Fyrirhyggja í fjármálum grunnur að góðum starfslokum

Huld Magnúsdóttir forstjóri Tryggingastofnunar segir að fyrirhyggja í fjármálum skipti …
Huld Magnúsdóttir forstjóri Tryggingastofnunar segir að fyrirhyggja í fjármálum skipti máli. Ljósmynd/Silla Páls

Huld Magnúsdóttir forstjóri Tryggingastofnunar er með góð ráð fyrir fólk á besta aldri en það er mikilvægt að fólk viti hve mikið það hefur á milli handanna og hvenær það hyggst hætta að vinna. 

„Tryggingastofnun er þjónustuaðili almannatrygginga í landinu og greiðir ellilífeyri til rúmlega 43.000 einstaklinga,“ segir Huld Magnúsdóttir forstjóri Tryggingastofnunar. „Horft á besta aldurinn með augum almannatrygginga er mikilvægt að vita hvenær við ætlum að hætta að vinna, að minnka við okkur í starfi og hvaða peninga við verðum þá með á milli handanna. Það eru svo margar breytur sem þarf að skoða í þessu samhengi,“ segir Huld og bætir við að fyrirhyggja í fjármálum skipti máli svo hægt sé að eiga góð efri ár. „Það þarf að taka stöðuna hjá lífeyrissjóðunum og hjá TR og svo hafa margir greitt viðbótarlífeyri sem þarf að taka inn í reikningsdæmið líka. Ég mæli með reiknivélinni sem finna má á heimasíðu okkar ásamt fjölmörgu góðu kynningarefni og námskeiðum sem við bjóðum upp á reglulega. Þetta eru tímamót sem við höfum ekki verið á áður og því getur verið gott að panta tíma hjá ráðgjöfum okkar til að skoða réttindi sín,“ segir hún.

Fleiri hafa réttindi í almannatryggingakerfinu en áður

Það eru 32 greiðsluflokkar sem TR greiðir eftir úr almannatryggingakerfinu. „Ef við skoðum ellilífeyrinn sérstaklega þá er, eins og áður sagði, verið að greiða ellilífeyri til 43.000 einstaklinga. Flest sem fá ellilífeyrisgreiðslur eru á aldrinum 70 til 79 ára. Það sem okkur finnst áhugavert er fjölgunin í heildina í hópi ellilífeyrisþega síðustu tíu árin, sem er um 37%. Þetta er há tala sem mun bara fara vaxandi með árunum þar sem lífaldur er að hækka og íbúum landsins að fjölga. Það eru fleiri sem hafa réttindi í almannatryggingakerfinu í dag en nokkru sinni fyrr,“ segir Huld og bætir við að þótt konur séu í meirihluta allra greiðsluflokka sé fjölgun karla þegar kemur að ellilífeyri 43% á meðan konum fjölgar um 33%.

Hver er ástæða þess að konur eru í meirihluta þeirra sem fá greitt úr almannatryggingum?

„Konur eiga ennþá minni rétt en karlmenn í lífeyrissjóðskerfinu almennt. Þær konur sem eru á lífeyri í dag hafa margar styttri starfsaldur að baki en karlmenn á sama aldri. Sumar hverjar hafa verið meira heimavinnandi, séð meira um börnin og foreldrana og unnið í umönnunarstörfum þar sem launin eru lægri en í hefðbundnum karlastörfum. Okkar tölur sýna svart á hvítu að þriðja vaktin hefur hingað til lent meira á herðum kvenna en karla í gegnum tíðina.“

Spurð um góðan aldur til að kynna sér almannatryggingakerfið segir Huld að einstaklingar á öllum aldri hafi áhuga á málefninu. „Ég mæli hins vegar með því að allir sem eru sextugir á árinu fari að kynna sér réttindi sín. Að kynna sér og fylgjast með hvað hefur áhrif á greiðslur frá TR, kynna sér lífeyrisréttindi hjá lífeyrissjóðum, gera tekjuáætlun og finna út hvernig hægt er að upplifa fjárhagslegt öryggi eftir starfslok getur skipt öllu máli. Það getur til að mynda haft áhrif á hvenær þú ákveður að hætta að vinna eða minnka við þig vinnu.“

Hamingja er ákvörðun og markmið sem flestra ætti að vera …
Hamingja er ákvörðun og markmið sem flestra ætti að vera að eiga góð efri ár. Ljósmynd/Unsplash

Um 20% landsmanna fá greitt frá TR

Það er áhugavert að ræða við Huld um tölfræði TR. „Ellilífeyrisþegar eru svona rétt um helmingur þeirra sem við greiðum til. Við greiðum einnig örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri, meðlög, barnalífeyri og mæðra- og feðralaun, svo eitthvað sé nefnt. Það eru rúmlega 21.000 einstaklingar með örorkumat í landinu og ef ég tek saman alla þá sem fengu greiðslur frá okkur í fyrra þá voru það rúmlega 82.000 einstaklingar,“ segir Huld en sá fjöldi er um 20% landsmanna.

Huld er meðvituð um að hlýlegt viðmót sé mikilvægt í stofnun á borð við TR. „Einkunnarorð okkar og áherslur í þjónustunni eru: Hlý, skýr og upplýsandi. Við viljum vera til staðar fyrir alla þá sem leita til okkar og bjóða upp á fjölbreyttar leiðir til að nálgast okkur; bæði persónulega og rafrænt. Við höfum boðið upp á opna fræðslufundi um ellilífeyri. Þeir eru auglýstir og haldnir annaðhvort í raunheimum eða á netinu, í Reykjavík og víða um landið. Við reynum að mæta fólki þar sem það er statt og koma réttum upplýsingum til skila á skýran og einfaldan hátt.“

Erfitt að upplifa hamingju í óvissunni

Huld segir fjárhagslegt öryggi mikilvægt á bestu árunum og í raun erfitt að upplifa hamingju þegar óvissa ríkir í kringum peninga. „Fjármálin hafa áhrif á alla aðra þætti lífsins. Því skiptir svo miklu máli að kanna málin frá öllum hliðum og að hafa allar upplýsingar á uppi á borði.

Við höfum gert töluverðar breytingar á markaðsefni okkar og heimasíðunni sem fékk nýtt útlit í febrúar á síðasta ári. Nú er hægt að bóka tíma hjá ráðgjafa í gegnum Noona-forritið. Við færðum tr.is-síðuna yfir á island.is, fórum yfir allt efni á síðunni og gerðum það aðgengilegra. Við bjóðum upp á spurningar og svör í helstu málaflokkum, reiknivél og fleira sem ég hvet alla til að skoða.“

Með aukinni greiðslu í lífeyrissjóðina má með sanni segja að ákveðin bylting hafi orðið, þar sem nú er auðveldara en áður að gera ráðstafanir fram í tímann.

En hvað vefst helst fyrir fólki varðandi greiðslur frá TR?

„Það getur verið áskorun þegar tekjur eru vanáætlaðar og greiðsluáætlunin stenst ekki miðað við skattskýrsluna. Þá verða lífeyrisþegar að endurgreiða hluta af greiðslum síðasta árs. Við viljum helst komast hjá því að fólk fái kröfu frá okkur, því hvet ég alla þá sem hafa lent í þessari áskorun oftar en einu sinni að panta tíma í ráðgjöf og skoða Einu sinni á ári-leiðina. Hún hentar þeim sem stóla ekki einvörðungu á greiðslur frá okkur.“

Vinnum lengur en aðrar Evrópuþjóðir

Íslendingar vinna lengur en aðrar Evrópuþjóðir að sögn Huldar. „Eins tengjum við mörg lífshamingjuna við vinnuna. Þegar starfslok verða þurfum við að finna eitthvað annað að gera í staðinn fyrir vinnuna,“ segir Huld og bætir við að erfitt sé að gefa eitt ráð fyrir alla um hvernig hægt sé að eiga sem bestan tíma á efri árum. „Það er svo mikilvægt að muna að bestu árin eru alls konar enda er hópurinn svo langt frá því að vera einsleitur. Ætli það eina sem sameini hópinn okkar hjá TR sé ekki bara tímamótin; krossgöturnar,“ segir Huld og bætir við að starfsfólk TR reyni eftir bestu getu að leiðbeina þeim sem eru á byrjunarreit hvað þetta varðar. „Við höfum líka verið í góðu samtali við hagsmunasamtök eldri borgara vítt og breitt um landið. Það sem einkennir þau samskipti eins og viðskiptavini okkar almennt er jákvæðni og gott viðmót. Þetta er fjölbreyttur hópur sem við höfum ánægju af að þjónusta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert