„Leitarvélin í vefverslun er lykilþáttur í því hvort viðskiptavinurinn vilji skoða vefsíðuna eða ekki. Og leitarvélin er einmitt það sem við erum einna stoltastir af í okkar kerfi. Það skiptir höfuðmáli að fólk finni það sem það þarf að finna í vefversluninni og svo líka að það finni það sem það vissi ekki einu sinni að það ætlaði að finna,“ segir Orri Arnarsson, annar stofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Kaktus.
„Leitarvélin er okkar sérgrein og við einblínum á hraða leitarvélarinnar, niðurstöðurnar og leitarmöguleika. Það er að mörgu að huga ef leitarvélin á að vera góð og alls kyns atriði sem skipta máli, eins og að það megi gera stafsetningarvillu í textastrengjum, að hægt sé að sía eftir öllu mögulegu sem viðskiptavininum dettur í hug, að vera með samheitaorðabók í leitarvélinni og þess háttar.“
Kaktus var stofnað árið 2018 af Orra og Guðmundi Sigursteini Jónssyni. Guðmundur segir að markmið fyrirtækisins sé að auka skilvirkni og spara tíma fyrir viðskiptavini. „Við sérhæfum okkur í hugbúnaðarsmíði og ráðgjöf. Hvort sem það eru sérsmíðuð kerfi fyrir ákveðin verkefni, vefsíður, vefverslanir eða endurnýtanlegar hugbúnaðarlausnir. Við leggjum áherslu á að finna leiðir til að þjónusta okkar viðskiptavini á þann hátt sem mun nýtast þeim best. Sérfræðingar okkar leita allra leiða til að lækka flækjustig, minnka áhættur og óvissu eins og mögulegt er,“ segir Guðmundur og bætir við að verkefni Kaktus séu alls konar og margvísleg.
Hrafnkell Örn Ingólfsson, sölu- og markaðsstjóri Kaktus, tekur undir orð Guðmundar og segir að Kaktus leggi mikla áherslu á að uppfylla þarfir viðskiptavina sinna. „Við hjá Kaktus horfum stöðugt til þess að bæta þjónustuna með nýjungum og aukinni skilvirkni. Það er forgangsatriði hjá okkur að veita íslenskan hugbúnað sem leysir raunveruleg vandamál í atvinnulífinu og aðstoðar viðskiptavini okkar við að ná markmiðum sínum.“
Upphaflega þróuðu þeir hjá Kaktus kerfi fyrir stéttarfélög en gerðu svo, nánast óvart, lausn fyrir netapótek. „Lyfjaver var einn af okkar fyrstu viðskiptavinum en þau vildu lausn þar sem hægt væri að leysa út lyfseðla á vefsíðu. Okkur fannst það mjög sniðugt en svo kom í ljós að það er gífurlega flókið, bæði tæknilega en einnig lagalega að selja lyf á netinu þannig að þetta varð mikið stærra en við gerðum okkur grein fyrir í byrjun,“ segir Orri og Guðmundur bætir við að segja megi að þeir séu orðnir sérfræðingar í netapótekum því nú séu sex apótek sem nýti Medio, veflausn Kaktus í apótekum.
„Netapótekin okkar eru í raun almenna vefverslunarkerfið okkar sem við köllum Superstore og svo er lyfjapakkinn í raun aukakubbur sem við setjum ofan á.“
Guðmundur talar um að framtíð netverslunar á Íslandi hafi aukist mikið á síðustu árum og muni aukast enn meira í náinni framtíð. „Ef verslanir í dag eru ekki með vefverslun líka þá heltist það úr lestinni og það verður enn mikilvægara á komandi árum. Annað sem er mikilvægt og sparar ansi mörg handtök er sjálfvirknivæðing við bókhaldskerfi, birgðakerfi og annað. Að það sem fer fram á netinu sé ekki endurunnið handvirkt eftir á heldur sé allt tengt við bókhalds- og birgðakerfi í rauntíma.
Margir eru ennþá að handfæra sölur dagsins eða vikunnar inn í bókhalds- eða birgðakerfi. Oft er fólk hreinlega ekki upplýst um hvað er hægt að gera en sjálfvirkt ferli skiptir mjög miklu máli. Og við höfum sérhæft okkur í þessu og erum mjög góðir í því,“ segir Guðmundur einlægur og bætir við að allir reikningar og sölur sem fara í gegnum vefverslun eiga að bókast beint niður á reikninga í bókhaldskerfi og greiðslur á móti.
Hrafnkell Örn leggur áherslu á að sjálfvirknivæðing nýtist ekki aðeins til að minnka handavinnu heldur einnig til að bæta upplifun viðskiptavina. „Sjálfvirkni eykur nákvæmni og áreiðanleika í viðskiptum og gefur starfsfólki tíma til að sinna fjölbreyttari verkefnum. Það stuðlar að betri þjónustu og hærri gæðum í öllum ferlum.“
Orri tekur undir það og viðurkennir að almennt séð sé oft verið að sjálfvirknivæða mjög einfalda hluti. „Til að mynda að taka út lista af félagsmönnum í ákveðnum hópum, senda fjöldapóst á ákveðna hópa og svo framvegis. Oft er starfsfólk í einhverri handavinnu nokkrum sinnum í viku sem tekur ekki nema korter í senn og fólki finnst það því ekkert mál. En við getum búið til takka sem tekur tíu sekúndur að ýta á og það klárar verkið. Oft held ég að fólk fatti ekki hversu einfalt er að fara styttri leið.“
Guðmundur grípur orðið og talar um að oft sé talað um að kostnaður geti verið hár við uppsetningu vefverslunar og alls konar kerfa en það sparast gríðarlegur tími við alls konar sjálfvirknivæðingar. „Tímasparnaður er alltaf mikilvægur. Og flestir gætu verið að gera eitthvað gáfulegra en að taka út sama listann 30 sinnum í mánuði auk þess sem það eykur líka starfsánægju að hafa fjölbreytni í starfi.“
Hrafnkell Örn tekur loks fram að hraði og sveigjanleiki séu lykilatriði á samkeppnismarkaði. „Að nýta tæknina til fulls og nýta sjálfvirkni þar sem hægt er, skapar forskot til lengri tíma. Við leggjum mikla áherslu á að styðja viðskiptavini okkar með hugbúnaði sem einfaldar ferla og eykur skilvirkni, svo þeir nái markmiðum sínum hraðar og örugglega.“
Frekari upplýsingar um Kaktus má finna hér.