfest í hugbúnaðarlausninni Lattice og erum við mjög ánægð með fyrstu skrefin. Með Lattice ætlum við að skerpa á sýnilegum markmiðum, endurgjöf og þróun starfsfólks. Stjórnendur fá betra verkfæri til að styðja við frammistöðu, setja skýr markmið, hvetja til árangurs og veita reglulega endurgjöf. Á endanum eru það stjórnendur okkar sem eru hinir eiginlegu mannauðsstjórar á degi hverjum,“ segir Ásdís.

Þá talar Ásdís um að endurgjöf sé ómissandi verkfæri til að stuðla að persónulegum vexti og því sé mikilvægt að nýta endurgjöf reglulega. „Hún bætir frammistöðu og eykur ábyrgðartilfinningu starfsfólks. Endurgjöf er einnig mikilvæg þegar kemur að starfsþróunarsamtölum. Við viljum vaxa og þróast í starfi og það er mikilvægt að starfsumhverfið styðji við það.

Svo getur starfsþróun verið með ýmsum hætti, til dæmis með því að taka að sér ný verkefni, nýtt hlutverk eða leiðbeina öðrum. Hjá okkur er athyglin á innri vöxt, enda hefur bankinn tekið gífurlegum breytingum með aukinni stafrænni þróun. Í röðum okkar er fólk sem hefur starfað lengi hjá bankanum á mismunandi sviðum og öðlast djúpa þekkingu á bankastarfsemi en vinnur nú í stafrænu umhverfi sem krefst annars konar þekkingar og því er mikilvægt að styðja fólk í þeirri vegferð,“ segir Ásdís.

Heilsa og vellíðan starfsfólks skiptir máli

Meirihluti stjórnenda Íslandsbanka hefur unnið sig upp í bankanum. „Við ráðum innan frá og leyfum starfsfólkinu að stíga upp og þróast innan bankans. Á hverju sumri ráðum við 100 sumarstarfsmenn, sem margir hverjir verða framtíðarstarfsmenn bankans,“ segir Ásdís og bætir við að vissulega skipti vinnuumhverfi máli og það eigi að vera lýsandi fyrir starfsemina. „Við tökumst á við krefjandi og fjölbreytt verkefni og vinnuaðstaðan okkar endurspeglar það. Við bjóðum upp á verkefnamiðaða vinnuaðstöðu þar sem við getum nýtt okkur mismunandi vinnurými hverju sinni. Í höfuðstöðvum bankans í Norðurturni eru sköpunarrými fyrir fundi og má finna vinnustofur þvert á bankana en við leggjum mikinn metnað í að auka samstarf á milli sviða og stuðla að nýsköpun og framþróun í allri okkar vinnu.“

Ásdís talar um að það sé mikilvægt að vera vakandi fyrir líðan starfsfólks á vinnustaðnum. „Í breytilegu og krefjandi umhverfi skiptir heilsa og vellíðan starfsfólks höfuðmáli. Það er mikilvægt að vera vakandi fyrir líðan starfsfólksins og ýta undir fræðslu og stuðning reglulega. Við þurfum öll að öðlast verkfæri til að huga að líkamlegri og andlegri heilsu okkar. Við höfum tryggt aðgengi að úrræðum og þjónustu eins og til dæmis sálfræðiþjónustu og læknisþjónustu. Með því að setja heilsu og vellíðan starfsfólks í forgang erum við að fjárfesta í fólkinu okkar sem mun skila okkur margfaldri ávöxtun. Því það er nú svo að mannauðurinn er stærsta auðlind bankans og forgangsmál að skapa árangursdrifna vinnustaðamenningu sem leiðir til helgunar og vellíðunar,“ segir Ásdís Erla að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert