„Konur farnar að fjárfesta í meiri mæli“

Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka, hefur …
Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka, hefur starfað í bankanum í rúm 25 ár og hefur sinnt ýmsum störfum innan bankans. mbl.is/Eggert

Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka, segir mikil verðmæti fólgin í fjárhagslegu sjálfstæði kvenna. 

„Konur fjárfestum er verkefni sem við fórum af stað með á síðasta ári. Við ætlum að halda upp á eins árs afmæli verkefnisins í febrúar á þessu ári en verkefnið snýst um að efla fjármálalæsi kvenna og fá þær til að taka meiri þátt á fjármálamörkuðum,“ segir Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka. Hún bendir á þá staðreynd að þó að Ísland hafi lengi verið í fararbroddi þegar kemur að jafnréttismálum, þá sé jafnrétti ekki til staðar þegar kemur að fjárfestingum. „Við höfum verið fremst á meðal þjóða á heimsvísu undanfarin fimmtán ár en þegar við skoðum tölurnar á bak við fjárfestingar, þátttöku kvenna á verðbréfamarkaði og hvaða fyrirtækjum konur stýra hér á landi þá endurspegla þær tölur ekki þann árangur sem við höfum náð í að jafna hlut kynjanna á öðrum sviðum. Með Konur fjárfestum viljum við leggja okkar af mörkum til að koma íslenskum konum í fremstu röð,“ segir Iða Brá.

Mikil verðmæti fólgin í fjárhagslegu sjálfstæði kvenna

Það er auðheyrt á henni hversu mikil verðmæti eru fólgin í fjárhagslegu sjálfstæði kvenna. „Konur eiga að huga vel að fjármálum sínum og að mínu mati eiga þær – hafi þær svigrúm til – að fjárfesta meira því það byggir undir frelsi þeirra til að taka eigin ákvarðanir og hafa stjórn á lífi sínu,“ segir hún.

Fjármagn stýrir miklu að mati Iðu Brár. „Fjármagn knýr áfram rannsóknir og vöruþróun og stýrir þannig að einhverju leyti ákvarðanatöku í samfélaginu. Þannig geta konur í gegnum fjárfestingarnar sínar haft raunveruleg áhrif á samfélagið.“

Iða Brá segir það sjaldan stýra góðri lukku þegar stjórnarborðið sé skipað einsleitum hópi fólks því ólík sjónarmið þurfi að heyrast. „Ég er búin að starfa í bankanum í rúm 25 ár og hef verið í alls konar störfum innan bankans sem ég tel mjög gott því þá þekki ég gangverk bankans og á auðveldara með að setja mig í spor okkar frábæra starfsfólks á ólíkum sviðum.“

Mælanlegur árangur átaksins Konur fjárfestum

Hún segir að í upphafi ársins 2025 hafi hún farið yfir nýliðið ár. „Það er gaman að segja frá því að við erum að sjá mælanlegan árangur af Konur fjárfestum-verkefninu en í fyrra héldum við 45 fundi sem fjögur þúsund konur sóttu til að fræðast um fjármál, fjárfestingar og hvernig á að stofna fyrirtæki. Við sjáum að nálin er byrjuð að hreyfast í rétta átt, til að mynda var hlutfallsleg aukning eigna á vörslusöfnum kvenna næstum þreföld á við aukningu karla. Þá var hlutfallsleg aukning kvenna í áskriftum í sjóðum tvöföld á við karla. Eins finnum við fyrir aukinni þátttöku þeirra á verðbréfamarkaði sem er mjög ánægjulegt að mínu mati. Þetta er langtímaverkefni sem ég hef trú á að geti haft mikil áhrif,“ segir Iða Brá.

Tryggja starfsfólki að jafnaði 80% af launum í fæðingarorlofi

„Við viljum hafa jafnvægi í öllum starfseiningum og starfaflokkum og erum að hvetja starfsfólkið til að nýta fæðingarorlofsréttinn sinn óháð kyni. Við erum eitt fyrsta einkafyrirtækið á Íslandi sem tryggir starfsfólki að jafnaði 80% af launum í fæðingarorlofi. Við byrjuðum á því verkefni fyrir þremur árum og sáum strax áhrifin af því þar sem fleiri karlmenn tóku fæðingarorlof eftir breytingarnar. Við erum einnig með ferla sem miða að því að fólki líði vel þegar það kemur úr fæðingarorlofi og höfum verið að finna leiðir til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Við stefnum á að opna dagvistun þar sem við verðum með pláss fyrir tíu börn starfsfólks bankans á meðan beðið er eftir plássi á leikskóla,“ segir hún.

Sjálfbærar lánveitingar

Arion banki beindi sjónum að launamun kynjanna áður en jafnlaunavottun var færð í lög, að sögn Iðu Brár, og var fyrsti bankinn til að fá Jafnlaunavottun VR árið 2015 og jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins 2018. „Við höfum sett okkur stífari markmið en gengur og gerist, og finnum að þess konar markmiðasetning hefur skilað okkur góðum árangri.“

Þegar kemur að kostum þess að bankar valdefli þær konur sem starfa fyrir þá segir Iða Brá þá marga. „Allt sem eykur fjölbreytileika er styrkleiki því við viljum ekki að ákvarðanir séu teknar af einsleitum hópi. En við höfum ekki látið þar við sitja, heldur metum við einnig frammistöðu fyrirtækja í jafnréttis- og mannréttindamálum í tengslum við stórar lánveitingar, og jafnrétti kynjanna er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem bankinn leggur áherslu á. Við gáfum einnig nýverið út sjálfbæran lánaramma. Þar falla lánveitingar til lítilla og meðalstóra fyrirtækja í eigu kvenna undir sjálfbærar lánveitingar. Einnig spyrjum við birgja okkar um frammistöðu þeirra í jafnréttismálum í birgjamati og svo mætti lengi áfram telja.“

Þrátt fyrir innleiðingu allra þessara verkefna í bankanum telur Iða Brá mikilvægt að vera vakandi þegar kemur að jafnrétti. „Því þó við höfum náð mjög langt í jafnréttismálum þá þurfum við alltaf að halda áfram með baráttuna. Það er mikilvægt að virða það sem konur af fyrri kynslóðum gerðu og við sem nú erum í ábyrgðarstöðum þurfum að vera vakandi fyrir því að hvetja yngri konur til dáða. Við þurfum að þekkja og skila viðhorf yngri kvenna og hvað kynslóðirnar sem á eftir okkur koma eru að fást við.“

Að finna vinnu sem maður hefur ástríðu fyrir

Hvaða ráð áttu fyrir þær konur sem langar að stíga inn í bankageirann?

„Ég mæli með að konur setji sér skýr markmið, efli tengslanetið sitt og forgangsraði í lífinu. Það er ekki hægt að vera fullkomin á öllum sviðum lífsins. Einblína á styrkleika sína fremur en veikleika en af auðmýkt. Þar að auki finnst mér mikilvægt að finna sér leiðbeinanda (e. mentor), hafa seiglu og kannski mikilvægast af öllu er að vinna við eitthvað sem maður hefur ástríðu fyrir. Það er erfitt að ná árangri í starfi sem manni finnst ekki skemmtilegt, því það þarf að leggja töluvert á sig fyrir árangurinn. Ég er sem betur fer svo heppin að hafa mikla ástríðu fyrir því sem ég er að gera enda alltaf eitthvað spennandi að gerast hjá Arion-samstæðunni, sem samanstendur af Arion banka, Verði tryggingum og sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni. Við munum einmitt á næstu vikum kynna nýtt fríðindakerfi fyrir okkar viðskiptavini sem ég held að muni marka ákveðin tímamót á fjármálamarkaði þar sem það nær til bankaþjónustu Arion, trygginga Varðar og viðskipta í sjóðum Stefnis,“ segir Iða Brá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert