„Á skemmtilegasta vinnustað landsins“

Sara Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Kompaníferða.
Sara Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Kompaníferða. mbl.is/Aðsend

Sara Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Kompaníferða mælir eindregið með að fyrirtæki fari í árshátíðaferð. Hún segir ferðalög góða leið til að auka ánægju starfsfólks.

„Ég hef alltaf verið frekar feimin og hef aldrei verið mikið fyrir athygli eða ábyrgð,“ segir Sara Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Kompaníferða. „Frá því ég kom fyrst til Kompaníferða þá var það aldrei á planinu mínu að vinna mig eitthvað upp í fyrirtækinu, mér fannst bara fínt að fá verkefni, leysa þau og vera laus allrar ábyrgðar ef svo má segja. Mér fannst það nóg og ég var sátt,“ segir hún.

„Svo var það árið 2019 sem það kviknaði eitthvað inn í mér, ég fann að ég hefði upp á eitthvað meira að bjóða og mig langaði að taka meiri ábyrgð og láta til mín taka. Ég tala við yfirmann minn og sagði honum hvernig mér leið og hægt og rólega þessi ár hef ég verið að stækka og styrkjast í þá manneskju sem ég er í dag,“ segir Sara og bætir við að hún sé stolt af sér að hafa stigið út fyrir þægindarammann og ákveðið að vilja meira og hafa trú á sér.

Ferðalög þétta hópinn

Kompaníferðir eru áhugavert viðburðaferðafyrirtæki. „Við erum svo miklu meira en einhver sem aðstoðar fyrirtæki og hópa við að bóka flug og hótel. Við viljum veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og gerum það nokkuð vel, þó að ég segi sjálf frá. Við sérsníðum hverja einustu ferð handa fyrirtækjum, sjáum um skipulag á árshátíðum, sama hvort það er í sal, á hóteli eða á flottum viðburðastað. Við fáum veislustjóra og skemmtiatriði og setjum saman viðburð sem hentar hverju og einu fyrirtæki. Eins liggur metnaður okkar í að bjóða hópum upp á ýmsa afþreyingu á staðnum og reynum að fá fólk til þess að nýta tímann vel og sjá ferðina líka sem hópefli.“

Fyrirtækjaferðir þykja einmitt frábærar fyrir hópa til að kynnast utan vinnu. „Tengslin verða dýpri og andinn lyftist upp við að eyða heilli helgi saman og upplifa eitthvað fleira en vinnutal. Stundum er farið í matar- og vínsmakk í einhverri æðislegri borg þar sem makar fá að kynnast vinnufélögunum en það getur oft verið erfitt þegar það er bara eitt árshátíðarkvöld á ári þar sem mökum er boðið með.“

Sara segir upplifun starfsfólks Kompaníferða vera eins og annarra. „Já, þetta þekkjum við af eigin raun og því reynum við að vera dugleg að fara til útlanda saman, bæði til að kynna okkur staðina betur og til þess að þétta hópinn. Fyrir mér eru þetta dýrmætar minningar með mínu æðislega samstarfsfólki.“

Spurð um starfsfólk Kompaníferða segir Sara: „Við erum tíu talsins á skrifstofunni eins og er, sex konur og fjórir karlar. Dagarnir mínir eru aldrei eins þar sem fyrirtækið er ennþá ekki stærra en þetta. Ég er allt í öllu, sem mér finnst frábært. Ég fæ að tala við alla og vinna eitthvað með öllum. Verkefnin eru fjölbreytt, ég er mikið í samskiptum við fyrirtæki, starfsmannafélög og ýmsa hópa um mögulega ferð, sérsníð ferðir og set upp ferðapakka sem henta hverju og einu fyrirtæki í samstarfi við Arnar Fylkisson sölumann. Þess á milli er ég í almennu utanumhaldi um starfsfólkið mitt, sem og að aðstoða þau við ýmis verkefni hér og þar þegar þau þurfa mína hjálp, samtöl við markaðsdeild og bókhald svo eitthvað sé nefnt.“

Mælir með ferðalagi til Egyptalands

Eru það konur sem skipuleggja ferðalög fyrirtækja?

„Já, ég myndi segja að það væri algengara en hitt að það sé kvenmaður sem sér um skipulag svona ferða hjá fyrirtækjum en alls ekki algilt. Ég gæti alveg trúað því að hjá sumum fyrirtækjum lendi þetta á herðum kvenna því enginn nennir að taka þessa aukaábyrgð, en svo held ég að okkur konum þyki þetta oft líka skemmtilegt.“

Samskipti við starfsfólk Kompaníferða eru létt og skemmtileg. „Við erum opin og hreinskilin og okkur finnst gaman að tala við fólk, sem er það sem þetta starf snýst voða mikið um. Við eigum samskipti við alls konar fólk, bæði hérlendis og erlendis. Í raun held ég að ég geti sagt að ég vinni á skemmtilegasta vinnustað á landinu; það er erfitt að finna samheldnari og betri hóp en vinnur hjá Kompaníferðum og ég vona að það skíni í gegn þegar fólk og fyrirtæki hafa samband við okkur og eru að plana árshátíðarferð erlendis fyrir fyrirtækið.“

Egyptaland er ofarlega á listanum yfir lönd sem Sara ætlar að heimsækja næst. „Við hjá Kompaníferðum kynntum nýjan stað til sögunnar í beinu flugi frá Íslandi um síðustu jól, þar sem var farið til Hurghada í Egyptalandi við Rauðahafið í fyrsta skiptið. Við stefnum að því að fara aftur næstu jól og þá er ég klárlega að fara að taka fjölskylduna mína með,“ segir Sara Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Kompaníferða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert