Frískaðu upp á húðina í vetur hjá Húðinni

Dr. Lára G. Sigurðardóttir læknir og Sigríður Arna Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur …
Dr. Lára G. Sigurðardóttir læknir og Sigríður Arna Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur eru eigendur Húðarinnar skin clinic. Ljósmynd/Saga Sig

„Við bjóðum upp á slökun frá amstri dagsins um leið og húðin fær yfirhalningu, en fagleg vinnubrögð í fallegu umhverfi eru einkunnarorð okkar,“ segir Sigríður Arna Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og annar tveggja eigenda Húðarinnar skin clinic í Skipholti 50b. „Ég og dr. Lára G. Sigurðardóttir læknir stofnuðum fyrirtækið saman á sínum tíma og höfum frá upphafi sérhæft okkur í forvörnum og meðferðum sem viðhalda heilbrigði húðarinnar. Við bjóðum upp á gott úrval húðmeðferða sem eru byggðar á vísindarannsóknum,“ segir Sigríður Arna.

Flestar húðmeðferðir Húðarinnar skin clinic krefjast heilbrigðismenntunar. „Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt og Lára er læknir sem hefur sérhæft sig í forvarnarfræðum. Hjá okkur starfa einnig tveir hjúkrunarfræðingar sem hafa næstum verið með okkur frá upphafi, Arndís Ágústsdóttir og Drífa Ísabella Davíðsdóttir. Síðan bættist Ragnheiður Ólafsdóttir snyrtifræðingur í hópinn á þessu ári. Þórhildur Daníelsdóttir, húðsjúkdómalæknir í Svíþjóð, kemur einnig reglulega til okkar. Við eigum það sameiginlegt að leggja okkur fram við að halda í náttúrulegt útlit, að bæta en ekki breyta,“ segir Sigríður Arna.

Starfsfólk Húðarinnar skin clinic talið frá vinstri: Dr. Lára G. …
Starfsfólk Húðarinnar skin clinic talið frá vinstri: Dr. Lára G. Sigurðardóttir, Arndís Ágústsdóttir, Drífa Ísabella Davíðsdóttir, Eva María Emilsdóttir, Sigríður Arna Sigurðardóttir og Ragnheiður Ólafsdóttir. Ljósmynd/Saga Sig

Húðin ljómar með ávaxtasýrum

Húðmeðferðirnar eru jafn ólíkar og þær eru margar að sögn Sigríðar Örnu. „Annars vegar bjóðum við upp á meðferðir sem vinna á yfirborðslagi húðarinnar og hins vegar meðferðir sem vinna dýpra í húðinni. Við mælum gjarnan með því að blanda þessum meðferðum saman til að hámarka árangur. Svo erum við einnig með fylliefni og húðörvunarmeðferðir sem við leggjum áherslu á að byrjað sé rólega á. Það er alltaf hægt að koma aftur og til að halda í náttúrulegt útlit er best að gera ekki of mikið í byrjun,“ segir hún og bætir við að þegar kemur að vinsælum meðferðum sé úr mörgu að velja.

„Ávaxtasýrumeðferðir eru afar vinsælar á þessum árstíma, en segja má að þær lífgi húðina við. Við erum með nokkrar tegundir af ávaxtasýrum og ávallt hægt að finna meðferð við hæfi en þessar meðferðir eru þekktar fyrir að gefa aukinn ljóma, auka raka, draga úr litabreytingum og minnka fínar andlitslínur. Það er einstaklingsbundið hversu mörg skipti viðskiptavinir þurfa en yfirleitt er mælt með þremur skiptum með ákveðnu millibili og síðan halda við á nokkurra mánaða fresti,“ útskýrir Sigríður Arna og minnir á ráðgjöf sem gott er að fá áður en meðferð er valin. „Út frá faglegri ráðgjöf er hægt að setja upp meðferðaráætlun sem hentar hverri húð fyrir sig.“

Húðmeðferðir sem vinna á yfirborðslagi húðarinnar eru vinsælar um þessar …
Húðmeðferðir sem vinna á yfirborðslagi húðarinnar eru vinsælar um þessar mundir. Ljósmynd/Marinó Flóvent

Mikilvægt að huga að raka og sólarvörn í vetur

Þegar kemur að náttúrulegu útliti þá er Húðin skin clinic í fararbroddi. „Við pössum upp á að fara ekki fram með offorsi í húðfegrun. Fylliefni í varir, sem dæmi, er vinsælt hjá eldri konum þegar varirnar eru farnar að minnka með aldrinum. Svo eru sumar konur með mjög þunnar varir. Þær vilja fá smá fyllingu í varirnar sem gefur oft frísklegt yfirbragð og þá er líka skemmtilegra að nota varalit. Það sem við forðumst að gera er að búa til útlit sem er ýkt eða ónáttúrulegt. Enda trúum við að hægt sé að gera mjög margt án þess að það sjáist, nema þá bara í frísklegra útliti og fallegri húð. Markmiðið er alltaf að helst enginn taki eftir breytingunni nema þú sjálf,“ segir Sigríður Arna.

Áttu gott ráð til að viðhalda glóandi og frísklegri húð inn í veturinn?

„Ég mæli með að nota góð krem í vetur og ávaxtasýrur koma einnig sterkt inn. Að verja húðina bæði gegn sól og kulda er ávallt góð byrjun. Sólargeislarnir ná til okkar í sundi og annarri útivist, líka á þessum árstíma. Eins mæli ég með að koma í ráðgjöf til okkar og fá góð ráð fyrir húðina í vetur. Húðgerðir eru ólíkar og því er erfitt að mæla með einhverju einu sem hentar fyrir alla,“ segir hún.

Hjá Húðinni skin clinic er gott að koma úr amstri …
Hjá Húðinni skin clinic er gott að koma úr amstri dagsins til að slaka á. Allir gestir fá hitapoka á axlirnar og svo er spiluð róleg tónlist sem gerir stemninguna einstaka. mbl.is/Karítas

Meðferð þar sem andlitsvöðvarnir eru settir í ræktina

Nýjasta meðferðin sem boðið er upp á hjá Húðinni skin clinic nefnist FaceStim. „Þetta er meðferð þar sem við sendum andlitsvöðvana í ræktina. FaceStim-meðferðin gefur andlitinu meiri fyllingu á sama tíma og endurnýjun húðarinnar er örvuð. Þetta er í raun og veru tvær meðferðir í einu. Byrjað er á því að hita húðina á þægilegan máta með RF (e. radiofrequency) sem er klassísk meðferð til að byggja upp kollagen og teygju í miðlagi húðarinnar (e. dermis) en þessi prótín gefa húðinni styrk og teygjanleika. Síðan eru ákveðnir vöðvahópar mótaðir til að gefa lyftingu og fyllingu í andlitið, sem dæmi með því að lyfta augabrúnum, miðju andliti og minnka línu frá nefi að munnvikum. Eins má styrkja kjálkalínu og hálsvöðva. Tæknin er byggð á svokölluðu diathermocontraction sem sendir hita djúpt í húðina og styrkir djúpvöðva andlits. Markmið FaceStim-meðferðarinnar er að gefa aukna fyllingu í andlitið. Hún bætir áferð og útlit húðarinnar og dregur fram náttúrulega andlitsdrætti með því að þétta og styrkja húðina,“ segir Sigríður Arna.

Meðferðin hentar vel þegar neðri hluti andlitsins er farinn að breytast. „Með aldrinum fer húðin í neðri hluta andlitsins að verða slappari. Ég mæli með að koma í fjögur skipti í FaceStim-meðferðina á einnar til tveggja vikna millibili og koma svo aftur á þriggja mánaða fresti til að viðhalda. FaceStim er mjög þægileg meðferð með litlu inngripi,“ segir hún og bætir við: „Hvað varðar aðrar vinsælar meðferðir þá bjóðum við upp á ýmsar snyrtimeðferðir, svo sem andlitsnudd með maska, litun og plokkun, og húðhreinsun sem og augnhárapermanent svo eitthvað sé nefnt. Það jafnast fátt á við að láta dekra við sig á snyrtistofu,“ segir Sigríður Arna.

Viðskiptavinir fá hitapoka á axlirnar auk þess sem það eru …
Viðskiptavinir fá hitapoka á axlirnar auk þess sem það eru hitadýnur á bekkjunum, svo ekki sé minnst á dásamlegu slökunartónlistina sem spiluð er á daginn. mbl.is/Karítas

Mikilvægt að fara varlega í fylliefnin

Sérfræðingar Húðarinnar skin clinic fóru á námskeið nýverið til að læra að sprauta Radiesse-fylliefni undir húðina. „Þroskaðar konur vilja fá fylliefni til að viðhalda útliti sínu með árunum. Eins getur verið gott að fá fylliefni undir húð þegar við höfum grennst mikið og vitum að við munum halda okkur í þeirri þyngd sem við erum í. Fylliefni duga yfirleitt í nokkur ár og er þetta orðin vinsæl meðferð hjá okkur þar sem við erum þekktar fyrir að sprauta hóflegu magni til að viðhalda náttúrulegu útliti og heilbrigði.“

Þegar kemur að framtíðinni þá óskar Sigríður Arna þess að karlmenn verði duglegri að koma í meðferðir. „Þeir mæta í háreyðingu sem er árangursrík meðferð sem dugar til lengri tíma. Þeir mæta einnig talsvert í húðslípun til að fá frísklegri húð og þá er einnig vinsælt að láta fjarlægja háræðaslit sem getur myndast á nefinu og á kinnum. Það er rosalega lítið mál að fjarlægja háræðaslit og hverfur það oft og tíðum eftir eitt skipti. Húðflúreyðing er einnig nokkuð vinsæl hjá karlmönnum en þeir eru líka farnir að koma í fylliefni og laserlyftingu. En karlmenn eiga skilið að láta dekra við sig eins og við konur gerum og bíð ég spennt eftir því að fá inn húðvörur frá Jan Marini sem eru hugsaðar fyrir karlmenn. Þær eru væntanlegar í verslun okkar bráðlega og nú þegar erum við með frábært rakakrem frá Jan Marini.“

Það er einstök stemning og fallegt um að líta í …
Það er einstök stemning og fallegt um að líta í Skipholti 50b þar sem Húðin skin clinic er til húsa. mbl.is/Karítas

Umhverfið þannig að viðskiptavinirnir koma aftur

Það sem gerir Húðina skin clinic að vinsælum áfangastað er hversu notalegt er að líta inn til þeirra á snyrtistofuna. „Við höfum verið einstaklega heppnar með viðskiptavini sem sýna okkur mikla tryggð og koma aftur og aftur. Við leggjum okkur líka fram um að taka vel á móti öllum. Það gerum við með því að færa hverjum og einum hitapoka á axlirnar auk þess sem það eru hitadýnur á bekkjunum svo ekki sé minnst á dásamlegu slökunartónlistina sem við spilum hér á daginn. Við tölum líka fallega um aðra og slúðrum ekki. Við viljum halda í gömul og góð gildi í þjónustu og á sama tíma bjóða upp á það nýjasta þegar kemur að meðferðum fyrir húðina,“ segir hún.

Haldið er í gömul og góð gildi þegar kemur að …
Haldið er í gömul og góð gildi þegar kemur að þjónustunni, og á sama tíma er boðið upp á það nýjasta þegar kemur að meðferðum fyrir húðina, mbl.is/Karítas

Sigríður Arna segir gaman að fylgjast með hvað landsmenn verða sífellt meðvitaðri um húðina og mikilvægi þess að fjárfesta í henni. „Við viljum koma til móts við þá einstaklinga sem vilja gera vel við sig þegar kemur að húðinni og bjóðum upp á ýmiss konar tilboð á meðferðum. Ef keyptar eru fjórar meðferðir þá fá viðskiptavinir okkar 20% afslátt, eins ef keyptar eru þrjár, þá er í boði að fá 15% afslátt. Það sem flestir gera sem vilja sjá róttækar breytingar á húð sinni er að koma nokkrum sinnum í röð og viðhalda svo árangrinum á nokkurra mánaða fresti eða jafnvel mánaðarlega. Þú getur fylgst með okkur á Instagram og Facebook og á heimasíðunni okkar,“ segir Sigríður Arna Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og förðunarfræðingur og annar tveggja eiganda Húðarinnar skin clinic.

Húðin skin clinic er í Skipholti 50b þar sem auðvelt …
Húðin skin clinic er í Skipholti 50b þar sem auðvelt er að finna bílastæði. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert