Sólrún Jóna Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Orkusölunnar, mælir með að konur stígi inn í orkugeirann í auknum mæli.
Það er mikil þróun að eiga sér stað í orkumálum og það finnst mér virkilega spennandi, umhverfið er kvikt og ört, sem krefst hraðrar ákvarðanatöku en um leið sveigjanleika,“ segir Sólrún Jóna Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Orkusölunnar.
„Sem stjórnandi hef ég fundið fyrir því hvernig stefna í jafnréttismálum getur mótað bæði vinnustaðinn og einstaklingana sem þar starfa. Fyrirtæki sem leggja áherslu á að tryggja jafnrétti veita starfsfólki sínu aukna trú á eigin getu, traust til að taka mikilvægar ákvarðanir og rými til að vaxa í starfi. Þetta byggist þó ekki einungis á orðum heldur aðgerðum sem stuðla að því að allir fái jöfn tækifæri, óháð kyni,“ segir Sólrún Jóna.
Orkusalan hefur einmitt lagt mikla áherslu á að skapa slíkt umhverfi og það er eitt af því sem fólki finnst heillandi og um leið spennandi þegar það hefur störf í fyrirtækinu. „Fyrirtækið leggur mikið upp úr því að allir fái jöfn tækifæri og lítur á fjölbreyttan og ólíkan bakgrunn starfsfólks sem styrkleika. Mikil áhersla hefur verið lögð á að byggja upp vinnustað þar sem jafnrétti er í fyrirrúmi. Þetta hefur meðal annars skilað sér í viðurkenningu Jafnréttisvogar FKA undanfarin tvö ár sem má segja að sé staðfesting á að við séum á réttri leið,“ segir hún.
Kynjahlutfall innan Orkusölunnar er nánast jafnt, bæði heilt yfir, í framkvæmdastjórn og í stjórn fyrirtækisins. „Slík útkoma er ekki tilviljun heldur afrakstur markvissrar stefnu og meðvitaðra ákvarðana,“ segir Sólrún Jóna.
Hvernig gekk árið í fyrra?
„Síðasta ár var frábært ár þrátt fyrir krefjandi aðstæður. Við settum fram nýjar lausnir sem markaðurinn tók vel í og við ætlum að halda áfram að setja kraft í þær með enn frekari þróun og nýsköpun. Orkuleiðir Orkusölunnar eru fjórar sérsniðnar áskriftarleiðir sem miða að því að mæta fjölbreyttum þörfum viðskiptavina þegar kemur að rafmagnsnotkun. Hver leið hefur sín sérkenni og kostnað þannig að notendur geta valið þá leið sem hentar þeirra lífsstíl og rafmagnsþörf best.
Eins fékk Orkusalan ný rannsóknarleyfi á síðasta ári og erum við að klára umhverfismat fyrir nýjar virkjanir, bæði fyrir vind og vatn. Það eru því mjög spennandi tímar fram undan.“
Kvennafrídagurinn minnir okkur á mikilvægi jafnréttisbaráttu kvenna, „og þann árangur sem náðst hefur á undanförnum áratugum. Það er þó ljóst að við höfum enn verk að vinna. Jafnrétti kynja á vinnustað er ekki bara sjálfsögð krafa, heldur einnig nauðsynlegt skref í átt að sterkari og betri vinnustaðamenningu sem skilar sér í auknum árangri fyrirtækja og betra samfélagi fyrir alla,“ segir hún.
Sólrún Jóna þreytist seint á því að segja að jafnrétti sé ákvörðun, mjög mikilvæg ákvörðun. Hún er á því að árangurinn liggi í ákvörðunum okkar. „Að skapa vinnuumhverfi þar sem konur og karlar njóta jafnra tækifæra og geta blómstrað á jafnréttisgrundvelli.“
Konur í orkumálum (KÍO) er félag sem var stofnað til að auka sýnileika og þátttöku kvenna í orkugeiranum sem hefur lengi verið karllægur vettvangur. „Markmið félagsins er einmitt að efla hlut kvenna innan greinarinnar og stuðla að aukinni fjölbreytni. Meðal annars hvetjum við okkar starfsfólk til að taka virkan þátt í þeim og er gaman að segja frá því að þar er kona frá okkur í stjórn,“ segir Sólrún Jóna.
Eruð þið með markmið á nýju ári?
„Já! Við leggjum ríka áherslu á að tryggja viðskiptavinum Orkusölunnar samkeppnishæft verð og framúrskarandi þjónustu. Þá stefnum við á tvöföldun á orkuframleiðslu á næstu fimm árum. Þar að auki tökum við virkan þátt í orkuskiptum með framleiðslu á sjálfbærri orku og ábyrgri afstöðu gagnvart náttúru og samfélagi. Við ætlum okkur að vera leiðandi afl á virkum orkumarkaði, sem byggir undir þróun atvinnulífs og aukinna lífsgæða. Við ætlum að setja kraft í framtíðina, kraft í sjálfbærnina, kraft í jafnréttismál og koma Íslandi í stuð,“ segir Sólrún Jóna Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Orkusölunnar.