Snakkið sem landsmenn vilja helst

Það er nóg að gera í Iðnmark um þessar mundir …
Það er nóg að gera í Iðnmark um þessar mundir enda helstu törninni að ljúka því landsmenn vilja fá sitt Stjörnusnakk um áramótin. mbl.is/Árni Sæberg

Hjá Iðnmark, sem framleiðir meðal annars hin geysivinsælu Stjörnu Partý Mix sem eru á borðum flestra landsmanna um áramótin, er búið að vera nóg að gera undanfarið enda ein stærsta törnin að ljúka. Þar er nú unnið á vöktum til að tryggja að landsmenn fái það snakk og popp sem þeir þurfa á að halda yfir áramótaskaupinu. Iðnmark er fjölskyldufyrirtæki sem hefur verið starfrækt frá árinu 1988 en systkinin Sigurjón, Jóhanna og Ingibjörg Dagbjartsbörn reka fyrirtækið saman og hafa gert frá upphafi. Það væri þó ekki hægt án alls frábæra starfsfólksins sem þar starfar, að sögn Sigurjóns en það eru tíu manns sem starfa hjá Iðnmark.

„Þessa dagana erum við á átta tíma vöktum og höfum verið á vöktum allan desember. Þetta er okkar vertíð enda er mikil sala á snakki og poppi fyrir jólin og svo nær hún hámarki um áramótin. Það virðist sem fólk sé að fara frá súkkulaðinu yfir í snakk og popp,“ segir Sigurjón og bætir við að stærsti dagur ársins hjá fyrirtækinu sé 30. desember enda megi sjá heilu stæðurnar af snakki í verslunum þessa dagana.

Á þessum árstíma er Partý Mix paprika og Partý Mix …
Á þessum árstíma er Partý Mix paprika og Partý Mix salt og pipar vinsælasta snakkið og Sigurjón mælir með Vogaídýfu með. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem er vinsælast hjá okkur á þessum árstíma er Partý Mix paprika og Partý Mix salt og pipar en það er blandað snakk með skrúfum, hringjum, flautum og frönskum. Þetta er okkar mest selda snakk sem landsmenn velja helst og svo tekur það Vogaídýfu með. Ég persónulega mæli með Kryddblöndunni. Partý Mixið og Vogaídýfan er blanda sem flestir vilja hafa þegar horft er á áramótaskaupið.“

Ingibjörg, Sigurjón og Jóhanna eru systkini sem hafa rekið Iðnmark …
Ingibjörg, Sigurjón og Jóhanna eru systkini sem hafa rekið Iðnmark frá 1988 en fyrirtækið framleiðir meðal annars Stjörnupopp og Stjörnusnakk. mbl.is/Árni Sæberg

Vinsælt Ostapopp og Próteinpopp

Iðnmark var stofnað árið 1988 og byrjaði þá með Ostapopp og Stjörnupopp en það er popp sem landsmenn þekkja mætavel enda gríðarlega vinsælar vörur. Sjálfur segist Sigurjón aldrei fá leið á poppkorni en poppið er poppað í heitum loftstraumi. „Maður fær aldrei leið á poppkorni, það er bara þannig. Við borðum popp nánast alla daga,“ segir Sigurjón og hlær.

„Ostapoppið sló strax í gegn þegar við settum það á markað. En þótt Ostapopp og Stjörnupopp sé vinsælast af poppi hjá okkur þá hefur Próteinpoppið líka slegið í gegn en við settum það á markað fyrir tveimur árum. Við kaupum prótínið frá Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki en þar er prótín unnið úr mysu. Við fáum prótínið í duftformi, blöndum það í kókosolíu og spreyjum á poppkornið sem er reyndar svolítil kúnst að gera. Fitness poppið okkar er líka vinsælt en það er fituminna og með minna salt. Við erum líka með karamellupopp og Turkish pepper popp.“

Það er mikil vöruþróun hjá Iðnmark og í vor kemur …
Það er mikil vöruþróun hjá Iðnmark og í vor kemur nýtt maíssnakk á markað en það verður fáanlegt í tveimur bragðtegundum. Ljósmynd/Aðsend

Vistvænt snakk úr hágæðahráefni

Iðnmark er Framúrskarandi fyrirtæki og hefur verið á þeim lista frá upphafi sem er einkar góður árangur. Aðspurður hvað sé lykillinn að árangrinum segir Sigurjón að það sé margt en eitt sem hjálpar vafalaust til er að þau nota alltaf hágæðahráefni. „Það er eitt af því sem má aldrei spara í. Við veljum hráefnin alltaf fyrst og með því að velja góð hráefni færðu góða vöru,“ segir Sigurjón og bætir við að þar sem Stjörnusnakk sé íslenskt vörumerki sé það mun vistvænna því allar vörurnar séu framleiddar hér heima.

„Ef ég tek sem dæmi  þá eru 15 tonn af hráefni í einum gám sem breytist í tíu 40 gáma af tilbúinni vöru. Það má því segja að Stjörnusnakk sé vistvænasta snakkið á Íslandi.“

Iðnmark hefur verið á lista Framúrskarandi fyrirtækja frá upphafi en …
Iðnmark hefur verið á lista Framúrskarandi fyrirtækja frá upphafi en það eru afar fá fyrirtæki sem hafa náð þeim góða árangri. mbl.is/Árni Sæberg

Nýtt maíssnakk á markað í vor

Til að ná eins góðum árangri og Iðnmark hefur náð er nauðsynlegt að vera með öfluga vöruþróun og Sigurjón talar um að það sé nauðsynlegt að koma reglulega með nýjar vörur á markað. Hjá Iðnmark fari þau reglulega á sýningar þar sem sé hægt að kynnast nýjum tækjum, hráefnum og öðru í snakkheiminum.

„Þar fáum við oft nýjar hugmyndir um hvernig snakkið er mótað, kynnumst nýjum kryddblöndum og þess háttar. Í kjölfarið vinnum við kannski með kryddhúsum til að þróa nýja kryddblöndu sem passar við snakkið okkar. Í vor ætlum við til dæmis að setja nýja vöru á markað sem verður mjög spennandi en það er maíssnakk sem er mótað á mjög sérstakan máta og mun koma í tveimur bragðtegundum. Stjörnusnakk er fituminna en gengur og gerist. Til að mynda eru 24 grömm af sólblómaolíu í Partý Mixi en í kartöfluflögum eru sirka 32 grömm af olíu. Stjörmusnakkið er því aðeins hollara hvað þetta varðar,“ segir Sigurjón sem lítur björtum augum til framtíðar enda er Stjörnusnakk og Stjörnupopp sífellt að sækja í sig veðrið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert