„Það er bara ein lítil fjölskylda úr Breiðholtinu sem á þetta,“ segir Högni Guðmundsson, eigandi Pixla, en verslunin var stofnuð árið 2003 og hefur verið í bláu húsunum í Skeifunni alla tíð. „Við fluttum reyndar á milli blárra húsa í sumar, fluttum úr númer 52 í 54 og stækkuðum þar með húsnæðið um helming. Það var orðið ansi þröngt um okkur á gamla staðnum en vöruúrvalið sést miklu betur hérna. Í Pixlum seljum við aðallega ramma fyrir ljósmyndir auk þess að prenta ljósmyndir, bæði stórar og litlar. Litlu myndirnar fara mjög oft í albúm, eins og var hjá afa og ömmu,“ segir Högni og hlær þegar blaðamaður hváir við.
„Það er nefnilega að aukast aftur. Við erum farin að sakna þess að hafa ekki albúmin að glugga í. Það er því mikið að aukast að fólk sé að prenta út myndir og setja í albúm og í raun má segja að þetta sé smá „comeback“, eins og vínilplatan, útvíðar buxur og filmuframköllun. Svo hefur verið mikil aukning í filmuframköllun og fólki á öllum aldri sem tekur myndir á filmu og lætur framkalla. Það eru margir sem fara alla leið í filmuna því það er mikil speki í þessu. Og svo aðrir sem hafa bara gaman af að breyta til og unga fólkið er til dæmis mikið með einnota vélar. Þau fara með þær á djammið og svo koma þau hér á mánudagsmorgni og það er svaka spenningur, þau vilja vita sem fyrst hvað er á filmunum. Framköllun á filmum er alltaf að aukast og mikil áskorun að halda í við þá þróun sérstaklega í ljósi þess að vélbúnaður til að framkalla er í eldri kantinum. Pixlar framkallar bæði litfilmur og svarthvítar filmur og við eigum því til þokkalegt úrval af filmum í búðinni.“
Aðspurður hvort myndabækurnar séu ekki vinsælli en að setja myndir í albúm segir Högni að myndabækur séu mjög skemmtilegt framsetningarform en það nái aldrei eins miklum vinsældum og gömlu góðu albúmin. „Myndabækurnar eru takmarkaðar að því leyti að fjöldi mynda er ekki eins mikill og í albúmunum. Það eru allir með síma og myndavélarnar eru gríðarlega góðar í þeim. Oft eru alveg frábærar myndir sem leynast í símanum en þú veður ekkert í símann hjá næsta manni í tíma og ótíma til að skoða. Þróunin undanfarið hefur verið sú að fólk prentar út allar litlu myndirnar en velur svo einhverjar til að stækka og setja upp á vegg. Við höfum lagt mikið í að gera vefpöntunarkerfið okkar eins auðvelt og mögulegt er þannig að það sé auðvelt og skemmtilegt að panta myndir til útprentunar á vefnum. Hægt er að panta myndirnar í mismunandi stærðum sem og fjölda og ekki skemmir fyrir að afhendingartíminn er í flestum tilfellum samdægurs eða næsta virka dag.“
Högni talar um að þegar fólk vill stækka myndir og setja upp á vegg þá séu helst þrír valkostir. „Í fyrsta lagi er hægt að prenta út mynd og setja hana í stóran ramma en við höfum lagt mikið upp úr að eiga gott úrval af römmum því þetta er vitanlega alltaf klassísk og falleg framsetning. Svo er það strigamynd sem er þá mynd sem er stækkuð upp, prentuð á striga, strekkt á blindramma og viðskipavinur fær hana tilbúna til að hengja upp á vegg. Síðan eru það „foam“ myndir sem eru í raun myndir sem eru prentaðar á ljósmyndapappír og límdar á frauðplötu. Það er skemmtilegt form og oftast eru settir rammar utan um plötuna sem kemur mjög vel út. Hvaða leið er farin fer svo eftir því hvað hver og einn er að leita eftir. Ef viðkomandi er með mynd sem er með miklum smáatriðum og þarf mikla skerpu þá er best að velja „foam" mynd. Ef myndin er falleg landslagsmynd eða norðurljós til dæmis þá væri betra að velja striga. Þarfirnar eru misjafnar sem og smekkur fólks en við leiðbeinum og hjálpum fólki sem vill fá ráðleggingar um hvað hentar best.“
Fram undan er mikill annríkistími hjá Pixlum en Högni talar um að það sé alltaf mest að gera í nóvember og desember. „Þá er líka skemmtilegast í búðinni enda allir að vinna í og skoða jólagjafir. Það er mikið að gera í dagatölum hjá okkur en þau eru mikið gefin í jólagjafir. Eins gefa félagasamtök út dagatöl sem þau selja og fjármagna sig með. Það er einfalt og þægilegt að búa dagatalið til sjálf á vefsíðunni okkar. Það er til dæmis hægt að setja inn afmælisdaga og jafnvel mynd af afmælisbarninu á tiltekinn dag. Þetta lífgar mjög upp á þetta hversdagslega dagatal, gerir það persónulegra og fallegra,“ segir Högni og bætir við að þó vissulega sé minna að gera í jólakortum þá séu alltaf einhverjir sem haldi í þá hefð.
„Eins skemmtilegt og það var að opna jólakortin þá er það nú bara þannig að tækninni fylgja alltaf einhverjar breytingar. Núna er fólk frekar með kveðju á Facebook eða öðrum samfélagsmiðlum. En það eru alltaf einhverjir sem vilja jólakort og núna er fólk jafnvel að prenta kort og setja þau með í pakkann í stað þess að setja þau í póst. Þá geturðu komið kveðjunni áfram án þess að setja í póst og svo eru enn aðrir sem bera bara kortin út sjálfir. Við höfðum lengi gengið með það í maganum að geta búið til persónuleg myndapúsl og létum verða af því að fjárfesta í búnaði til þess í haust. Það er alltaf töluvert spurt um myndapúsl, sérstaklega fyrir jólin og ég veit því að þetta verður vinsæl jólagjöf.“
Þá talar Högni um að það sé líka vinsælt að koma með myndir í viðgerð hjá Pixlum og það sé orðið töluvert að gera í því. „Oft kemur fólk með mjög illa farnar myndir. Við skönnum myndina inn, lögum sprungur og rispur í myndvinnsluforritum og prentum hana svo heila á ný. Svo höfum við jafnvel tekið svarthvítar myndir og litað þær. Það er svolítið sniðugt en svolítið skrýtið að allt í einu er gamla góða svarthvíta myndin komin í lit. En þá er nauðsynlegt að velta aðeins fyrir sér hvaða litir eiga að vera á myndinni. Hvaða litir voru í tísku árið 1971, til dæmis. Þá þurfum við að kynna okkur aðeins hvernig þetta var en þetta kemur oft ansi skemmtilega út,“ segir Högni og bætir við að svo megi ekki gleyma vefverslun Pixla en hún hefur verið mjög vinsæl undanfarin misseri.
„Hún hefur nýst sérstaklega vel úti á landi en aðgengi að prentþjónustu og römmum er mjög takmarkað víða á landsbyggðinni. Í vefversluninni er hægt að panta myndir til prentunar og þar er líka hægt að panta ramma. Margir setja svo athugasemd um að setja myndina í rammann og þá er allt tilbúið. Í framhaldi af því getum við svo sent heim með Dropp eða Póstinum þannig að fólk sem á ekki heimangengt getur verið með eina pöntun og fengið svo allt sent heim til sín. Eins og þetta er orðið í dag þá er þetta yfirleitt komið daginn eftir eða á öðrum degi, út um allt land.“
„Það er oft sagt við okkur að við séum brú á milli eldri tíma og nútímans þar sem allt er rafrænt,“ segir Högni. „Oft fáum við til dæmis mikið magn af „slide“ myndum sem við skönnum og komum á rafrænt form en það gerir fólki kleift að skoða þær í tölvu eða deila þeim til vina og ættingja. Við seljum einnig svokallað slide viewer sem er í raun stækkunargler með ljósi en þá er hægt að skoða og velja þær myndir sem á að skanna. Þá fáum við oft gömul albúm sem við skönnum myndir úr og auðvitað heilmikið af filmu negatívum en hér áður fyrr var viðtekin venja að halda upp á negatívurnar og það er því heilmikið til í geymslum hjá fólki.“